Ásta Fjeldsted forstjóri Festi segir spennandi að leiða samstæðuna á þessum tíma.
Ásta Fjeldsted forstjóri Festi segir spennandi að leiða samstæðuna á þessum tíma. — Morgunblaðið/Eggert
„Það er mikilvægt að tryggja að rekstareiningarnar innan Festi-samstæðunnar vinni vel saman þó svo þetta séu sjálfstæðar einingar, að samlegðaráhrif náist þar sem hægt er og að allir séu vakandi fyrir vaxtartækifærum,“ segir Ásta…

„Það er mikilvægt að tryggja að rekstareiningarnar innan Festi-samstæðunnar vinni vel saman þó svo þetta séu sjálfstæðar einingar, að samlegðaráhrif náist þar sem hægt er og að allir séu vakandi fyrir vaxtartækifærum,“ segir Ásta Fjeldsted, forstjóri Festi, en blaðamaður ViðskiptaMoggans hitti hana í höfuðstöðvum Festi við Dalveg í Kópavogi.

Ásta hefur mikla reynslu úr viðskiptalífinu bæði hér heima og erlendis. Hún lauk mastersprófi í vélaverkfræði frá DTU í Danmörku og að námi loknu, eftir að hafa starfað hjá Össuri í Frakklandi og IBM í Danmörku, réð hún sig til ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company þar sem hún starfaði bæði í Kaupmannahöfn og í Tókýo í Japan í alls fimm ár. Þegar leiðin lá heim til Íslands eftir 14 ára dvöl erlendis var hún ráðin framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs sem hún segir hafa verið mikinn og nauðsynlegan skóla til að kynnast íslensku viðskiptalífi. Eftir þrjú lærdómsrík ár hjá Viðskiptaráði söðlaði hún um eftir að Eggert Þór Kristófersson, þáverandi forstjóri Festi, hafði hvatt hana til að færa sig yfir í smásölugeirann. Hún varð framkvæmdastjóri Krónunnar, dótturfélags Festi, haustið 2020 og tveimur árum síðar var hún ráðin forstjóri Festi.

„Við sem njótum þess að starfa við smásölugeirann tölum um hann nánast sem bakteríu sem ekki sé séns að losna við – þú getur einfaldlega ekki hætt þegar þú fyrst fellur fyrir þeim rekstri. Þegar forstjórastarfið losnaði gat ég heldur ekki setið á mér, því ég tel mig með stuðningi öflugrar stjórnar og framkvæmdastjórnar hafa skýra sýn á það hvernig farsælast sé að reka þetta félag,“ segir Ásta en hún var ráðin forstjóri smásölurisans Festi í lok síðasta árs, þá komin sjö mánuði á leið. Stuttu seinna fór hún í fæðingarorlof en sneri aftur í mars sl. til að tilkynna fyrirhuguð kaup Festi á apótekinu Lyfju. Ásta segir að hún hafi haft í mörg horn að líta í fæðingarorlofinu.

„Ég vil auðvitað sinna minni fjölskyldu vel og vera góð fyrirmynd en tel líka mikilvægt að maður fái frelsi til að haga sínum áætlunum eins og best hentar hverju sinni. Ég kann því vel að hafa nokkur járn samtímis í eldinum og því var ég þakklát fyrir að fá að fylgja þessum kaupum eftir með stjórn og lykilstjórnendum frá upphafi og láta ekki orlofið standa í vegi fyrir þeim. Magnús Kr. Ingason, sem er framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs hjá samstæðunni, gegndi lykilhlutverki þá sem nú – en hann er staðgengill forstjóra og stýrði skútunni á meðan ég var í orlofi,“ segir hún.

Spurð um áherslur sínar í forstjórastólnum og hver framtíðarsýn hennar á félagið sé segir Ásta að þar séu lykilorðin traust og skilvirkni.

„Hvað traust varðar þá snýst það um að sýna ábyrgð í verki gagnvart öllu því sem við erum að gera; gagnvart viðskiptavinum, þjónustuaðilum, birgjum og auðvitað starfsfólkinu okkar, en ekki síst gagnvart eigendum okkar. Skilvirknin er svo hitt leiðarljósið sem snýr að því að efla starfsfólk, nýta orku og fjármagn skynsamlega, innleiða tæknilausnir sem auka gæði og afköst þar sem því verður komið við og styðja við allar mögulegar leiðir sem auka árangur okkar – bæði til skemmri en ekki síst lengri tíma. Hlutverk forstjóra í mínum huga er fyrst og fremst að skapa skýran ramma fyrir vegferðina fram undan og velja rétta fólkið í réttu verkefnin innan samstæðunnar.“

Samlegðaráhrifin mikil

Rekstrarfélög Festi eru matvöruverslunin Krónan, raftækjaverslunin ELKO, orku- og þjónustufyrirtækið N1, Bakkinn vöruhótel og Festi fasteignir. Ásta segist leggja áherslu á að halda í sjálfstæði hvers félags, það sé til þess fallið að heildin standi sterk.

