Hrefna Björnsdóttir frá Fáskrúðsfirði fæddist í Þórunnarseli í Kelduhverfi 7. júlí 1929. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund 24. nóvember 2023.

Foreldrar hennar voru Björn Daníelsson, búfræðingur og skólastjóri, f. 2. apríl 1882, d. 24. janúar 1969, og Guðný Elísabet Einarsdóttir húsfreyja, f. 7. mars 1897, d. 17. ágúst 1964. Hrefna átti einn bróður, Baldur, f. 14. júlí 1921, d. 11. október 2007. Einnig eignuðust foreldrar Hrefnu stúlku 16. febrúar 1924 sem skírð var Hrefna, hún lést 10. ágúst 1928.

Fyrstu tvö ár ævi sinnar bjó Hrefna með foreldrum sínum og bróður í Þórunnarseli í Kelduhverfi en þaðan fluttist fjölskyldan til Fáskrúðsfjarðar árið 1931. Hrefna gekk í barnaskólann á Fáskrúðsfirði og ólst þar upp við leik og ýmis störf. Hún var, ásamt vinkonu sinni, fyrst kvenna í Búðaþorpi til að taka bílpróf og keyrði Hrefna vörubíl kaupfélagsins um tíma og vann síðar á símstöðinni í þorpinu. Veturinn 1948-49 stundaði Hrefna nám í Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði.

Hrefna giftist Sigurði Haraldssyni frá Fáskrúðsfirði 28. júlí 1951. Þau skildu 1973. Börn Hrefnu og Sigurðar eru fjögur: 1) Birna, f. 5.12. 1951. Sonur hennar er Sigurður Þór Sæmundsson, f. 1971. Kona hans er Kolbrún Sigurjónsdóttir og dætur þeirra Birna og Nadía. 2) Guðný María, f. 13.2. 1954. Börn hennar eru: a) Sigurður Björn Gilbertsson, f. 1971. Kona hans er Heiða Þorsteinsdóttir og börnin Gilbert Arnar og Eva María. b) Tinna Gilbertsdóttir, f. 1980. Maður hennar er Vilhjálmur Vilhjálmsson og synir þeirra Henrý Þór og Björn Daníel. 3) Haraldur, f. 14.4. 1956. Dóttir hans er Sunna Björk, f. 1983, synir hennar eru Rökkvi Freyr og Ísar Flóki. 4) Hrafn, f. 15.9. 1957. Kona hans er Ingigerður Öfjörð. Börn þeirra eru: a) Hrefna, f. 1985, maki hennar er Sigurður Karl Hólmfríðarson og börn Inga María, Kristín Eva, Snævar Jökull og Sveinar Birnir. b) Jökull, f. 1990.

Seinni eiginmaður Hrefnu var Sigurður Guðmundsson, f. 7.4. 1926, d. 13.10. 2013. Börn hans frá fyrra sambandi eru: a) Guðmundur, f. 1951, kona hans er Kolbrún Dagbjört Sigurðardóttir. b) Hjördís, f. 1962, sambýlismaður hennar er Kristján Gunnarsson.

Hrefna og Sigurður Haraldsson bjuggu á Fáskrúðsfirði fyrstu búskaparár sín en fluttu þaðan árið 1957 til Reykjavíkur, svo til Akraness þaðan sem leiðin lá til Stykkishólms og loks fluttu þau í Kópavog þar sem þau bjuggu seinni hluta búskaparára sinna. Hrefna var heimavinnandi húsmóðir í 22 ár en lærði síðan vélritun og fór aftur út á vinnumarkaðinn og hóf þá störf sem ritari á dvalarheimilinu Grund þar sem hún vann um árabil. Árið 1977 giftist Hrefna seinni eiginmanni sínum, Sigurði Guðmundssyni. Þau fluttu til Grindavíkur árið 1978 þar sem Hrefna rak Úrabúðina um 20 ára skeið. Hrefna og Sigurður Guðmundsson fluttu aftur til Reykjavíkur árið 1998 og hóf Hrefna þá aftur störf á Grund, þar sem hún sá meðal annars um morgunstundina og bókavagninn og ýmis önnur samskipti við heimilisfólk allt þar til hún veiktist og missti starfsþrekið í mars árið 2021. Síðustu ár sín átti Hrefna svo sitt heimili á Grund.

