Stjórnsýsla Íþyngjandi innleiðing á ESB-reglum skerðir samkeppnishæfni og eykur stjórnsýslubyrði og kostnað.
Stjórnsýsla Íþyngjandi innleiðing á ESB-reglum skerðir samkeppnishæfni og eykur stjórnsýslubyrði og kostnað. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arinbjörn Rögnvaldsson arir@mbl.is Það er ákveðinn freistnivandi að gullhúða ESB-regluverk við innleiðingu hér á landi, þar sem stjórnkerfið nýtir tækifærið til að bæta við ýmsum ákvæðum sem ekki er að finna í upprunalega regluverkinu.

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Það er ákveðinn freistnivandi að gullhúða ESB-regluverk við innleiðingu hér á landi, þar sem stjórnkerfið nýtir tækifærið til að bæta við ýmsum ákvæðum sem ekki er að finna í upprunalega regluverkinu.

Þetta segir Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið. Diljá Mist, ásamt fleiri þingmönnum flokksins, hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér breytingar á lögum um ársreikinga og uppfærslu á stærðarmörkum örfyrirtækja. Að hennar sögn miðar frumvarpið að því að rétta hlut og minnka stjórnsýslubyrði lítilla fyrirtækja.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að tilefni þess sé íþyngjandi innleiðing EES-gerða (tilskipana og reglugerða), sem oft eru innleiddar á Íslandi með meira íþyngjandi hætti en EES-samstarfið kveður á um og ganga lengra en samskonar reglur í Evrópusambandinu (ESB). Hafa slík vinnubrögð verið nefnd gullhúðun hér á landi.

Ólíkar kvaðir eftir stærð

Markmið frumvarpsins er að færa stærðarmörk örfélaga í samræmi við ársreikningstilskipunina frá árinu 2016. Þegar tilskipunin var innleidd hér á landi sama ár var ákveðið að hafa stærðarmörkin minni en tilskipunin mælti fyrir um. Ef stærðarmörkin verða færð í upprunalegt horf mun það minnka til muna kvaðir sem eru settar á mörg lítil fyrirtæki hér landi, sem eiga með réttu að vera skilgreind sem örfélög.

Samkvæmt reglugerðinni eru félög flokkuð í fjóra flokka eftir stærð þeirra, þ.e. örfélög, lítil félög, meðalstór félög og stór félög. Skal sú flokkun byggjast á niðurstöðutölu efnahagsreiknings, hreinni veltu og fjölda ársverka. Öllum félögum öðrum en örfélögum er skylt samkvæmt lögum að geyma skýrslu stjórnar og ársreikningur meðalstórra og stórra félaga skal einnig innihalda sjóðsstreymisyfirlit.

Stærðarmörkum verði breytt

Til að félög séu skilgreind sem örfélög samkvæmt núverandi fyrirkomulagi, mega þau ekki vera yfir tveimur af þremur eftirfarandi viðmiðum; Hrein eign má ekki vera yfir 20 milljónir króna, hrein velta ekki yfir 40 milljónir króna og ársverk ekki fleiri en þrjú.

Frumvarpið miðar að því að breyta stærðarmökum örfélaga. Þannig er lagt til að upphæð heildareigna örfélaga verði hækkuð úr 20 milljónum króna í 55 milljónir, að hrein velta hækki úr 40 milljónum króna í 110 milljónir og að meðalfjöldi ársverka hækki úr þremur í tíu. Það er í samræmi við fyrrnefnda EES-tilskipum.

Diljá Mist segir að breytingin muni einfalda reikningsskil margra fyrirtækja á Íslandi, sem verða í framhaldinu skilgreind örfélög í stað lítilla félaga. Örfélögum er heimilt að láta semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit sem eru byggð á skattframtali þeirra í stað ársreiknings, sem ætti að gefa glögga mynd af afkomu þeirra. Það sé mun einfaldari aðferð við reikningsskil og minnki fyrir vikið kostnað.

Flutningsmenn frumvarpsins eru þeirrar skoðunar að þrátt fyrir að Ísland státi hlutfallslega af fleiri örfélögum en önnur ríki, eigi það ekki að leiða til frekari þrengingar á hugtakinu hér landi en viðgengst í ESB. Íslensk félög sem falla undir skilgreiningu ESB á örfélögum eiga að hafa jöfn tækifæri til þess að stofna eigin atvinnurekstur og markmiðið er að gefa þeim jafnan grundvöll við önnur örfélög í ESB, en ekki draga úr samkeppnisstöðu þeirra með því að láta sum þeirra tilheyra flokki lítilla félaga með hærri rekstrarkostnaði.

Gullhúðun sé freistnivandi

Diljá Mist telur að gullhúðun á regluverki frá ESB sé freistnivandi, þar sem sé verið að bæta því við sem stjórnkerfið langar að bætt sé við.

„Í þessu frumvarpi er farið fram á tvær breytingar. Önnur þeirra þar sem verið var að nota undanþáguákvæði í tilskipuninni, sem segir svona eru reglunar og stærðarmörkin eru svona, en varðandi örfélögin má vera með rýmri hendur og það var ákveðið hér á landi að vera með rýmri hendur. Með öðrum orðum var ákveðið að vera rosalega ströng hér landi, en ekki í Evrópu,“ segir hún.

Markmið
frumvarpsins

Uppfæra íþyngjandi stærðarmörk örfélaga í samræmi við ESB-reglur.

Það mun draga úr kostnaði og minnka stjórnsýslubyrði hjá litlum félögum hér á landi.

Gullhúðun á reglum fer í bága við íslensk lög.

Íþyngjandi innlendar reglur draga úr samkeppnishæfni íslenskra félaga.

Höf.: Arinbjörn Rögnvaldsson