„Þetta er stórt félag og mín sýn er sú að hvert og eitt fyrirtæki innan þess eigi að starfa tiltölulega sjálfstætt og keppa á sínum markaði, en um leið njóta góðs af þeim stuðningi sem móðurfélagið geti veitt með hagkvæmum hætti. Fjármál, upplýsingatækni, stafræn þróun, innkaup og framkvæmdir eru dæmi um þætti sem við samþættum þvert á samstæðuna og náum þannig aukinni skilvirkni, samlegð og lærdómi sem nýtist þvert á félögin.“

Festi fasteignir er rekstrareining innan samstæðunnar sem heldur utan um og þróar fasteignir og lóðir félagsins. Í árslok 2022 var heildarfjöldi fasteigna í eigu Festi 87, samtals um 95 þúsund fermetrar. Ásta segir mikil tækifæri í að skerpa á áherslum Festi fasteigna enda sé um verðmætt safn að ræða.

„Við erum um þessar mundir að koma á fót hugmyndaleit fyrir Ægisíðureitinn í þéttu samstarfi við Reykjavíkurborg en samkomulagið við borgina snýr að því að loka bensínstöðvum og fara í uppbyggingu á íbúðarhúsnæði. Stóragerði, Skógarsel og fleiri lóðir tilheyra þessari vinnu sem loksins er að taka á sig mynd. Við réðum Óðin Árnason, verkfræðing með sérgráðu í fasteignaþróun og fyrrverandi sjóðstjóra hjá Stefni, til að leiða þessa uppbyggingu. Samhliða voru fleiri svið færð undir rekstrarfélag fasteigna; framkvæmdadeild og öryggisdeild. Tækifærin í þessu félagi eru mikil.“

Ásta nefnir að innan hinna rekstrarfélaganna sé margt á döfinni. Hún nefnir sem dæmi að Krónan sé að auka þjónustu við landsbyggðina, N1 sé að stækka og þétta net sitt í rafmagnssölu og ELKO að efla þjónustu við viðskiptavini sína óháð búsetu eða aðstæðum með því að bjóða upp á persónulega þjónustu þar sem sölufulltrúi aðstoðar við að finna réttu vöruna í gegnum myndsímtal.

„Þetta snýst um að einfalda líf viðskiptavina okkar og þjónusta þá með þeim leiðum og þeim vörum sem þeim hugnast best. Hagkvæmni í innkaupum er svo lykilbreyta í þessu öllu saman því við elskum að keppa í verði.“

Samkeppni hluti af DNA Festi

Mikil gerjun er á íslenska smásölumarkaðnum og hafa Heimkaup meðal annars tilkynnt innreið sína á matvörumarkaðinn. Spurð hvernig aukin samkeppni horfi við henni segir Ásta að Festi sem fyrirtæki sé í raun byggt á samkeppni og að meirihluta félaga innan Festi hafi beinlínis orðið til fyrir tilstilli vilja til að auka samkeppni á íslenskum neytendamörkuðum.

„Samkeppni er því hluti af okkar DNA eins og sagt er, og er forsenda framfara og þreytumst við ekki á því að rifja upp innanhúss hjá okkur hvernig t.d. Krónan og ELKO hófu leikinn með takmarkaða markaðshlutdeild en hafa þróast sl. tvo áratugi yfir í að vera lykilfélög á sínum mörkuðum. Við erum því ekki bangin við samkeppni,“ segir Ásta og bætir við að viðskiptavinir hafi betri tól og tæki til að fylgjast með verðlagi og þróun nú en nokkru sinni fyrr.

