Gerður Kristný Guðjónsdóttir
Gerður Kristný Guðjónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tilkynnt hefur verið hvaða listamenn og hönnuðir fái starfslaun á komandi ári. Til úthlutunar úr launasjóðnum eru 1.600 mánaðarlaun úr sex launasjóðum: hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda, sviðslistafólks, tónlistarflytjenda og tónskálda

Tilkynnt hefur verið hvaða listamenn og hönnuðir fái starfslaun á komandi ári. Til úthlutunar úr launasjóðnum eru 1.600 mánaðarlaun úr sex launasjóðum: hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda, sviðslistafólks, tónlistarflytjenda og tónskálda.

Á vef Rannís kemur fram að fjöldi umsækjenda var 1.032, þar af 924 einstaklingar og 108 sviðslistahópar. Sótt var um í heild 9.336 mánuði, þar af 1.357 mánuði innan sviðslistahópa. Úthlutun fær 241 listamaður. Við það bætist úthlutun til sviðslistahópa úr launasjóði sviðslistafólks sem tengist Sviðslistasjóði. Úthlutun úr sjóðnum verður tilkynnt á nýju ári. Mánaðarleg upphæð starfslauna listamannalauna árið 2024 verður tilkynnt eftir að fjárlög ársins hafa verið samþykkt á Alþingi. Starfslaun listamanna árið 2023 voru 507.500 kr. en um verktakagreiðslur er að ræða.

Fjöldi listamanna

Úr Launasjóði myndlistarmanna fá eftirtalin starfslaun í 12 mánuði: Arna Óttarsdóttir, Gústav Geir Bollason, Haraldur Jónsson, Hildigunnur Birgisdóttir, Katrín Sigurðardóttir, Melanie Ubaldo, Pétur Thomsen, Sigríður Björg Sigurðardóttir, Sigurður Guðjónsson og Steinunn Marta Önnudóttir.

Níu mánuði fá Anna Rún Tryggvadóttir, Erla Sylvía H Haraldsdóttir, Hrafnhildur Arnardóttir, Katrín Bára Elvarsdóttir og Magnús Tumi Magnússon. Sex mánuði fá meðal annars Ásta Fanney Sigurðardóttir, Einar Falur Ingólfsson, Eygló Harðardóttir, Finnbogi Pétursson, Finnur Arnar Arnarson og Jóna Hlíf Halldórsdóttir.

Úr Launasjóði rithöfunda fá 12 mánaða laun þau Bragi Ólafsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Gerður Kristný Guðjónsdóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir, Gunnar Helgason, Hallgrímur Helgason, Hildur Knútsdóttir, Jón Kalman Stefánsson, Kristín Eiríksdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Steinar Bragi Guðmundsson og Þórdís Gísladóttir.

Starfslaun í níu mánuði fá Andri Snær Magnason, Arndís Þórarinsdóttir, Áslaug Jónsdóttir, Bergrún Íris Sævarsdóttir, Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Fríða Jóhanna Ísberg, Gunnar Theodór Eggertsson, Jónas Reynir Gunnarsson, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Margrét Vilborg Tryggvadóttir, Pedro Gunnlaugur Garcia, Ragnar Helgi Ólafsson, Ragnheiður Sigurðardóttir, Sigrún Eldjárn, Sölvi Björn Sigurðsson, Vilborg Davíðsdóttir, Yrsa Þöll Gylfadóttir og Þórunn Elín Valdimarsdóttir. Sex mánuði fá m.a. Auður Ólafsdóttir, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Einar Kárason, Einar Már Guðmundsson, Rán Flygenring, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir, Þórdís Helgadóttir og Ævar Þór Benediktsson.

Úr Launasjóði sviðslistafólks fá Bjarni Jónsson, Gígja Jónsdóttir og Tyrfingur Tyrfingsson laun í sex mánuði.

Úr Launasjóði tónskálda fá 12 mánuði þau María Huld Markan Sigfúsdóttir, Skúli Sverrisson og Veronique Jacques og níu mánuði Hrafnkell Flóki Kaktus Einarsson, Sóley Stefánsdóttir, Úlfur Eldjárn og Örvar Smárason. Úr launasjóði tónlistarflytjenda fær Elfa Rún Kristinsdóttir starfslaun í 12 mánuði, Hallveig Rúnarsdóttir í 10 mánuði en Eva Þyri Hilmarsdóttir og Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir í níu.

Úr Launasjóði hönnuða fær Aníta Hirlekar starfslaun í níu mánuði og í sex mánuði þær Anna María Bogadóttir, Eygló Margrét Lárusdóttir og Sólveig Dóra Hansdóttir.

Rithöfundar fá mest

Flestir mánuðir voru til úthlutunar úr Launasjóði rithöfunda, alls 555; 435 mánuðir í Launasjóði myndlistarmanna; alls 190 mánuðum er úthlutað úr Launasjóði sviðslistafólks sem skiptist í 51 mánuð til einstaklinga og 139 mánaði til hópa; 190 úr Launasjóði tónskálda; 180 mánuðum úr Launasjóði tónlistarflytjenda og 50 úr Launasjóði hönnuða.

Starfslaun fá 11 hönnuðir, 67 myndlistarmenn, 80 rithöfundar, 14 sviðslistamenn í einstaklingsflokknum, 39 tónlistarmenn og 30 tónskáld. Listann yfir þá sem fá starfslaun má lesa á vef Rannís, rannis.is, og einnig á mbl.is.