Almar Guðmundsson tók við sem bæjarstjóri Garðabæjar í júní 2022.
Almar Guðmundsson tók við sem bæjarstjóri Garðabæjar í júní 2022. — Morgunblaðið/Golli
„Það er tillaga sem liggur til seinni umræðu í fjárhagsáætlun sem verður afgreidd á fimmtudaginn nk. Hún felur það í sér að álagningarhlutfall fasteignagjalda fyrir íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,166% í 0,163% á næsta ári

Arinbjörn Rögnvaldsson

„Það er tillaga sem liggur til seinni umræðu í fjárhagsáætlun sem verður afgreidd á fimmtudaginn nk. Hún felur það í sér að álagningarhlutfall fasteignagjalda fyrir íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,166% í 0,163% á næsta ári. Einnig lækka vatns- og holræsagjöld. Álögur á atvinnuhúsnæði haldast hins vegar óbreyttar, 1,52%, á næsta ári,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, í samtali við ViðskiptaMoggann. Eins og fjallað var um í síðustu viku hafa Kópavogur og Hafnarfjörður lækkað fasteignagjöld sín fyrir næsta ár til að koma til móts við hækkandi íbúðaverð og þar með hærri álögur.

Almar bætir því að Garðabær hafi á undanförnum árum ekki hækkað fasteignagjöldin umfram verðlag.

„Hækkun fasteignamats næsta árs er um 11% og þar af leiðandi ber fólk eðlilegri gjöld með því að lækka álögur. Við höfum gert þetta lengi svona. Þessar lækkanir nema u.þ.b. 130 milljónum króna. Bæjaryfirvöld eru að passa upp á að fjölskyldurnar hafi þessa fjármuni hjá sér,“ segir Almar. Honum reiknast til að lækkunin spari hverri fjögurra manna fjölskyldu í Garðabæ um 26 þúsund krónur.

Að sögn Almars hækka fasteignagjöld þegar fasteignamatsstofninn hækkar. Ef ekkert væri gert hefðu fasteignaeigendur þurft að greiða 130 milljónum króna meira í fasteignagjöld á næsta ári. Með því að lækka álagningarhlutfallið sé verið að sjá til þess að fólk beri ekki alla hækkunina eitt. Það hafi lengi verið stefnan hjá sveitarfélaginu að hafa lágt álagningarhlutfall og lækka álögur ef fasteignamat hækkar.

„Við viljum að álögur í Garðabæ séu samkeppnishæfar og lágar í samanburði við aðra,“ segir Almar. arir@mbl.is