Útför Hrefnu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 5. desember 2023, klukkan 13.

Elsku amma. Ég er búin að kvíða því lengi að skrifa til þín minningargrein. Andlát þitt var yfirvofandi en það er erfitt að það sé komið að hinu óumflýjanlega. Að kveðja þig. Einu ömmu mína sem ég hef notið þeirrar gæfu að eiga að. Þú ert búin að vera svo stór partur af mínu lífi og ein mín allra mikilvægasta manneskja. Ég hef verið heppin að eiga þig svona lengi og fá að njóta samverustunda með þér allt til hins síðasta. Minningarnar hrannast upp. Allar svo ljóslifandi og fallegar. Þú varst einfaldlega ein allra besta manneskja sem ég hef kynnst og mín helsta fyrirmynd. Faðmur þinn var alltaf hlýr og opinn, brosið náði alltaf til augnanna, hláturinn kitlandi og ég fann ástina og væntumþykjuna streyma frá þér algjörlega skilyrðislaust.

Ég minnist allra skemmtilegu heimsóknanna til þín og afa til Grindavíkur. Í eitt skiptið fór ég ein til ykkar, fimm ára gömul, í rútu frá Reykjavík. Ég hafði sofnað og þú hljópst inn að leita að mér og fannst mig í öftustu röð. Þá brá þér í brún við að finna mig ekki strax. Þegar ég kom til ykkar í pössun þá svafst þú alltaf við hliðina á litlu myrkfælnu mér, sagðir mér sögur, söngst og fórst með bænirnar með mér. Það var svo notalegt. Ég man líka þegar ég stalst alltaf í litla boxið í ísskápnum og borðaði allan fiskinn sem Kleó átti að fá (og drakk soðið). Þú leyfðir mér að stela „kattafiskinum“ því ég var mikilvægari en kötturinn. Þú spurðir mig alltaf áður en ég kom í heimsókn til ykkar „viltu togarasteik eða steikt lambahjörtu?“ því þú vildir að ég fengi uppáhaldsmatinn minn hjá þér. Ég er fegin að ég skyldi biðja þig að skrifa uppskriftina niður að lambahjörtunum fyrir nokkrum árum. Þú vissir það kannski ekki þá, en ástæðan fyrir að ég bað þig að handskrifa uppskriftina var að mig langaði að fá að eiga þennan blaðsnepil með fallegu rithöndinni þinni. Að kvöldi var alltaf sest niður yfir „kvöldkaffi“ til að spjalla og þá voru uppáhaldsappelsínukökurnar og mjólkurglas iðulega á borðum. Þvílíkar gæðastundir að eiga í minningabankanum.

Þú varst heill hafsjór af fróðleik, víðlesin, mikill íslenskufræðingur í þér og óþreytandi við að leiðrétta þágufallssýkina þegar ég talaði. Ég lofa að ég mun aldrei segja „mér hlakkar til“ aftur. Þegar ég fékk þig til að lesa yfir BA-ritgerðina mína þá man ég þegar þú hringdir í mig eitt kvöldið og gast varla borið upp erindið við mig því þú hlóst svo mikið. Þá hafði mér tekist að skeyta saman tveimur orðatiltækjum í eitt og útkoman var ansi skondin.

Elsku amma, þú varst svo gefandi og yndisleg manneskja að fólk hreinlega flykktist að þér. Þú varst mörgum svo mikilvæg og gafst svo mikið af þér. Ég mun sakna allra samverustundanna okkar, símtalanna og sögustundanna. Þú hafðir alltaf óbilandi trú á mér og ég fékk ætíð botnlausan stuðning og hvatningu frá þér. Takk fyrir allt elsku besta amma mín. Það verður skrýtið að þurfa að venjast lífinu án þín. Sofðu vel, við sjáumst síðar en þangað til, þá hittumst við í draumheimum. Ég elska þig.

Þín

Tinna.

