Í Norður-Tyrklandi Íris á fundi með flóttakonum frá Írak árið 2019.
Í Norður-Tyrklandi Íris á fundi með flóttakonum frá Írak árið 2019.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íris Björg Kristjánsdóttir fæddist 5. desember 1973 í Reykjavík. Hún bjó fyrstu ár ævi sinnar í Vesturbergi 98 í Breiðholti en fluttist þaðan í hús móðurömmu og -afa síns á Hjarðarhaga 31 í Vesturbæ Reykjavíkur og þaðan á Seltjarnarnesið þar sem hún bjó frá 5 ára aldri

Íris Björg Kristjánsdóttir fæddist 5. desember 1973 í Reykjavík. Hún bjó fyrstu ár ævi sinnar í Vesturbergi 98 í Breiðholti en fluttist þaðan í hús móðurömmu og -afa síns á Hjarðarhaga 31 í Vesturbæ Reykjavíkur og þaðan á Seltjarnarnesið þar sem hún bjó frá 5 ára aldri.

Íris gekk í Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla. Hún byrjaði í Menntaskólanum í Reykjavík, en varð móðir sautján ára og varð síðan stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1994. Hún stundaði nám í bókmenntafræði og kynjafræði við Háskóla Íslands en fór svo í mannfræði við HÍ og lauk BA-námi 2003. Hún lauk síðan meistaragráðu í mannfræði frá HÍ 2009 en hafði tekið hluta námsins við Kaupmannahafnarháskóla.

Íris var skrifstofustjóri Norræna sakfræðiráðsins 2009-2011, formaður innflytjendaráðs og flóttamannanefndar hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu 2011-2014 og var sérfræðingur og teymisstjóri í dómsmálaráðuneytinu 2014-2019. Íris flutti til Ankara í Tyrklandi um mitt ár 2017 til að starfa á vegum íslensku friðargæslunnar í málefnum flóttafólks. Hún var síðan sérfræðingur og yfirmaður átaka-, friðar- og mannúðarmála hjá UN Women í Istanbúl í Tyrklandi 2019-2022.

„Til að byrja með var meginverkefni mitt að byggja upp verkefni UN Women í landinu í tengslum við aðbúnað og viðbragð vegna kvenna á flótta og þá sérstaklega sýrlenskra en Tyrkland er það land sem hefur tekið á móti og skotið skjólhúsi yfir stærsta fjölda flóttafólks, eða tæplega 4 milljónir. Við unnum í nánu samstarfi við alþjóðlegar mannúðarstofnanir sem og með frjálsum félagasamtökum í landinu og verkefni okkar náðu út fyrir landamæri Tyrklands.

Á þeim tíma sem ég dvaldi í Istanbúl þá var ég mikið á ferðinni. Ég var að vinna í löndum Mið-Asíu, Tajdsikistan sem er minnsta og fátækasta ríki Mið-Asíu, Kasakstan, Kirgistan og Úsbekistan, einnig Kákasuslöndunum, Vestur-Balkanlöndunum og svo Tyrklandi og Úkraínu. Þetta var ómetanleg reynsla sem hefur breytt lífssýn minni. Flesta daga er ég í sambandi við einhverja vini og fyrrverandi samstarfsfólk í þessum löndum.“

Einn flottasti samstarfsmaður minn og vinkona var yfirmaður skrifstofu UN Women á Gaza í Palestínu. Hún hefur verið mín helsta fyrirmynd í lífi og störfum. Ég hef sjaldan séð þvílíka seiglu, úthald og trú á að hægt sé að bæta líf og aðstæður fólks eins og hjá henni. Það hefur verið óbærilegt að vita af henni, fjölskyldu hennar og fimm börnum í þeim skelfilegu aðstæðum sem þar eru núna. Alla daga er hugur minn hjá þeim.“

Í mars 2022 fékk Íris leyfi frá störfum hjá UN Women til að taka við starfi í sérfræðings í forsætisráðuneytinu. „Það var ómetanlegt tækifæri að fá að kynnast og vinna með forsætisráðherra okkar, Katrínu Jakobsdóttur. Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig það er að starfa í innstu hringiðu Stjórnarráðsins og hversu áhugaverð, flókin og breytileg málin eru. Eftir að hafa starfað erlendis í nokkur ár, þá horfa hlutirnir stundum öðruvísi við hjá mér. Þrátt fyrir að verkefnin og viðfangsefnin séu erfið og þung þá eru þau samt sem áður svo viðráðanleg í samanburði við viðfangsefnin í mörgum öðrum löndum.“

