Fundur Krossmynstur rennir stoðum undir að myntin sé frá konungi.
Fundur Krossmynstur rennir stoðum undir að myntin sé frá konungi. — Ljósmynd/Ívar Brynjólfsson
Staðfest hefur verið að myntin sem fannst í Þjórsárdal í haust er ósvikin og er að líkindum frá tímum Haraldar blátannar Danakonungs. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í október fann Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður myntina þegar hún var á göngu um…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Staðfest hefur verið að myntin sem fannst í Þjórsárdal í haust er ósvikin og er að líkindum frá tímum Haraldar blátannar Danakonungs. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í október fann Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður myntina þegar hún var á göngu um Þjórsárdal ásamt föður sínum, Þór Magnússyni, fyrrverandi þjóðminjaverði.

Uggi Ævarsson minjavörður Suðurlands sá um að láta greina myntina. Hann segir í samtali við blaðið að hún hafi farið í svokallaðan pXRF-greini Háskóla Íslands. „Niðurstaðan er í samræmi við aðrar greiningar á mynt frá víkingaöld, þ.e. að silfurinnihald er mikið. Teknar voru fjórar mælingar, tvær á mismunandi stöðum á hvorri hlið myntarinnar. Meðaltal mælinganna sýnir að silfurinnihald er 93,5%,“ segir Uggi. Hann segir enn fremur að út frá gerðfræði sverji myntin sig mjög í ætt við þá mynt er Haraldur blátönn Danakonungur lét slá á árunum 970-980. „Mynt Haraldar konungs hefur þótt merkileg bæði vegna aldurs myntsláttunnar en ekki síður vegna krossmynstursins sem á peningunum er. Talið er að dreifing myntarinnar hafi verið liður í trúboði konungs.“

Uggi segir að enn sé beðið eftir áliti danskra og enskra myntsérfræðinga sem gætu sett fundinn í frekara samhengi.

„Myntin fannst á yfirborði í Þjórsárdal og verður að teljast líklegt að hún hafi borist upp á yfirborð með leysingavatni vegna framkvæmda fyrir nokkrum árum. Starfsmenn Minjastofnunar fóru á vettvang og skoðuðu aðstæður en fundu ekki klárar vísbendingar um hvaðan myntin hefur komið. Fundarstaðurinn og nærumhverfi er kominn á vöktunarskrá minjavarðar og mun hann skoða svæðið betur með vorinu.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon