Höskuldur Ólafsson
hoskuldur@mbl.is
„Hingað til hef ég aðallega verið að gera tónlist með öðrum en þessi plata er mín fyrsta frumsamda sólóplata,“ segir Unnur Andrea Einarsdóttir tónlistar- og myndlistarkona sem á dögunum sendi frá sér sjö laga breiðskífu
Elf F O undir listamannsnafninu Apex Anima. Platan kemur út hjá Making Records-útgáfunni sem er rekin af Sigurlaugu Gísladóttur, betur þekktri sem Mr. Silla.
„Við Silla höfum verið vinkonur lengi og hún hefur í gegnum tíðina verið mjög góður ráðgjafi varðandi bæði listrænar og praktískar ákvarðanir um mína tónlist. Svo á hún líka heiðurinn af myndbandi við eitt lagið á plötunni.“
Unnur segir að þegar hugmyndirnar eru komnar úr eþernum í efnið þá finnist henni svolítið eins og sínu verki sé lokið þótt það sé vissulega ekki þannig, það þurfi að fylgja hlutunum eftir með útgáfu og kynningu. „Silla vissi hversu mikil vinna lá bakvið plötuna og ákvað að taka þetta upp á sína arma og fylgja þessu úr hlaði,“ segir hún.
Ayn Rand og Alien
Eins og fyrr sagði er Elf F O (sem er orða- eða stafaleikur að LFO eða „Low Frequency Oscillator“), fyrsta plata Unnar Andreu en listinn yfir þær sveitir sem hún hefur starfað með í gegnum tíðina er langur og um margt merkilegur. Má þar meðal annars nefna MaJiKer, Cocktail Vomit, Indigo, 5tu herdeildina, Peter and the Wolf og Brian Jonestown Massacre en með síðastnefndu hljómsveitinni kemur Unnur Andrea fyrir á tveimur breiðskífum, My Bloody Underground (2008) og Who Killed Sgt. Pepper? (2010).
„Ég hef síðan alltaf verið að semja tónlist sem ég svo hef hlaðið inn á Soundcloud og ekki verið nógu dugleg að segja fólki frá því.“
Unnur Andrea segir að Elf F O sé afrakstur mikillar tilraunastarfsemi og umfjöllunarefnið sótt hingað og þangað. Eitt laganna á plötunni fjallar til að mynda um ímyndaða lærisveinku heimspekingsins og rithöfundarins Ayn Rand og nefnist „I want to lick the eyeballs of free market capitalism“. Lagið „In the deep“ er svo innblásið af Alien-kvikmyndunum og hennar uppáhaldskvikmyndahetju, Ellen Ripley. „Hún [Ripley] fórnar öllu, trilljón dollara geimskipinu, heilli plánetu, sjálfri sér og Xenomorph „barninu“ sínu til að bjarga mannkyninu.“
Tónlistin sjálf er svo innblásin af hinum ýmsu tónlistarstefnum og ég bið hana um nokkra merkimiða. „Þetta er tilraunakennt rafpopp í grunninn,“ segir hún. „Flest lögin myndu flokkast sem danstónlist en svo má greina þá danstónlist niður í teknó, trap, ambíent, hipphopp og heimstónlist þannig að ég er að leika mér með margar stefnur og áhrifavalda,“ segir hún og nefnir líka brasilískt baile fönk, reggaeton og auðvitað popp. „En það er sem sagt mikil áhersla á ryþma- og taktpælingar meðfram innsæi og húmor í textum. Það hefur líka mjög mikil áhrif í hvaða hugarástandi ég er og hvað er að gerast í kringum mig þegar ég er að semja. Allt hefur þetta áhrif á útkomuna.“
Mörg lög í bígerð
Unnur Andrea er annars tiltölulega nýflutt heim frá Noregi þar sem hún var við nám en þar áður bjó hún í Berlín og vann jöfnum höndum að tónlist og myndlist, meðal annars í samstarfi við súludansarann FRZNTE sem kemur við sögu í fyrrnefndu myndbandi.
„Við kynntumst í Berlín og sýndum fyrst árið 2021 á Pop Kultur- hátíðinni. Settum saman sýningu/tónleika þar sem við höfum verið að endurflytja hér og þar, bæði í Berlín og í Noregi en líka á Grikklandi. Við tróðum upp á Iceland Airwaves síðast og verðum svo saman á útgáfutónleikunum 29. desember á Radar.
Myndirðu segja að mörkin milli þinnar tónlistar og myndlistar séu óljós?
„Já, kannski. Ég er mikið í performans-list og allt sem ég geri músíkalskt er hugsað sjónrænt, jafnvel þótt það komist ekki endilega til skila til allra sem hlusta.“
Þess má geta að Elf F O var laust fyrir helgi tilnefnd til Kraumsverðlaunanna, árlegra plötuverðlauna Auroru velgerðarsjóðs, sem verða afhent í 16. sinn síðar í þessum mánuði fyrir þær íslensku hljómplötur er þykja skara fram úr hvað varðar gæði, metnað og frumleika.
Ég spyr hana að lokum hvort þetta sé þá ekki bara blábyrjunin á gifturíkum ferli Apex Anima.
„Ég ætla alla vega að halda áfram. Er með mörg lög í bígerð.“