Jens Jakob Hallgrímsson fæddist 9. maí 1932. Hann andaðist 16. nóvember 2023.

Útförin fór fram 27. nóvember 2023.

Það var árið 1972 sem ég byrjaði í skóla sex ára gömul. Ég var svo feimin að fyrstu vikurnar þorði ég ekki að leika mér við hina krakkana í frímínútunum. Loks áræddi ég þó að taka þátt í hópleik, en botnaði ekkert í leiknum, hann virtist felast í því að hlaupa öskrandi til og frá. Ég hljóp með hinum án þess að vita til hvers og að lokum datt ég kylliflöt á steinstéttina og fór að hágráta. Þá kom kennari og reisti mig upp. Ég vissi ekki þá hvað hann hét, en þetta voru fyrstu kynni mín af Jens Hallgrímssyni sem síðar varð kennarinn minn.

Jens kenndi mér frá árinu 1973 eða '74 og fram til útskriftar úr barnaskóla 1978. Þótt mér hefði líkað ágætlega við fyrri kennara minn líkaði mér ekki síður vel við Jens. Hann var vingjarnlegur í viðmóti og blandaði oft hæglátri kímni saman við kennsluna. Það er fjölmargt sem enn geymist í minni mínu eftir kennslustundirnar hjá Jens. Hann endursagði fyrir okkur flestar helstu Íslendingasögurnar, svo sem Njálu, Egils sögu og Grettis sögu. Þegar hann sagði okkur frá viðureign Grettis við Glám slökkti hann ljósið í skólastofunni svo að andrúmsloftið yrði draugalegra – en reyndar varð ekki sérlega dimmt þar sem bjartur dagur var úti. Ég man líka alltaf eftir landafræðitímanum þegar Jens teiknaði með krít á töfluna mynd af því hvernig mætti komast á bak við Seljalandsfoss. Ég hugsaði strax að ég skyldi einhvern tíma fara á bak við þennan foss. Í skriftartímunum hafði kennarinn ekki mikið að gera, en Jens fékk þá ágætu hugmynd að lesa fyrir okkur meðan við sátum og skrifuðum. Allir hlustuðu eftirtektarfullir meðan Jens las söguna „Skóladaga“ eftir Stefán Jónsson, enda var lesturinn hjá Jens skemmtilegur og lifandi. Einn skóladag var ég veik heima og missti af einum lestri, frásögninni af því þegar strákarnir Skúli og Júlli fara á báti út í Akurey, en missa svo bátinn frá sér og verða strandaglópar á eynni. Ása vinkona mín sagði mér frá því eftir á að ég hefði misst af miklu. „Jens var svo fyndinn,“ sagði hún, „hann lék svo vel Júlla þegar hann var dauðhræddur og næstum farinn að gráta.“

Einnig man ég eftir 1. apríl þegar krakkarnir voru svolítið á varðbergi ef Jens skyldi nú detta í hug að láta okkur hlaupa apríl. En sú varúð kom fyrir lítið. Þegar Jens leit út um gluggann og sagði sakleysislega: „Nei, eru þeir ekki komnir með hesta hér út á skólalóðina!“ þustu allir nemendurnir út að glugganum.

Í mínum augum hefur Jens alltaf verið Kennarinn með stóru K-i. Nú hefur hann kvatt þetta jarðlíf eftir langa ævi og mér verður hugsað til dags nokkurs, skömmu eftir að Jens byrjaði að kenna okkur. Skóladagurinn er á enda, en fyrir ofan skólann er bílastæði þakið grófgerðri möl og þar sit ég og leita að fallegum steinum. Þegar ég sé að Jens kennari er að aka út af planinu á bílnum sínum veifa ég til hans. Og Jens brosir og veifar á móti áður en bíllinn rennur niður götuna og hverfur mér sýnum.

Una Margrét Jónsdóttir.