Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
„Það er alveg sama hvert við komum, í hvaða land, hvaða borg, hvaða bæ. Það eiga allir flottari fótboltavelli en við.“
Þetta sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta, við RÚV í gær, í framhaldi af því að hann baunaði hressilega á Ásmund Einar Daðason ráðherra íþróttamála eftir sigur liðsins gegn Wales í Þjóðadeildinni í Cardiff á föstudagskvöldið.
Aðstöðuleysi íslensku landsliðanna og félagsliðanna sem ná langt í Evrópukeppni er í umræðunni og sviðsljósinu þessa dagana.
Kvennalandsliðið mun væntanlega spila mikilvægan heimaleik erlendis í febrúar, eins og fjallað er um hér til hliðar, en karlalandsliðið „slapp við“ sama hlutskipti í mars þegar það dróst á útivöll í mögulegum úrslitaleik um sæti á EM 2024.
Breiðablik fékk undanþágu til að spila heimaleik á Kópavogsvelli í Sambandsdeildinni í síðustu viku en varð að spila klukkan 13 á virkum degi vegna lélegrar flóðlýsingar.
Hvöss skeyti Þorsteins til ráðherrans voru athyglisverð en ekki síður ofangreind ummæli hans um vellina þar sem Ísland hefur dregist aftur úr öllum Evrópuþjóðum.
Í greininni til hliðar er Tórsvöllur í Færeyjum nefndur til sögunnar og að auki má fara í nánast hvern bæ í efri deildum annars staðar á Norðurlöndunum til að finna leikvang sem myndi sóma sér vel sem þjóðarleikvangur á Íslandi.
Gúglið vellina sem lið í næstefstu deildum grannþjóðanna, eins og til dæmis Start í Noregi, Öster í Svíþjóð og SönderjyskE í Danmörku, spila á. Þá sjáið þið hvað Þorsteinn er að tala um.