„Við birtum t.d. verðsögu allra vara á ELKO-vefnum til að svara kalli viðskiptavina um aukið gegnsæi í verðlagningu. Sömuleiðis má fylgjast með verðlagi matvöru í gegnum snjallverslun Krónunnar. Þetta snýst í dag um að öðlast traust viðskiptavina, að þú standir þig í samanburði við sambærileg félög, alltaf, allan ársins hring. Auk þess má nefna að verðlagseftirlit ASÍ, sem hefur sinnt mikilvægu hlutverki í gegnum árin, staðfestir aftur og aftur að við veitum eina hörðustu samkeppnina á íslenskum smásölumarkaði.“

Nýjum leiðtoga fylgja nýjar áherslur

Í vor réðst Ásta í skipulagsbreytingar innan Festi þar sem nokkrir reyndir starfsmenn létu af störfum og nýir tóku við. Ásta segir að hvatinn að baki þessum breytingum hafi verið að ná heildstæðum hópi í brúna sem sé reiðubúinn til að taka næstu skref í vegferð Festi til framtíðar eins og hún kemst að orði.

„Nýjum leiðtoga fylgja nýjar áherslur, en félagið hafði farið í gegnum mikinn vaxtarfasa meðal annars með sameiningu Festi og N1 árið 2018. Gríðarleg vinna fór í sameiningu þessara félaga sem heppnaðist að mörgu leyti mjög vel og hefur skilað þeim árangri sem við byggjum á í dag. Nú er kominn tími á næsta fasa, sem er frekari styrking okkar grunnstoða sem og að tengja enn frekar okkar fjölbreytta vöruúrval af nauðsynjavörum í gegnum hnitmiðaðri þjónustu um allt land í samstarfi eininganna, sem tekur mið af kröfum viðskiptavina okkar um aukin þægindi og hraða. Nú er næsti kafli að hefjast í sögu félagsins og tel ég leiðtogateymið fullmannað, með góðri blöndu af ólíkri reynslu og menntun, til að takast á við þá spennandi og um leið kröfuhörðu tíma sem fram undan eru.“

Ásta leggur áherslu á að fylgja eftir þróun í tækni og innleiða lausnir sem styðji við betri þjónustu við viðskiptavini og stuðli að bættum árangri í rekstri. Líkt og fyrr var nefnt starfaði Ásta áður sem framkvæmdastjóri Krónunnar og kom meðal annars að innleiðingu sjálfsafgreiðslukassa og skannað og skundað-lausnarinnar hjá Krónunni. Hún segir að eins mikilvægt og það sé að hafa tæknilausnir í forgrunni verði viðskiptvinurinn líka að hafa val.

„Sumir vilja koma í búðina, aðrir vilja versla á netinu. Sumir vilja nýta sér sjálfsafgreiðslulausnir á borð við skannað og skundað en aðrir vilja fá persónulega þjónustu hjá starfsfólki okkar. Við lítum á það sem okkar hlutverk að þjónusta alla þessa hópa en eflaust þurfa margir aðeins meiri tíma til að aðlagast tækninni.“

Ásta bendir á að verslun á netinu sé sífellt að aukast. ELKO-netverslun sé ein af stærstu einingum rafækjafélagsins og snjallverslun Krónunnar vaxi um tugi prósenta á milli ára. Viðskiptavinum þyki frábært að geta pantað matinn og fengið sendan heim, eða „droppað“ nýkeyptum raftækjum á næstu N1-stöð.

„Markmið okkar er að einfalda fólki lífið og þessi gríðarlega aukning í netverslun milli ára hvetur okkur til að horfa til aðgerða til að gera enn betur. Krafan um hraða og víðtækara net í þjónustu er meiri og munum við svara því kalli.“

Hið opinbera fari fram með miklum þunga

Ásta segir að það séu ekki einungis tækifæri fólgin í því að innleiða tæknilausnir í rekstri smávöluverslana heldur sé það beinlínis nauðsynlegt. Launakostnaður sé stór kostnaðarliður í rekstrinum og verði sífellt fyrirferðarmeiri.

„Launakostnaður hjá Krónunni jókst um 13% eftir síðustu kjaraviðræður, svo dæmi sé tekið. Kollegar mínir á Norðurlöndunum horfa á þessa þróun hjá íslenskum smásöluaðilum og hrista bara hausinn. Þeir skilja ekki hvernig við getum mætt þessu.“

Kjaraviðræður eru fram undan og Ásta segir að huga þurfi að mörgu við samningaborið. Mikilvægt sé að ná verðbólgunni niður og huga að heimilum landsins sem mörg hver eru að sligast undan stórauknum afborgunum af húsnæðislánum og vaxtahækkanir koma ekki síður niður á fyrirtækjum í formi aukins kostnaðar. Ekki megi skella skuldinni eins og svo oft er gert á álagningu fyrirtækjanna í landinu. Nýleg skýrsla Seðlabanka Íslands hafi einmitt sýnt þveröfugt, þ.e. að álagning innlendra fyrirtækja hafi hlutfallslega haft lítil áhrif á aukningu verðbólgu í fyrra. Áhrifin höfðu minnkað árið 2021 og voru neikvæð í heild á árabilinu 2020-2022. Hún bendir á að fyrirtækin séu að taka á sig aukningu á öllum kostnaðarliðum í jafnmiklu verðbólguástandi og nú ríkir og ofan á þá leggst launaliðurinn, sem hefur haft tvöfalt meiri áhrif til verðbólguaukningar en hagnaður fyrirtækja árið 2022 skv. Seðlabankanum. Hún gagnrýnir sömuleiðis framgöngu hins opinbera.

