Ole Anton Bieltvedt
Ole Anton Bieltvedt
Efnahagsleg frammistaða dregur Ísland stórlega niður.

Ole Anton Bieltvedt

Á dögunum skrifaði ég hér grein með sama titli. Er þetta framhaldsgrein. Fyrri greinin fjallaði um stefnumörkun nýs formanns Samfylkingarinnar, Kristrúnar Frostadóttur. Kristrún hefur í sinni valdatíð í raun umturnað stefnumálum flokksins sem þar með verður Nýja Samfylkingin, NS.

Eru þessar miklu breytingar, þar sem ESB, evru og m.a. dýravernd, hvalavernd, er varpað fyrir róða, lítið gert með uppstokkun auðlindamála og nýja stjórnarskrá, en gulli og grænum skógum lofað í heilbrigðismálum, húsnæðismálum og samgöngumálum, stórfellt undrunar- og áhyggjuefni. Þetta eru allt málaflokkar mikilla útgjalda en gildi þeirra fyrir alla þjóðin er mjög mismikið, eins og ég kom inn á síðast.

Kristrún er sem sagt á fullu í því að skipta kökunni, lofa upp í ermina á sér, án þess að gera mikið með það, hvernig tryggja má stærstu mögulegu og bestu mögulegu köku.

Stærð kökunnar verður að vera fyrsta málið

Til að skapa velferð þarf fyrst að skapa þannig ramma um efnahagsmálin að atvinnulífið megi vaxa og dafna. Aukin verðamætasköpun, eða útgjaldalækkun, sem ekki bitnar á velferð er forsenda aukinnar velsældar. Eftir því sem þetta er betur gert verður kakan sem til skiptanna kemur stærri. Meira í hvers hlut, hærra framlag til hvers þáttar velferðarsamfélagsins. Þetta er auðvitað fyrsta málið.

Helstu efnahagsmál okkar tíma

Fyrir undirrituðum eru þau þessi:

– Evrópumálin, fyrst framhald samninga við ESB um mögulega aðild. Fyrir öðrum jafnaðarmannaflokkum er Evrópusamstarfið grunnpunktur. Hér talar Kristrún um að það vilji hún ekki því það muni kljúfa þjóðina. Vitaskuld stenst það ekki. Við erum bara að tala um það eitt að ljúka samningaviðræðum við ESB og sjá hvað út úr þeim kemur. Hvernig gætu slíkar þreifingar og samningaumleitanir klofið þjóðina?

– Upptaka evru, sem þá fyrst kæmi þó til greina ef/þegar góðir samningar hafa náðst við ESB og meirihluti væri fyrir aðild. Evran myndi færa stöðugleika inn í íslenskt efnahagslíf, stórlækka vexti og tilkostnað, ekki bara fyrir ríkið heldur líka fyrir fyrirtæki og allan almenning, og það sem afar mikilvægt væri, afgerandi, laða að erlenda fjárfestingu og fyrirtæki; stórskerpa á samkeppni banka og verslunar- og þjónustufyrirtækja – hvernig litist mönnum á að fá hér inn t.a.m. Aldi og Lidl? – en það myndi færa niður verðlag og auka kaupmátt, án launahækkana.

– Auðlindamálin, aukin hlutdeild þjóðarinnar í þeim mikla arði sem verður til í sjávarútvegi t.a.m. með 30% auðlindagjaldi á hagnað, að greiddum sköttum, eins og Norðmenn beita á laxeldisfyrirtæki, fyrir afnot af hafi og strönd. Slíkt auðlindagjald ætti auðvitað líka að ná til fiskeldis í sjó. Mat undirritaðs er að svipað „auðlindagjald“ ætti líka að leggja á tekjur bankanna, en milli þeirra er engin sýnileg samkeppni, þeir velta sér upp úr fákeppninni, njóta stefnu Seðlabanka um yfirkeyrða vexti og raka inn fé á kostnað almennings.

Með þessi stórmál gerir Kristrún lítið eða ekkert.

Mat svissneskra efnahagssérfræðinga

International Institute for Management Development, IMD, er talinn með bestu háskólum heims. Hann hefur um langt árabil framkvæmt úttekt á samkeppnishæfni 63 þjóða. Er Ísland þar með.

Nýlega greindi IMD frá niðurstöðum sínum fyrir 2022. Skilgreinir háskólinn samkeppnishæfi með tilliti til fjögurra þátta:

1. Efnahagsleg frammistaða.

2. Skilvirkni hins opinbera.

3. Skilvirkni atvinnulífsins.

4. Staða samfélagslegra innviða.

Í heildina tekið er Danmörk nr. 1, Sviss nr. 2, Singapúr nr. 3, Svíþjóð nr. 4 og svo koma Finnland og Noregur í 8. og 9. sæti. Ísland er í 16. sæti.

Það sem dregur Ísland stórlega niður er efnahagsleg frammistaða. Fyrsti og þýðingarmesti þátturinn því efnahagslegar framfarir eru forsenda aukinnar velferðar. Þar er Ísland aftast á merinni í 56. sæti.

Ræður þar miklu um að erlend fjárfesting og alþjóðaviðskipti eru hér í lágmarki. Hlutfall erlendra fjárfesta í kauphöllinni er t.a.m. aðeins 5%.

Á hverju strandar erlend fjárfesting?

Svarið er einfalt: Fyrst og fremst á íslensku krónunni. Það er hrein undantekning ef menn vilja koma með sína fjármuni inn í íslensku-krónu-hagkerfið.

Það er synd að velmenntaður hagfræðingur og banka- og efnahagssérfræðingur sem vill verða leiðandi stjórnmálamaður hér skuli ekki sjá og skilja að ESB og evran gætu tryggt okkur meiri aukningu velferðar, þó að það muni taka nokkurn tíma, en flestar eða allar aðrar leiðir.

Mál málanna, og um leið eilífðarmál í krónuhagkerfinu, er auðvitað að ríkisstjórnin, í samvinnu við verkalýðsfélög, samtök atvinnulífsins og Seðlabanka, knýi niður vexti og verðbólgu. Ég segi vexti fyrst.

Í huga undirritaðs hefur Seðlabanki gengið allt of langt í hækkun stýrivaxta, og það í þeim mæli að yfirkeyrðir vextir hafa örvað verðbólgu, ekki dempað hana. Svo að ekki sé talað um þá áþján sem þessar yfirkeyrðu vaxtahækkanir hafa valdið þeim sem síst skyldi. Fólki sem minnst á, mest skuldar og minnsta greiðslugetu hefur. Þeir sem eru velmegandi, skuldlausir og helst gætu lagt nokkuð af mörkum, stór hluti þjóðarinnar, eru hins vegar óhultir og stikkfrí og eyða áfram óspart. Önnur eins óbilgirni og heimska. Geggjun.

Í Danmörku var verðbólgan í október 2022 10%, nú í október 2023 var hún 0,9%, við mest 3,35% stýrivexti á þessu tímabili. Hér var verðbólgan líka 10% fyrir ári, nú, líka í október 2023, var hún enn 8%, við 9,25% stýrivexti. Á öllu evrusvæðinu var verðbólgan komin niður í 2,9% í október 2023, stýrivextir á tímabilinu 0,5-4,5%.

Helsta úrlausnarefni líðandi stundar er: Niður með vextina, niður með verðbólguna!

Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni.

Höf.: Ole Anton Bieltvedt