Guðrún Helga Finnbogadóttir fæddist 16. janúar 1975. Hún lést 2. nóvember 2023. Útför hennar fór fram 17. nóvember 2023.

Með hjartað fullt af þakklæti kveðjum við þig elsku einstaka vinkona.

Við kynntumst ungar þegar þið Arnar voruð nýlega flutt í bæinn. Við náðum strax mjög vel saman og urðum einstaklega góðar vinkonur. Við brölluðum ýmislegt saman í gegnum árin, þar á meðal fylgdum við hvor annarri þegar við gengum með okkar fyrstu börn en þá bjugguð þið nálægt okkur Jóa í Breiðholtinu. Algjörlega dásamlegir tímar sem ég mun varðveita að eilífu. Svo kom sá tími að Arnar fór í nám og þið fluttust til Danmerkur, en þá var ekkert annað í stöðunni en að við Jói kæmum í heimsókn til ykkar þangað enda öll sömul góðir vinir. Sú ferð er afskaplega eftirminnileg, stútfull af hlýjum minningum sem ylja okkur um hjartarætur þegar við minnumst þín. Við eigum einnig fullt af fleirum dásamlegum minningum með ykkur Arnari og þá kemur sérstaklega til mín þegar þú hringdir í mig og baðst mig að vera veislustjóri í brúðkaupinu ykkar. Það var mín frumraun í veislustjórn og ég man að það fyrsta sem ég spurði þig eftir að hafa svarað játandi var: Hvað gerir veislustjóri eiginlega? Þú hlóst og svaraðir: Ég veit það eiginlega ekki heldur. Einu kröfurnar voru að þetta átti að vera leikja- og ræðulítið, einfalt, fallegt og notalegt brúðkaup sem þetta var svo sannarlega. Þið brúðhjónin geisluðuð og voruð svo yndisleg og falleg að vanda. Það er mér líka eftirminnilegt þegar þú hringdir í mig og sagðir mér að þú hefðir fætt andvana dreng sem fékk fallega nafnið Ágúst Fannar. Ég upplifði svo mikinn vanmátt að geta ekki faðmað þig þar sem við vorum hvor í sínu landinu á þeim tíma.

Við höfðum ekki verið í miklu sambandi síðustu árin en við vorum duglegar að hittast af og til, þá sérstaklega núna síðasta eina og hálfa árið. Við reyndum að viðhalda vikulega kaffispjallinu, buðum hvert öðru í mat og margt annað eftirminnilegt sem við munum varðveita í hjörtum okkar. Ég er svo þakklát fyrir hvað við gátum endalaust spjallað um daginn og veginn, sama hversu langt leið á milli þess sem við spjölluðum.

Ég er þakklát fyrir allar þessar stundir saman og ykkur fjölskylduna. Við munum sakna undurfallega brossins þíns og yndislegu spékoppanna þinna. Fannst svo dásamlegt að ræða við dætur mínar um daginn og heyra hvað þær fundu fyrir góðri nærveru kringum þig og þær voru líka hjartanlega sammála með brosið og spékoppana. Þær minntust einnig á augun þín, þau voru svo fallega brún og skær. Þú hafðir svo fallega sál og fallega útgeislun. Ég sakna þín, ég sakna vikulega kaffispjallsins og vildi óska þess að við gætum fengið fleiri stundir. Við tökum upp þráðinn þegar við hittumst aftur í faðmlögum hinum megin.

Hvíldu í friði elsku vinkona.

Sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Arnars, Brynjars og annarra aðstandenda.

Guðrún, Jóhannes (Jói) og dætur.

Elsku hjartans vinkona mín, Guðrún Helga, er nú fallin frá, langt fyrir aldur fram. Guðrún var sannkallaður gleðigjafi. Hjartahlý og glaðleg, alltaf boðin og búin að hjálpa öllum og lagði sig alla fram. Falleg að innan sem utan. Þegar við hittumst spurði hún alltaf frétta af öllu mínu fólki og hlustaði af áhuga enda hafði hún mikinn áhuga á fólki. Hlutirnir voru aldrei neitt mál hjá henni. Bara verkefni sem þurfti að leysa og allt var hægt. Hún hafði einstakan húmor og voru þau ófá skiptin sem við sátum saman og spjölluðum um heima og geima, hvort sem það var eitthvað smávægilegt úr okkar daglega lífi eða heimsmálin í stóru samhengi. Litla fjölskyldan hennar var henni alltaf ofarlega í huga. Brynjar Snær, augasteinninn hennar, sem hún var svo stolt af. Samband hennar og Arnars Más var líka einstakt. Umhyggja þeirra hvors fyrir öðru var augljós en glettni og stríðni sjaldnast langt undan. Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá Guðrúnu frekar en öðru fólki en lífsviðhorf hennar og hvernig hún tókst á við hvers kyns hindranir var einstakt. Bjartsýni, jákvæðni og æðruleysi. Það er sárt að hugsa til þess að samverustundir okkar verði ekki fleiri en ég mun geyma allar minningarnar um hana í hjarta mér um ókomna tíð.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Eyþóra.