„Það er óhjákvæmlegt annað en að beina spjótum sínum að hinu opinbera sem að mínu mati er í harðri samkeppni við einkageirann um starfsfólk á ýmsum sviðum. Hið opinbera hefur verið leiðandi í launahækkunum, og ekki bara í launum heldur kjarabótum ýmiss konar, aukafrídögum og fleiru, sem einkageirinn á erfitt með að keppa við. Grunnforsenda efnahagslegs stöðugleika er að einkageirinn leiði þessa þróun því það er einkageirinn sem drífur áfram framleiðnivöxtinn sem þarf til að launahækkanir skili sér í auknum kaupmætti til lengri tíma.“

Hún segir að við samningaborðið þurfi einnig að horfa til þess hvað séu raunverulegar kjarabætur fyrir heimilin fremur en beinar launahækkanir.

„Ef hægt er að lækka vaxtastig, þá munar það heimilin miklu og er að mínu viti miklu vænlegra til árangurs en að hækka laun enn frekar með tilheyrandi verðbólgu.“

Ásta nefnir jafnframt að í þessari sömu skýrslu frá Seðlabankanum sé bent á að ekki sé svigrúm hjá innlendum fyrirtækjum til að lækka álagningu frekar á móti hækkun launakostnaðar, t.a.m. í komandi kjarasamningum. Það muni bara leiða til áframhaldandi verðbólgu. Greining Seðlabankans leiðréttir því rangfærslur í opinberri umræðu um hina svokölluðu hagnaðardrifnu verðbólgu.

Ásta segir Festi og rekstrarfélög leita leiða til að bæta kjör síns starfsfólks umfram almennar launahækkanir. Sé þar horft til stuðnings í formi svokallaðs „velferðarpakka“ Festi sem hefur það að markmiði að stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu starfsfólks.

„Við erum sömuleiðis með í skoðun hvernig búa megi til frekari hvata fyrir starfsfólk okkar sem hefur sýnt tryggð við fyrirtækið, velur jafnvel að gera smásöluna að ævistarfi. Það er virkilega spennandi vegferð sem við erum að skoða.“

Hún segir að hjá Festi séu um 2.000 starfsmenn frá 57 þjóðlöndum og það sé því mjög fjölbreyttur og skemmtilegur hópur.

„Við viljum fyrst og fremst að Festi sé eftirsóknarverður vinnustaður fyrir fjölbreyttan hóp fólks sem er til í taka slaginn með okkur til lengri tíma.“

Framlegðin lykilatriði

Ásta segir að oftar en ekki sé talað um að smásölurisarnir séu gróðavélar – en annað blasi þó við ef rýnt sé í staðreyndir og uppgjör.

„Það má oftar minna á að framlegð er ekki það sama og hagnaður. Framlegðin þarf að standa undir föstum kostnaði, t.a.m. húsaleigu, hita, rafmagni, vaxtakostnaði og síðast en ekki síst launum starfsfólks og launatengdum gjöldum. Til að setja þetta í samhengi þá verða eftir af hverjum hundrað krónum sem koma inn í kassann hjá okkur ekki nema 2-3 krónur í hreinan hagnað, þ.e. eftir skatta. Af þeim krónum er eftir tilvikum greiddur arður til eigenda, sem lagt hafa til fé til fyrirtækisins.“

Ásta segir að þótt rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði hafi aukist vegna aukinnar veltu þá hafi fjármagnskostnaður fyrirtækja og þeirra sem leggja þeim til eigið fé hækkað – þar sem kjör á fjármálamörkuðum eru óhagstæðari. Þannig hafi fjármagnskostnaður í raun tvöfaldast á milli ára og étið upp hagnaðinn í samræmi við það.

