Samkvæmt niðurstöðum kynslóðamælingar Prósents hafa áhyggjur manna af loftslagsmálum dalað mjög hressilega frá sams konar mælingu árið 2021. Þá voru „aðgerðir í loftslagsmálum“ efst á blaði hjá öllum aldurshópum þegar spurt var um…

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Samkvæmt niðurstöðum kynslóðamælingar Prósents hafa áhyggjur manna af loftslagsmálum dalað mjög hressilega frá sams konar mælingu árið 2021. Þá voru „aðgerðir í loftslagsmálum“ efst á blaði hjá öllum aldurshópum þegar spurt var um mikilvægi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, en hafa nú fallið niður fyrir miðbikið.

Þetta er meðal helstu niðurstaðna í Íslensku kynslóðamælingunni 2023 og vafalaust þær sem koma mest á óvart. Í könnuninni er litið til viðhorfa og venju hjá Íslendingum, skipt eftir kynslóðum, en þar er litið til vinsællar kynslóðaskiptingar sem rætur á að rekja til Bandaríkjanna.

Trausti Heiðar Haraldsson framkvæmdastjóri Prósents segir að fyrir tveimur árum hafi aðgerðir í loftslagsmálum verið efstar hjá öllum aldurshópunum fjórum, sem mælingin náði til, en þær hafi nú fallið í 4.-5. sæti hjá tveimur yngstu hópunum, sem fæddir eru á tímabilinu 1997-2008 (Z-kynslóðinni) og 1981-1996 (Y-kynslóðinni).

Hjá næstelsta hópnum, sem fæddur er á árunum 1965-1980 (X-kynslóðinni), falla aðgerðir í loftslagsmálum úr 1. í 9. sæti þeirra málaflokka heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem hann telur mikilvægust, jafnvel enn neðar en hjá elsta hópnum, sem fæddur er á árunum 1946-1964 (uppgangskynslóðinni, e. boomer), en meðal hans fóru aðgerðir í loftslagsmálum úr 1. í 7. sæti.

Heilsan í efsta sæti

Að þessu sinni telja allar kynslóðirnar fjórar að heilsa og vellíðan sé það sem skipti þær mestu máli um þessar mundir. Tvær eldri kynslóðirnar sem mælingin tók til, það er að segja uppgangskynslóðin og X-kynslóðin, telja frið og réttlæti það atriði sem skipti þær næstmestu máli. Yngri kynslóðirnar, það er að segja Y-kynslóðin og Z-kynslóðin, setja hins vegar baráttu gegn fátækt í annað sæti hjá sér.

Sem sjá má á töflunni hér að ofan eru megináherslur kynslóðanna nokkuð svipaðar, þó vissulega megi greina nokkurn mun á mikilvægi einstakra flokka, jafnvel svo lesa megi eitthvað í það um mismunandi nálgun kynslóðanna eða áhyggjur.

Á móti má segja að breytingar frá fyrri mælingu séu um margt svo svipaðar hjá kynslóðunum að fremur megi ræða um breyttan tíðaranda. Að einhverju leyti kann það svo að stýrast af reynslu eða breyttum aðstæðum. Þannig skora „góð atvinna og hagvöxtur ekki ýkja hátt“ í heildina, en hins vegar er mestur vöxtur í áherslu á það hjá yngri kynslóðunum.

„Við sjáum þessa viðhorfsbreytingu víða um heim um þessar mundir,“ segir Trausti, sem telur skýringuna kunna að helgast m.a. af vaxandi ófriði í heiminum, langvarandi sóttvarnaaðgerðum vegna covid-19 og verri fjárhagsstöðu heimila.

„Aðgerðir í loftslagsmálum skipta enn alla aldurshópa miklu máli en áherslan hefur færst til og fólk horfir nú greinilega nær sér.“

Sjálfbærni og samfélagsábyrgð

Ráðgjafarfyrirtækið Langbrók og rannsóknarfyrirtækið Prósent hafa að undanförnu unnið að þróun nýs líkans til að mæla betur sjálfbærni og samfélagsábyrgð fyrirtækja út frá viðhorfi neytenda sem verður nánar kynnt til sögunnar á nýju ári og miðar að því að mæla viðhorf til vörumerkja þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð, sjálfbærni og stjórnarháttum. Þær niðurstöður taka til íslenska markaðarins sérstaklega og hvernig íslenskum fyrirtækjum tekst að miðla framlagi sínu í þessum málum til almennings.

„Það er áhugavert að rýna í niðurstöðurnar sem gefa góða mynd af viðhorfum kynslóða til samfélagsábyrgðar. Fólk sem fæðist um síðustu aldamót, eða hin svokallaða aldamóta- eða Z-kynslóð, er ekki með sjálfbærniáherslur ofar í forgangsröðinni en fyrri kynslóðir. Miðað við þessar niðurstöður þá er mikið verkefni fram undan í upplýsingamiðlun er varðar raunveruleg áhrif loftslagsbreytinga á líf fólks og vaxandi áhrif ófriðar í heiminum,“ segir Soffía Sigurgeirsdóttir, einn eigenda Langbrókar.

Kynslóðamælingin

Fjórir hópar

Íslenska kynslóðamælingin er rannsókn á muni á afstöðu og venjum fjögurra kynslóða Íslendinga, sem hófst 2021 og nú eru komnar niðurstöður 2023. Lagðar voru 53 spurningar fyrir stórt úrtak frá júlí til september og um 2.200 svör vegin m.t.t. kyns, aldurs og búsetu.

Kynslóðirnar fjórar sem horft er til eru:

Z-kynslóðin, f. 1997-2008

Y-kynslóðin, f. 1981-1996

X-kynslóðin, f. 1965-1980

Uppgangskynslóðin, f. 1946-1964

Höf.: Andrés Magnússon