Vestmannaeyjar Vestmannaeyjahöfn, þar sem vatnslögnin fer um.
Vestmannaeyjar Vestmannaeyjahöfn, þar sem vatnslögnin fer um. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Með þeim úrræðum sem við höfum fer staðan sífellt batnandi með hverri vikunni sem líður. Úrræðin eru mörg og margvísleg, sumt er í fullum gangi eins og vatnsskiljun og förum við að sjá árangur þar mjög fljótlega,“ segir Karl Gauti…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Með þeim úrræðum sem við höfum fer staðan sífellt batnandi með hverri vikunni sem líður. Úrræðin eru mörg og margvísleg, sumt er í fullum gangi eins og vatnsskiljun og förum við að sjá árangur þar mjög fljótlega,“ segir Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, í samtali við Morgunblaðið, en unnið er hörðum höndum að því að leita lausna til að bregðast við mögulegum vatnsskorti í Eyjum vegna skemmda sem urðu á vatnslögninni þangað nýverið.

Hann segir að tækjabúnaður til vatnsskiljunar sé kominn til Eyja, en það er Laxey sem vinnur að uppbyggingu laxeldisstöðvar í Vestmannaeyjum sem flutti búnaðinn til landsins og verður hann settur upp næstu daga. Búnaðurinn á að geta skilað allt að 500 tonnum af fersku vatni á sólarhring unnum úr sjó sem nýtt verður í eldinu.

„Við fáum væntanlega aðgang að því vatni líka ef í harðbakkann slær,“ segir Karl Gauti.

Hann nefnir einnig að verið sé að skoða að útvega fleiri sambærileg tæki og sé Vinnslustöðin þar í forsvari, en að baki því séu Ísfélagið og almannavarnir.

Þá segir Karl Gauti að farið hafi verið fram á það við uppsjávarfyrirtækin að þau leggi til uppsjávarskip sín til að flytja vatn til Eyja og hafi þau tekið þeirri málaleitan vel. Ættu skipin að geta farið í verkefnið með skömmum fyrirvara. Vatninu yrði síðan dælt inn á vatnsgeyminn og þar með veitukerfið í bænum.

Hver dagur er dýrmætur

Einn þeirra möguleika sem verið er að kanna er hvort nýta megi elstu vatnsleiðsluna sem liggur til Eyja, en hún var lögð árið 1968 og hefur ekki verið notuð um langan aldur. Segir Karl Gauti að ekki hafi gefist tóm til að kanna ástand hennar, en um leið og búið sé að festa sæmilega vatnslögnina sem fyrir skemmdum varð, verði farið í að kanna þá gömlu og möguleika á að lappa upp á hana.

Hvað varðar möguleika á að laga skemmdu lögnina til bráðabirgða segir Karl Gauti að það kæmi ekki til nema hún rofnaði. Hugsanlegt væri að tengja plaströr við hana og verið væri að framleiða það. Einnig sagði hann að til væri 200 metra bútur í Eyjum sömu gerðar og lögnin sem mögulegt gæti verið að tengja við hana. Það væri hins vegar meiri háttar aðgerð.

„Við erum að reyna að leysa vandamálið samtímis á marga vegu. Það er mikil vinna í gangi og hver dagur sem nýtist og lögnin heldur er dýrmætur,“ segir Karl Gauti.

Hvað varðar nýja vatnslögn til Eyja sagði Karl Gauti að það væri þrautin þyngri, þar sem biðröð væri erlendis eftir lögnum af þessu tagi, en innviðaráðuneytið væri að skoða hvort mögulega væri hægt koma verkefninu framar í röðina.