Hanna Katrín Friðriksson
Hanna Katrín Friðriksson
Ég þoli ekki hvernig þessi gaur lofar alltaf upp í ermina á öðrum,“ sagði vinnufélagi minn eitt sinn um annan kollega okkar. Mér verður oft hugsað til þessara orða þegar ég verð vitni að því þegar einhver ætlar öðrum að bera kostnaðinn af eigin loforðum

Ég þoli ekki hvernig þessi gaur lofar alltaf upp í ermina á öðrum,“ sagði vinnufélagi minn eitt sinn um annan kollega okkar. Mér verður oft hugsað til þessara orða þegar ég verð vitni að því þegar einhver ætlar öðrum að bera kostnaðinn af eigin loforðum. Nú sitja orðin pikkföst í höfðinu á mér þegar við ræðum fjárlög ríkisstjórnarinnar sem eru kynnt með 46 milljarða kr. halla á sama tíma og sameiginlegur yfirdráttur heimila í landinu slær öll fyrri met, er orðinn yfir 100 milljarðar kr.

Yfirdráttarlán eru dýrustu lán sem heimilum standa til boða. Í þessu landi sturlaðra vaxta taka sennilega fá heimili slík lán nema brýna nauðsyn beri til. Umboðsmaður skuldara segir þetta skýrt dæmi um að róðurinn hjá heimilum sé farinn að þyngjast verulega.

Það er sem sagt fátt dýrara en að reka sig með halla. Það gildir einu hvort um er að ræða heimili sem þurfa að taka rándýr yfirdráttarlán til að rekstur heimilisins gangi frá mánuði til mánaðar eða ríkissjóð sem er stýrt þannig að það þarf rándýr lán til að reksturinn gangi upp.

Á þessu ári nemur vaxtakostnaður ríkissjóðs 124 milljörðum kr. Það eru peningar sem eru ekki notaðir í önnur og öllu áhugaverðari verkefni. Ekki notaðir til að bæta stöðu bágstaddra og ekki notaðir til að styrkja heilbrigðiskerfi svo dæmi séu tekin. Í ljósi þeirrar staðreyndar að íslenska krónuhagkerfið er hávaxtaumhverfi er grátlegt að stjórnvöld skuli hafa gengið jafnlangt í skuldsetningu og raun ber vitni á því stutta tímabili Íslandssögunnar þar sem vextir héldust nokkuð hóflegir. Ekki síst þar sem skuldsetningin fór að mestu í að stjórnvöld eyddu um efni fram frekar en þau verðu peningunum í fjárfestingar sem skila raunverulegri ávöxtun fyrir samfélagið.

Í umræðu um fjárlögin kallar stjórnarmeirihlutinn 46 milljarða hallann aðhaldssemi. Það er rangnefni. Í besta falli eru fjárlögin hlutlaus í baráttunni við verðbólguna. Finnst einhverjum það nógu gott á sama tíma og heimili landsins búa við vaxtaofbeldi sem ætlað er að draga úr þenslu og temja verðbólguna? Á slíkum tímum á ríkið að forðast að auka skuldir með því að draga úr útgjöldum sem eru fjármögnuð með halla.

Það væri óskandi að stjórnvöld beittu ríkisfjármálunum af afli í baráttunni við verðbólguna en létu ekki heimili landsins að mestu um þann slag. Fyrir því hefur Viðreisn talað linnulítið síðustu ár og mun láta verkin tala þegar færi gefst. Við vitum að það kemur alltaf að skuldadögum. Við viljum ekki að heimili landsins beri þá byrði ein.

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. hannakatrin@althingi.is

Höf.: Hanna Katrín Friðriksson