Íris tók nýlega við starfi sviðsstjóra alþjóða- og landamærasviðs ríkislögreglustjóra. „Ég hef gaman af því að takast á við nýjar áskoranir og er þakklát fyrir að fá tækifæri til að vinna hjá embætti ríkislögreglustjóra og því góða fólki sem þar er. Þarna fæ ég að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi t.d. með stofnunum eins og Interpol, Europol og Landamærastofnun Evrópu og reynsla mín af alþjóðasamstarfi kemur að góðum notum.“

Íris hefur setið í fjölda nefnda og stjórna á Íslandi sem erlendis. Hún sat í nefnd mannfræðideildar Háskóla Íslands og stjórn Norrænnar kynjastofnunar (NIKK), hún var formaður innflytjendaráðs og formaður flóttamannanefndar og var fulltrúi í vinnuhóp Evrópuráðsins um fólksflutninga og mannréttindi. Hún situr nú í stjórn The Nordic Institute for Migration, með aðsetur í Osló. Hún er fulltrúi í Íslandsdeild norræns netverks kvenna um friðarumleitanir og situr í stjórn nýstofnaðra alþjóðasamtaka, Women for Afghanistan, í Genf.

Áhugamál Írisar eru samvera með börnunum og barnabörnunum og heimsmálin. Svo reynir hún að fara á hverju einasta sumri á Látra í Aðalvík þaðan sem hún er ættuð. „Ég fylgist mjög mikið með því sem er að gerast erlendis og vakta marga fjölmiðla. Svo ferðast ég líka um heiminn gegnum bókmenntir, bíómyndir og sjónvarpsþætti. Einn daginn er ég að horfa á mynd frá Kóreu og næsta dag frá Indlandi og þar á eftir þætti frá Tyrklandi.

Því meira sem ég ferðast og því meira sem ég kynnist fólki frá ólíkum heimshlutum þeim mun meir upplifi ég að við eigum miklu meira sameiginlegt en við teljum þrátt fyrir ólíkt uppeldi eða aðstæður. En fyrst og fremst slær hjarta mitt með fólki á átakasvæðum og þeim sem af ólíkum ástæðum eru hrakin á flótta.“

Fjölskylda

Fyrrverandi maki Írisar og barnsfaðir er Þórir Bergsson, f. 16.12. 1968, veitingamaður. Foreldrar hans eru hjónin Bergur Felixson, f. 14.10. 1937, framkvæmdastjóri hjá Leikskólum Reykjavíkur, og Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 8.2. 1942, hjúkrunarfræðingur, búsett í Reykjavík.

Börn Írisar eru 1) Daníel Takefusa Þórisson (stjúpsonur), f. 31.1. 1990, verkefnastjóri hjá Controlant og leikari. Maki: Ásdís Eva Ólafsdóttir, forstjóri Arctic Circle, og sonur þeirra er Ólafur Gabríel, f. 8.2. 2023; 2) Jóhanna Guðrún Sigurðardóttir, f. 19.10. 1991, sérfræðingur hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar (faðir: Sigurður Örn Jónsson verkfræðingur, f. 13.6. 1970), Maki: Kristján Harðarson læknanemi og dóttir þeirra er María Katrín, f. 1.7. 2021; 3) Guðbergur Emil Þórisson, f. 16.7. 2004, nemi, og 4) Ingibjörg Unnur Þórisdóttir, f. 30.1. 2006, nemi.

Systkini Írisar eru Gunnar Heimir Kristjánsson, f. 13.6. 1966, brunaverkfræðingur, búsettur í Reykjavík; Marín Kristjánsdóttir, f. 1.12. 1971, sölumaður, búsett í Noregi, og Kristján Unnar Kristjánsson, f. 20.9. 1979, kvikmyndagerðarmaður, búsettur í Grafarvogi.

Foreldrar Írisar: Hjónin Kristján Georgsson, f. 4.6. 1949, fv. sölumaður hjá Vélasölunni, búsettur í Reykjavík, og Jóhanna Guðrún Gunnarsdóttir, f. 26.9. 1949, d. 6.10. 2018, söngkona. Þau giftu sig 21.6. 1968, þá 17 og 18 ára gömul og höfðu verið gift í tæp 50 ár þegar hún lést.