„Við megum heldur ekki gleyma að okkur ber skylda að skila eigendum okkar, sem að stórum hluta eru lífeyrissjóðir landsmanna, viðunandi ávöxtun. Ávöxtun sem er undirstaða lífeyrisréttinda almennings. Það er mikilvægt að smásöluverslunin sé af fjárfestum talin traust og eftirsóknarverð fjárfesting til lengri tíma.“

Margt á döfinni

Ásta segir að það sé gefandi og spennandi að leiða samstæðuna á tímum sem þessum en fram undan er m.a. sameiningin við Lyfju, sem nú er í málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins. Nái sú sameining fram að ganga hefst nýr og spennandi kafli hjá samstæðunni.

Hún nefnir auk þess sjálfbærnimálin og orkuskiptin sem séu efst á stefnuskránni hjá N1 en nýverið var m.a. tilkynnt um samstarf félagsins við Landsvirkjun og Linde um að auka aðgengi að grænu vetni á Íslandi. Markmiðið er að gera vetni að raunhæfum valkosti í samgöngum á Íslandi, ekki síst fyrir vörudreifingu, þungaflutninga og stærri farartæki þar sem bein rafvæðing hentar síður.

Í síðustu viku var síðan tilkynnt að Festi og Olís, dótturfélag Haga, hefðu ráðið fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka til ráðgjafar um stefnu og framtíðarmöguleika hvað varðar eignarhluti félaganna í Olíudreifingu ehf., Eldsneytisafgreiðslunni á Keflavíkurflugvelli ehf. og EBK ehf. Olíudreifing er 60% í eigu Festi og 40% í eigu Olís. Festi og Olís eiga síðan sinn þriðjungshlutinn hvort í EAK og sinn fjórðungshlutinn hvort í EBK.

Félögin eru mikilvæg innviðafélög hvað varðar birgðahald og dreifingu á eldsneyti á Íslandi og Ásta segir að verið sé að skoða fyrirkomulag eignarhalds og hvort hluta starfseminnar væri betur borgið í höndum þriðja aðila.

„Við eigum þetta með Olís en megum eðlilega ekki, vegna samkeppnissjónarmiða, eiga samskipti um fyrirtækið og þetta er því flókið eignarhald. Olíudreifing er lykilinnviðafélag fyrir land og þjóð og því eðlilegt að skoða stöðuna og hvaða sviðsmyndir gætu verið vænlegar fyrir frekari framtíðarþróun á félaginu.“

Ásta segir hlutverk sitt og stjórnendateymisins innan Festi vera að koma auga á tækifæri innan og utan þessarar miklu samstæðu, hvort sem það sé til hagræðingar eða vaxtar og tekjuaukningar.

„Við erum með einstakt starfsfólk á öllum okkar starfsstöðvum sem er tilbúið til að fara nýjar leiðir ef það eykur ánægju viðskiptavina og vöxt okkar sem samstæðu,“ segir Ásta að lokum.

Tækifæri í samstarfi við Lyfju gríðarleg

Í mars síðastliðnum var tilkynnt að Festi hygðist kaupa Lyfju en kaupsamningurinn var undirritaður með þeim fyrirvara að Samkeppniseftirlitið myndi leggja blessun sína yfir samrunann. Samkomulagið felur í sér að heildarvirði Lyfju sé 7,8 milljarðar króna. Endanlegt kaupverð hlutafjár mun ráðast af skuldastöðu félagsins við afhendingu ásamt gengi hlutabréfa í Festi á þeim tíma.

„Við erum gríðarlega spennt fyrir samrunanum við Lyfju. Okkur finnst Lyfja vera fyrirmynd á íslenskum smásölumarkaði á svo margan hátt með fyrirbyggjandi nálgun og fræðslu, fyrir utan stóraukna þjónustu við almenning út frá sínum útibúum. Stafræn vegferð þeirra er sömuleiðis öflug og þótt þjónustan sem Lyfja veitir sé vissulega annars eðlis en Festi hefur hingað til boðið finnum við að hjörtun slá í takt og vegferðin fram undan ætti að vera jafn spennandi fyrir báða aðila,“ segir Ásta. Hún segir það jafnframt rökrétt skref að apótekin færist nær matvöruverslunum og vísar til þróunar erlendis í þeim efnum.

„Verði samruninn samþykktur leiðir hann til þess að við getum auðveldað viðskiptavinum okkar aðgengi að breiðara framboði af nauðsynjavöru frá okkur um allt land. Þetta er einnig tækifæri til hagræðingar með því að nýta verslunarrýmin betur, en nefna má að við Íslendingar eigum heimsmet í bæði fjölda verslana og fjölda fermetra per verslun. Sú hagræðing mun koma viðskiptavinum til góða auk betri þjónustu.“