Tæknin breytist Til stendur að hætta notkun Íslykilsins um áramótin.
Tæknin breytist Til stendur að hætta notkun Íslykilsins um áramótin. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, leggur til að áform um að leggja niður íslykilinn um áramótin verði endurskoðuð. Það henti enda ekki stórum hluta þjóðarinnar að nota rafræn skilríki.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, leggur til að áform um að leggja niður íslykilinn um áramótin verði endurskoðuð. Það henti enda ekki stórum hluta þjóðarinnar að nota rafræn skilríki.

Morgunblaðið hefur fjallað um þessi áform. M.a. var rætt við Stefán Vilbergsson, verkefnastjóra hjá Öryrkjabandalagi Íslands, sem lýsti yfir áhyggjum af því að leggja ætti íslykilinn niður. Rafrænu skilríkin séu útilokandi fyrir marga, m.a. ýmsa hópa fatlaðs fólks. Sjúkratryggingar tilkynntu 28. ágúst að stofnunin myndi loka aðgangi með íslykli 1. október 2023.

Friðbert tekur dæmi af ættingja sínum sem er á níræðisaldri. Sá hafi notað íslykil m.a. við samskipti við Skattinn og hringt í þjónustusíma bankanna til að fá stöðu og hreyfingar á debetreikningi.

Ekki með snjallsíma

„Ættingi minn er eitt af þessum gamalmennum sem geta ekki nýtt sér þessa nýju tækni. Hann er ekki með rafræn skilríki enda ekki með snjallsíma. Hann hefur því þurft að treysta á íslykilinn. Til dæmis við að fylla út skattskýrslu.

Fyrr á þessu ári ætlaði Skatturinn ekki að hleypa honum inn í ákveðna þætti skattskýrslu nema hann myndi fá sér rafræn skilríki. Skatturinn bakkaði svo reyndar með það þannig að það er hægt að komast inn í þessa skattskýrslu með íslyklinum. Var þá nýfallinn úrskurður hjá umboðsmanni Alþingis um að það yrði að veita öllum aðgang að sínum upplýsingum, hvar sem þær væru, og þá sérstaklega hjá ríkinu, á þann máta sem viðkomandi hefði möguleika á að nýta sér. Það mætti ekki setja svona reglur eins og þær að allt í einu ættu allir að vera með rafræn skilríki,“ segir Friðbert sem efast aðspurður um að nokkur þjóð sé komin lengra en Ísland í þessum efnum nema ef vera kynni Finnland. Það er að segja með þeirri kröfu að 100% íbúanna hafi rafræn skilríki.

Númeri hugsanlega lokað

„Þessi aldraði ættingi minn hefur alltaf notað þá leið að hringja í upplýsinganúmer hjá bankanum til að fá stöðuna á reikningnum sínum og hvað hefur verið tekið út af honum. Bara venjulegum debetreikningi.

Um er að ræða sjálfvirka símsvörun og fær viðskiptavinurinn rafrænt svar þegar hann gefur upp reikningsnúmer og lykilnúmer. Ástæðan fyrir hugsanlegri lokun á upplýsinganúmerinu er tengd hertu öryggi hvað varðar aðgang að fjárhagslegum upplýsingum viðskiptavina og persónuöryggi. Krafa yfirvalda er að rafrænu skilríkin ein veiti einstaklingum aðgang að upplýsingum.“

Friðbert segir að þessi ættingi sinn geti að sjálfsögðu einnig hringt í þjónustuver bankans eins og aðrir viðskiptavinir. Þá geti hann pantað að fá útskrifað yfirlit, sem og hann geri, en fyrir það þurfi að greiða sérstaklega.

Aldraði ættinginn telji það skref til baka í þjónustu bankans ef leggja á niður hina sjálfvirku svörun. Enn lakara sé að missa aðgang með íslykli, m.a. hjá Heilsuveru, Sjúkratryggingum og Skattinum.

Sami vandi í Noregi

„Það er nauðsynlegt að skoða þessi áform betur. Það er hægt að styðjast við margar rannsóknir hjá öðrum þjóðum um mikilvægi aðgengilegrar þjónustu fyrir alla íbúa landsins. Til dæmis er fjallað um hana í tímaritinu Finansfokus sem er blað norskra systursamtaka SSF.

Þar segir að á síðasta ári hafi um 600 þúsund Norðmenn, sem sagt eldra fólk, fólk með fötlun og sjóndepru og margir innflytjendur, lent í vandræðum. Þótt erlendir ríkisborgarar hafi kennitölu þá hafi þeir hvorki komist inn í opinbera kerfið né bankakerfið og geti því ekki nýtt sér rafrænar leiðir. Þessi hópur sé almennt ekki með rafræn skilríki af ýmsum ástæðum.

Það er áætlað að í Noregi séu 10-15% af þjóðinni ekki með þennan möguleika að nota rafræn skilríki í síma, og ég held að það sé sama staða hér. Því er alltof snemmt að leggja íslykilinn niður um áramótin eins og ætlunin er að gera. Það er í raun út í hött,“ segir Friðbert.