Þessa dagana gengur hvorki né rekur í stríðinu í Úkraínu. Raunar hefur víglínan vart haggast í heilt ár.
Úkraínumenn blésu til sóknar í vor. Volodimír Selenskí forseti Úkraínu var fullur bjartsýni. Míhaíló Podoljak talsmaður hans sagði í apríl að innan hálfs árs yrði Krímskagi á valdi Úkraínu. Það væri álíka sennilegt að Rússar bæru sigur úr býtum í stríðinu og að Norður-Kórea ynni Brasilíu sjö-núll á HM.
Í byrjun nóvember birtist viðtal í tímaritinu The Economist við Valerí Salúsjní, yfirmann úkraínska heraflans, þar sem hann sagði að vígvöllurinn í Úkraínu minnti sig á þegar barist var í fyrri heimsstyrjöld fyrir rúmri öld.
„Rétt eins og í fyrri heimsstyrjöld höfum við náð tæknistigi sem setur okkur í pattstöðu,“ sagði hann og kvaðst telja að það þyrfti tæknistökk til þess að slá á hnútinn. Kvaðst hann hafa vanmetið hvað Rússar væru tilbúnir að færa miklar mannfórnir í stríðinu.
Selenskí andmælti reyndar herforingja sínum og sagði að ekki væri um neina pattstöðu að ræða, en það breytir ekki því sem blasir við. Staðan minnir óneitanlega á fyrri heimsstyrjöld. Það er auðveldara að verjast en sækja og þeir sem ráðast fram eru einfaldlega að senda lið sitt í opna byssuhvofta eða inn á stórhættuleg sprengjusvæði.
Stríðið hefur þegar reynst dýrkeypt. Erfitt er að átta sig á mannfallinu, en samkvæmt mati, sem bandarískir embættismenn birtu í ágúst, var tala fallinna og særðra þá farin að nálgast hálfa milljón manna. 170 þúsund Rússar hefðu fallið og 170 til 180 þúsund særst og sennilega hefðu 70 þúsund Úkraínumenn fallið og á milli 100 og 120 þúsund særst.
Það er eitt að stappa stálinu í heila þjóð og fá hana til að snúa bökum saman um að hrekja óvin af höndum sér. En hvað gerist þegar það mistekst og ekki sér fyrir endann á átökunum? Þegar stríð verður viðvarandi ástand?
Viðhorf Selenskís er að ekki komi til greina að semja við Rússa fyrr en allt það land, sem Rússar hafa lagt undir sig, verði endurheimt, þar með talinn Krímskagi.
Baráttuandi Úkraínumanna virðist reyndar óbilandi og í huga flestra kemur ekki annað til greina en sigur. Að nema staðar núna væri ósigur.
Það er hins vegar ekki einfalt að halda stríðinu gangandi. Um þessar mundir eru 800 þúsund manns undir vopnum í Úkraínu. Það verður ekki auðveldara með tímanum að finna hermenn.
Úkraína þarf líka á stuðningi að halda utan frá. Þar hafa Bandaríkin og Vestur- og Mið-Evrópa borið hitann og þungann. Selenskí hefur verið óbilandi við að sækja stuðning fyrir Úkraínu, en er hætta á að hann fari að tala fyrir daufum eyrum?
Úkraína hefur fengið herstuðning víða að. Mikilvægastur hefur stuðningurinn í þeim efnum verið frá Bandaríkjunum. Í röðum repúblikana er hins vegar óeining um hversu langt eigi að ganga í stuðningi við Úkraínu og sömuleiðis spyrja bandarískir kjósendur hversu miklu fé eigi að verja í þetta stríð. Í gær varaði fjárlagastjóri Hvíta hússins við því að næðist ekki að afgreiða framhald á framlögum til Úkraínu fyrir áramót gæti það vængstýft úkraínska herinn.
Þessi ummæli voru vissulega ekki ætluð til að skjóta Úkraínumönnum skelk í bringu, heldur til heimabrúks, en gætu þó vakið ráðamenn í Kænugarði til umhugsunar.
Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hafa líka áhrif á það sem gerist í Úkraínu. Eftir því sem þeir sem helst styðja Úkraínu hafa í fleiri horn að líta er hætt við að minna verði til skiptanna fyrir Úkraínumenn. Ekki er til endalaust af sprengjum og loftvarnarkerfum.
Vladimír Pútín forseti Rússlands er ekki tilbúinn að gefa eftir frekar en Selenskí. Það hefði mátt ætla að Rússar risu upp öndverðir yfir þeim fórnum, sem eru færðar í þessu stríði, sem forseti þeirra efndi til. Það tekur sinn toll í mannslífum og ekki batna lífskjörin í Rússlandi meðan á því stendur. Og ekki verða Rússar Úkraínumönnum kærari eftir því sem á það líður.
Enginn virðist hins vegar líklegur til að bjóða Pútín birginn.
Nú er staðan sú að hvorki Rússar né Úkraínumenn eru tilbúnir að gefa eftir. Hvorugir geta heldur brotist út úr pattstöðunni. Því blasir við langt þreytistríð, jafnvel næstu árin, að því er sumir vestrænir ráðamenn eru farnir að óttast. Það er óbærileg tilhugsun.