Vanessa Kirby Er hægt að leika tannleysi?
Vanessa Kirby Er hægt að leika tannleysi? — AFP/Justin Tallis
Kvikmynd Ridleys Scotts um Napóleon hefur fengið misjafnar viðtökur. Sumir gagnrýnendur eru hrifnir, en aðrir síður eins og gengur. Myndin fer þó sérstaklega fyrir brjóstið á Frökkum sem finna henni flest ef ekki allt til foráttu

Karl Blöndal

Kvikmynd Ridleys Scotts um Napóleon hefur fengið misjafnar viðtökur. Sumir gagnrýnendur eru hrifnir, en aðrir síður eins og gengur. Myndin fer þó sérstaklega fyrir brjóstið á Frökkum sem finna henni flest ef ekki allt til foráttu.

Auðvitað er það ósvífni af útlendingum að ráðast í þetta verkefni. Aðfinnsluefnin eru þó mörg furðuleg. Fundið hefur verið að því að áhorfendur fái ekki rétta mynd af Jósefínu, ástinni í lífi Napóleons. Hún mun nefnilega hafa verið tannlaus og reyndar hafa verið sérlega leikin í að brosa án þess að opna munninn. Vanessa Kirby leikur Jósefínu og lætur iðulega skína í tanngarðinn kinnroðalaust.

Annað er að Napóleon mun hafa talað með þykkum Korsíkuhreim, sem hann losnaði aldrei við. Þessu tekst ekki að koma til skila í myndinni, enda tala leikararnir ensku.

Sennilega skiptir engu máli hvernig myndin um Napóleon hefði verið, Frakkar hefðu aldrei verið ánægðir. Ekki frekar en Bretar hafa verið ánægðir með þáttaraðirnar um Krúnuna.

Sennilega er hægt að skrifa heilu bækurnar um ónákvæmni, þvætting, uppspuna og skáldskap í Napóleon og Krúnunni.

Svo er líka hægt að halla sér aftur og sjá hvort hægt er að hafa gaman af.