Már Wolfgang Mixa, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands, og Kári S. Friðriksson, greinandi hjá Arion banka, eru gestir Dagmála á mbl.is í dag.
Már Wolfgang Mixa, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands, og Kári S. Friðriksson, greinandi hjá Arion banka, eru gestir Dagmála á mbl.is í dag.
Það er eins og Seðlabankinn sé búinn að vera einn í þessari baráttu við verðbólguna. Þetta segir Kári S. Friðriksson, greinandi hjá Arion, en hann er gestur í Dagmálum Morgunblaðsins í dag ásamt Má Wolfgang Mixa, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands

Það er eins og Seðlabankinn sé búinn að vera einn í þessari baráttu við verðbólguna.

Þetta segir Kári S. Friðriksson, greinandi hjá Arion, en hann er gestur í Dagmálum Morgunblaðsins í dag ásamt Má Wolfgang Mixa, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands. Í þættinum er farið yfir stöðuna í efnahagsmálum hér á landi og erlendis, stöðuna á fasteignamarkaði, kjarasamningana sem fram undan eru, ríkisútgjöldin, vaxtastig og fleira.

„Það hefur komið á óvart hversu seig verðbólgan hefur verið, Seðlabankinn hefði mátt hækka vexti fyrr og hraðar. Hins vegar hafa laun hækkað mikið og ríkisútgjöld mættu vera lægri, svo Seðlabankinn er búinn að vera svolítið einn í þessu,“ segir Kári.

Már tekur undir að stjórnvöld hefðu átt að halda meira að sér höndum hvað varðar ríkisútgjöld.

„Það er ekki heppilegt að stjórnvöld séu að hækka opinber gjöld á þessum tíma. Þetta stríðir gegn hagfræðikenningum og er í raun bara hagfræði 101. Síðan má benda á að stjórnvöld hafa lítið gert til að mæta aukinni húsnæðisþörf vegna fjölda nýrra Íslendinga.“

Kári og Már fara yfir stöðuna á fasteignamarkaði og áhrif hlutdeildarlána á markaðinn. Þeir eru sammála um að leiðin hafi sína kosti og galla en að stjórnvöld ættu líka að leggja áherslu á aðgerðir til að auka framboðið.

Svigrúmið ekki mikið

Kjarasamningar eru fram undan og spurður hvort svigrúm sé til mikilla launahækkana segir Kári að hann telji það ekki vera ýkja mikið.

„Við sjáum að frá 2013 hafa laun hækkað gríðarlega fram yfir verðlag þannig að raunlaun hafa hækkað verulega mikið og lægstu laun einkum. Að sama skapi hefur framleiðnin ekki haldið sama dampi svo það kemur að þolmörkum. Það er ekki hægt að hækka endalaust laun umfram framleiðni,“ segir Kári og bendir á að framleiðsla þurfi að vera skilvirkari til að standa undir hækkandi launum.

Már tekur undir að laun á Íslandi hafi hækkað töluvert meira en víðast hvar annars staðar.

„Aftur á móti má benda á að þessar launahækkanir hafa ekki skilað sér til allra og sérstaklega ekki fólks á leigumarkaði,“ segir Már.

Spurðir um verðbólguhorfur segja Már og Kári að þeir telji að allt bendi til að við sjáum batnandi horfur á næsta ári.

„Varðandi horfur held ég að það muni nást árangur á næsta ári, þá verði verðbólgan nokkuð lægri en núna. En það verður enginn fullnaðarsigur og gæti tekið ágætistíma að ná verðbólgunni í markmið,“ segir Kári að lokum.