Þá er komið að kveðjustund, elsku besta vinkona. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa kynnst ykkur Sigga heitnum á Brávallagötunni fyrir yfir 20 árum. Frá fyrsta degi tókuð þið á móti mér opnum örmum og síðan þá var ég alltaf umvafin hlýju og kærleik í návist ykkar. Ég er innilega þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman síðustu mánuði. Við náðum að nota þann tíma vel, fengum okkur góðan mat, eftirrétti, hlógum, spjölluðum og létum hvor aðra vita hversu vænt okkur þótti um hvor aðra. Ég kom daglega til þín síðustu dagana því ég vissi, eins og þú sjálf, að tíminn var að hlaupa frá okkur. Á föstudeginum keyrði ég til þín fyrir hádegi, það tók mig smá tíma að átta mig á því að þú værir farin. Ég sagði þér hversu vænt mér þætti um þig, kyssti þig og gekk út. Þegar ég var á leiðinni niður stigann fannst mér ég þurfa að segja þér það einu sinni enn hversu heitt ég elska þig.

Við Óli og Nonni viljum nota tækifærið og senda aðstandendum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Siggerður, Ólafur Helgi, Jón Aðalsteinn.

Rúmlega 94ra ára kvaddi hún þennan heim, en lífsgleðin og lífsþorstinn skein af henni til síðasta dags.

Árið 1974 kynntist Hrefna Björnsdóttir seinni manni sínum, Sigurði Guðmundssyni. Þau giftu sig á gamlársdag 1977 og bjuggu lengst af í Grindavík.

Sigurður var föðurbróðir Ingibjargar og í gegnum hann kynntumst við Hrefnu og auðvitað alveg sérstaklega eftir að þau fluttu í litla einbýlishúsið sem þau reistu á Selsvöllunum í Grindavík.

Samgangur varð mikill, sérlega gefandi og skemmtilegur. Að kynnast Hrefnu var eins og að vinna stóran vinning í lífsins happdrætti.

Hún var sérlega glæsileg kona, bar með sér góðan þokka og mátti ekkert aumt sjá. Víðlesin, mælsk og sérlega viðræðugóð. Margir geta verið einum of málglaðir fyrir annarra smekk, en það var Hrefna aldrei.

Það var alveg sama hvað var til umræðu, það var alltaf unun að hlýða á málflutning hennar, röddin var hljómfögur og ást hennar á móðurmálinu sýndi sig best í meðferð hennar á því, máltæki og tilvitnanir í bókmenntaverk voru henni tamari á tungu en flestu fólki. Í raun kenndi hún okkur að meta Halldór Laxness. Hún sagði einhverju sinni að í enginn gæti með góðu móti verið til án þess að hafa lesið Sjálfstætt fólk eftir Nóbelsskáldið. Við hjónin lásum bókina og þá rann sannleiksgildi orða hennar og Nóbelsskáldsins upp fyrir okkur.

Hrefna kom víða við í atvinnulífinu, lengi vann hún á skiptiborðinu á Grund í Reykjavík og sá um Heimilispóstinn, innanhússfréttablað fyrir vistfólkið. Eftir að hún flutti til Grindavíkur rak hún lengi Úrabúðina, sem var útibú frá Gilberti úrsmið í Reykjavík.

Síðustu árum sínum saman eyddu Hrefna og Siggi í Reykjavík, með búsetu á Brávallagötunni, og Hrefna tók að hluta upp sín fyrri störf á Grund, meðal annars með því að lesa reglulega fyrir vistfólkið.

Siggi andaðist á sjúkrahúsi á Torrevieja fyrir um tíu árum og fráfall hans varð Hrefnu mikill og erfiður harmur, en með þeim fjölbreyttu mannkostum sem hún bjó yfir náði hún sér bærilega á strik.

Hrefna Björnsdóttir var að engu leyti einhver meðalmanneskja. Kollurinn ávallt eins og nýuppfærð tölva og lífsgleðin takmarkalaus. Virkilega glæsileg kona sem sópaði að hvar sem hún kom og hvað sem hún gerði.

Hún var þeim fágæta eiginleika gædd að gera allt í kring um sig betra og fegurra. Að fá tækifæri til að kynnast henni var vissulega stór vinningur í lífsins happdrætti.

Innilegar samúðarkveðjur til allra þeirra sem nú eiga um sárt að binda vegna fráfalls Hrefnu Björnsdóttur.

Björn Birgisson,
Ingibjörg Gunnlaugsdóttir.