Margrét Sæmundsdóttir fæddist á Stað í Steingrímsfirði 26. október 1924. Hún lést á Landakoti 23. nóvember 2023.
Hún var dóttir hjónanna Þórkötlu Soffíu Ólafsdóttur, f. 11. janúar 1892, d. 1. mars 1983, og Sæmundar Brynjólfssonar, f. 12. maí 1888, d. 13. júlí 1974.
Fjölskyldan flutti að Kletti í Gufudalssveit þegar Margrét var á fjórða ári. Eldri systkini hennar voru Matthías, sem lést aðeins 14 ára, og Sigurbjörg. Hin yngri voru Ólína, Brynhildur, Haraldur og Brynjólfur. Þau eru nú öll látin.
Börn hennar eru 1) Ragnheiður Gísladóttir, f. 14. mars 1951, fyrrverandi maki Hannes Einarsson, f. 11. október 1950. Börn þeirra eru Einar, f. 16. janúar 1971, d. 7. júní 2019, og Grétar, f. 10. júní 1972. Sonur Grétars og Ástu Einarsdóttur er Einar Tómas, f. 6. apríl 2001. 2) Sæmundur Garðar Halldórsson, f. 12. október 1960. Hann var kvæntur Pascale Thérèse Escaig, f. í París 1. október 1962, d. 22. maí 2012.
Margrét gekk í Héraðsskólann í Reykjanesi við Djúp og seinna í Húsmæðraskóla að Staðarfelli í Dölum. Um tvítugt flutti hún til Reykjavíkur og lauk þar starfsnámi til að gerast talsímakona. Hún starfaði síðan á Landssímanum til sjötugs. Margrét kom sér upp húsnæði í Vesturbænum, þar sem hún bjó í rúm 60 ár, en síðustu árin bjó hún í eigin íbúð við Skúlagötuna.
Útför Margrétar fer fram frá Neskirkju í dag, 5. desember 2023, klukkan 15.
Það er erfitt að hugsa sér að þú sért farin elsku amma mín og ég á eftir að sakna þín mjög mikið. Minningar um þig og hversu góð þú varst alltaf við mig verða alla tíð í hjarta mínu.
Þegar ég hugsa til barnæsku minnar man ég alltaf hvað mér þótti gott að koma til þín á Dunhagann. Þú varst alltaf í góðu skapi, brosandi, hlý og kærleiksrík. Þá fengum við alltaf pönnukökur hjá þér en þú varst algjör meistari í pönnukökubakstri. Þú varst líka prjónasnillingur og ég man hvað mér þótti gaman að fá lopapeysurnar og vettlingana frá þér. Yfirleitt gerðir þú tvær eins peysur eina á mig og aðra á Inga bróður en okkur þótti mjög flott að vera í eins peysum. Ég man líka svo vel eftir öllum ferðalögunum sem þú fórst í með okkur pabba. Þú elskaðir að ferðast en skemmtilegast fannst þér þegar við fórum í sveitina þína.
Þú sýndir alltaf einlægan áhuga á öllu því sem ég var að gera. Ég vona að ég nái að taka með mér út í lífið marga þína góðu kosti en ég tók snemma eftir því sem barn hvað þú bjóst yfir fallegri samkennd og náungakærleik. Amma, þú lést alltaf öllum líða vel. Mér finnst ég mjög heppinn að hafa átt þig sem ömmu. Það er svo gott að eiga allar þessar fallegu minningar um þig elsku amma mín.
Guð fylgi þér engill þá ferð sem þér ber.
Þótt farin þú sért, þá veistu sem er
að sorg okkar hjörtu nístir og sker.
Við sjáumst á ný þegar kemur að mér.
(Þýð. ÓGK.)
Ég elska þig amma mín og kveð þig í bili.
Einar Tómas Grétarsson.
Elsku amma Margrét. Mikið var sárt að frétta af andláti þínu en hugur minn hefur verið mikið hjá þér undanfarna daga enda varstu mér einstaklega kær. Þú varst í raun amma mín og drengjanna minna þótt blóðtengingin væri bara við Einar son minn.
Amma Margrét var einstakur karakter og tók þeim verkefnum sem lífið lagði fyrir hana með miklu jafnaðargeði og æðruleysi. Það verður ekki sagt að lífið hafi leikið við hana enda mikil manndómsraun fyrir unga sveitastúlku að vestan að koma í bæinn og ná að framfleyta fjölskyldu sinni sem einstæð móðir um miðja síðustu öld. Amma Margrét þurfti því að leggja mikið á sig og færa miklar fórnir í lífinu sem hún gerði með miklum sóma þar sem hún bjó yfir ótrúlegri þrautseigju og dugnaði. Þannig tókst henni að eignast eigin íbúð við Dunhagann og að ala bæði börnin sín upp hjá sér í því húsnæði.
Ég man svo vel þegar ég hitti ömmu Margréti fyrst í sjötugsafmælinu hennar á Dunhaganum fyrir tæpum 30 árum. Hún tók mér strax opnum örmum með sinni miklu hlýju og kærleika. Alltaf var hún boðin og búin að hjálpa. Saumaði alla kjólana á mig fyrir árshátíðirnar í lagadeild. Ánægðust var hún með bláa Jackie-kjólinn enda var það hennar litur. Hún var ekkert annað en listamaður þegar kom að hannyrðum og eru þær ófáar lopapeysurnar sem hún prjónaði á okkur og svo allir mynstruðu ullarvettlingarnir. Hvert par af vettlingum var sem listaverk. Ég gleymi heldur ekki hvað hún var stolt þegar ég og þáverandi sambýlismaður minn eignuðumst okkar fyrstu íbúð. Hún naut þess mjög að koma til okkar og fannst henni ekkert jafnast á við jólin á Laufásveginum.
Amma Margrét var mjög næm á fegurð og mikið náttúrubarn. Hún naut sín best á ferðalögum og þótti dásamlegt að fara með okkur í sumarbústaðinn. Henni fannst náttúrufegurðin þar engu lík enda ein af jólagjöfunum innrömmuð mynd af landslaginu við bústaðinn.
Amma Margrét sleit ekki tengslin við mig þrátt fyrir að ég hafi ekki lengur tilheyrt fjölskyldunni þar sem leiðir okkar barnsföður míns skildi. Það voru fáir sem reyndust mér betur og sýndu mér meiri kærleika en hún á þessum tíma og verð ég henni ævinlega þakklát fyrir það. Við ræddum þetta fyrir nokkrum árum og ég náði að þakka henni fyrir og gera henni ljóst hversu dýrmætt þetta hefði verið fyrir mig. Hún reyndist ekki bara Einari syni mínum dásamleg amma heldur tók hún Inga yngri son minn sem sinn eigin og náðu þau einstakri tengingu. Hún gaf frá sér kærleika og hlýju alla tíð. Ég get ekki gleymt því þegar hún fékk fregnir af alvarlegum veikindum mínum fyrir nokkrum árum. Hún var þá 93 ára gömul og hætt að keyra. Við þessar fréttir varð hún gjörsamlega friðlaus að komast til mín og dreif sig upp í næsta strætó en villtist á leiðinni. Að lokum náði hún að komast til mín þrátt fyrir að hún væri sjálf ekki við góða heilsu. Hún vék ekki frá sjúkrarúmi mínu allan þann daginn. Mikið var gott að fá ömmu Margréti til sín þá.
Ég kveð þig í bili elsku amma Margrét og þú munt ávallt eiga stað í hjarta mínu.
Ásta Einarsdóttir.