Myndlist Finnbogi Pétursson er á meðal þeirra sem sýna listaverk í ár.
Myndlist Finnbogi Pétursson er á meðal þeirra sem sýna listaverk í ár. — Morgunblaðið/Eggert
Opnuð hefur verið jólalistasýning í Ásmundarsal á Freyjugötu 41 á Skólavörðuholti. Sýningin er sölusýning með verkum eftir 32 samtímalistamenn, sem flestir hafa unnið verk sérstaklega fyrir sýninguna

Opnuð hefur verið jólalistasýning í Ásmundarsal á Freyjugötu 41 á Skólavörðuholti. Sýningin er sölusýning með verkum eftir 32 samtímalistamenn, sem flestir hafa unnið verk sérstaklega fyrir sýninguna. Þá verður sá háttur á nú eins og í fyrra að gefin verður út samhliða sýningunni bók sem veitir innsýn í vinnustofur og hugarheim listamannanna sem eru með verk til sýnis, segir í tilkynningu.

Þá verður í Gryfjunni á jarðhæð Ásmundarsafns starfrækt bókaverslun þar sem áhersla verður lögð á að kynna nýjar bækur í bland við gamlar og rótgrónar bókmenntir, þeirra á meðal bókverk og bækur um myndlist. Hugmyndin er að gestir geti sótt sér innblástur í bækur í Ásmundarsal og spjallað við marga af fremstu rithöfundum þjóðarinnar á Jólabókaglöggi, kvöldviðburði sem unninn er í samstarfi við Ragnar Jónasson og Sverri Norland, haldinn alla þriðjudaga fram að jólum frá kl. 20-22.