Gildi Frá mótmælum Grindvíkinga á skrifstofu Gildis sl. fimmtudag.
Gildi Frá mótmælum Grindvíkinga á skrifstofu Gildis sl. fimmtudag. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
Formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur og formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur vísa því til föðurhúsanna að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafi farið fram með offorsi í mótmælum við skrifstofu lífeyrissjóðsins Gildis fyrir helgi vegna lánamála Grindvíkinga

Formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur og formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur vísa því til föðurhúsanna að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafi farið fram með offorsi í mótmælum við skrifstofu lífeyrissjóðsins Gildis fyrir helgi vegna lánamála Grindvíkinga. Sjálfur hefur Ragnar Þór vísað gagnrýninni á bug í viðtölum við fjölmiðla.

Í tilkynningu frá Herði Guðbrandssyni, formanni Verkalýðsfélags Grindavíkur, og Einari Hannesi Harðarsyni, formanni Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, segja þeir að Ragnar Þór hafi komið fram á málefnalegan og kurteisan hátt. Um það geti nokkrir tugir Grindvíkinga vottað og listi sé til um þau vitni.

„Það er lýðræðislegur réttur okkar að mótmæla, sá réttur verður ekki tekinn af okkur, ekki einu sinni af skrifstofufólki lífeyrissjóðanna; starfsfólki sem á að vinna að og tryggja hagsmuni sjóðfélaga sinna,“ segja þeir í tilkynningunni. Flestir hafi átt að vita af hverju mótmælin áttu sér stað. Lífeyrissjóðir landsins hafi neitað að koma almennilega til móts við Grindvíkinga vegna lánamála „í þeim miklu hremmingum sem við förum í gegnum þessa dagana.“

„Við Grindvíkingar sýndum tilfinningar á mótmælunum og töluðum í gjallarhorn til framkvæmdastjóra Gildis. Við biðjumst velvirðingar á að því að mótmælin hafi valdið starfsfólki óþægindum,“ segir ennfremur í tilkynningunni og í lokin segir:

„Við höfnum því alfarið að umræðum um hjálp til Grindvíkinga í neyð sé drepið á dreif með upplognum ávirðingum og krefjum lífeyrissjóðina um svör vegna réttmætrar kröfu Grindvíkinga um að fella niður vexti og verðbætur af lánum í þrjá mánuði.“