COP28 Loftslagsráðstefnan COP28 er að mörgu leyti umdeild, en tæplega 2.500 hagsmunafulltrúar úr olíuiðnaðinum sækja ráðstefnuna í ár.
COP28 Loftslagsráðstefnan COP28 er að mörgu leyti umdeild, en tæplega 2.500 hagsmunafulltrúar úr olíuiðnaðinum sækja ráðstefnuna í ár. — AFP/Guiseppe Cacace
Orkumálaráðherra Sádi-Arabíu, Abdulaziz bin Salman, hefur hafnað fyrsta uppkasti að lokayfirlýsingu loftslagsráðstefnunnar COP28. Í uppkastinu segir að stefna skuli að samdrætti í notkun jarðefnaeldsneytis, en því andmælti bin Salman

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Orkumálaráðherra Sádi-Arabíu, Abdulaziz bin Salman, hefur hafnað fyrsta uppkasti að lokayfirlýsingu loftslagsráðstefnunnar COP28. Í uppkastinu segir að stefna skuli að samdrætti í notkun jarðefnaeldsneytis, en því andmælti bin Salman.

Loftslagsráðstefnan COP28 fer fram í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum um þessar mundir, en ráðstefnan hefur verið umdeild eftir að skjöl rötuðu í hendur fjölmiðlamanna sem bentu til þess að ráðamenn í furstadæmunum ætluðu að nýta ráðstefnuna til þess að gera samninga um sölu á olíu.

Á ráðstefnuna eru mættir tæplega 2.500 hagsmunaaðilar úr olíuiðnaðinum, sem er fjórfaldur fjöldinn sem sótti síðustu ráðstefnu, COP27, og stærsti sameinaði hópurinn burtséð frá fulltrúum frá Brasilíu og furstadæmunum.

Þrír kostir

Samningaviðræður standa yfir um lokayfirlýsinguna sem væntanlega verður birt 12. desember næstkomandi. Fyrsta uppkastinu að lokayfirlýsingu ráðstefnunnar var vægast sagt illa tekið. Í nýju uppkasti er boðið upp á þrjá kosti um orðalag varðandi framtíð jarðefnaeldsneytis. Fyrstu tveir möguleikarnir gera ráð fyrir einhvers konar samdrætti í jarðefnaeldsneytislosun en sá þriðji að ekki verið fjallað um slíkt í yfirlýsingunni. Sá möguleiki hefur hlotið stuðning Sádi-Arabíu og Kína.

Aukin mengun

Þessar deilur fara fram í skugga nýrrar skýrslu frá „Global Carbon Project“ sem er tekin saman af loftslagsvísindamönnum víðs vegar að úr heiminum. Í skýrslunni er talið að um 50 prósent líkur séu á því að hitastig jarðar hækki um 1,5 gráður fyrir árið 2030, þvert á markmið Parísarsáttmálans, sem gerður var 2015.

Þá segir í skýrslunni að loftslagsmengun sökum koltvísýrings hafi aukist um 1,1 prósent á síðasta ári, sem megi að mestu rekja til Kína og Indlands. Þá hefur hitastig jarðar hækkað um 0,1 gráðu og stefnir í 2,5 gráða aukningu fyrir lok aldarinnar.

Höf.: Geir Áslaugarson