Henry Kissinger, á hátindi ferils síns, fundar með blaðamönnum sumarið 1973 til að greina þeim frá friðarsamningi við kommúnistana í Víetnam.
Henry Kissinger, á hátindi ferils síns, fundar með blaðamönnum sumarið 1973 til að greina þeim frá friðarsamningi við kommúnistana í Víetnam. — AFP
Þegar tilkynnt var um andlát Henrys Kissingers í síðustu viku kvað við kunnuglegan tón hjá góða og réttsýna söfnuðinum á vinstrivængnum. Það er merkilegt hvað þetta blessaða fólk, sem aldrei virðist efast um eigin vitsmunalegu og siðferðislegu…

Þegar tilkynnt var um andlát Henrys Kissingers í síðustu viku kvað við kunnuglegan tón hjá góða og réttsýna söfnuðinum á vinstrivængnum. Það er merkilegt hvað þetta blessaða fólk, sem aldrei virðist efast um eigin vitsmunalegu og siðferðislegu yfirburði, er gjarnt á að vera rætið, grimmt, kvikindislegt og vægðarlaust þegar færi gefst. Vinstrisinnaða menningarritið Rolling Stone lét ekki sitt eftir liggja, og birti í hvelli frétt með fyrirsögninni: Stríðsglæpamaðurinn Henry Kissinger, sem var dýrkaður og dáður af bandarísku yfirstéttinni, er loksins dauður.

Heiftin og fyrirlitningin hjá vinstrimönnum var í fullkominni andstöðu við viðbrögðin á hægrivængnum, sem einkenndust af djúpri virðingu fyrir afrekum Kissingers í embætti þjóðaröryggisráðgjafa og síðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna; persónutöfrum hans og afburðagáfum.

Hvernig á að dæma Kissinger? Hvernig á yfirhöfuð að dæma menn af hans stærðargráðu?

Í sigti Hitchens

Þessum vikulega pistli mínum fylgir oft heilmikil rannsóknarvinna og algengt er að dagarnir fram að útgáfu séu undirlagðir af alls konar grúski. Stundum næ ég að stytta mér leið með því að hlusta á erindi og viðtöl á netinu, og leita þá gjarnan uppi mér fróðari menn og konur sem viðra sín sjónarmið á meðan ég sinni uppvaskinu, viðra hundinn og tek á því í ræktinni. Í þetta skiptið atvikaðist heimildaleitin þannig að ég datt á bólakaf ofan í viskubrunn Christophers Hitchens heitins en hann var einn harðasti gagnrýnandi Kissingers og gaf árið 2001 út bókina The Trial of Henry Kissinger. Þar telur Hitchens upp ákvarðanir og atvik á ferli Kissingers sem hann telur að flokkist sem stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyninu.

Ég held upp á Kissinger, en ég held líka afskaplega mikið upp á Hitchens og það þrátt fyrir að hann hafi lengst af skilgreint sig sem róttækan vinstrimann og marxista. Hitchens lést um miðjan desember árið 2011 og undir það síðasta virðist mér að hann hafi átt meira sameiginlegt með frjálshyggjumönnum en sósíalistum, en hann varð smám saman fráhverfur vinstrinu eftir kjör Bills Clintons. Hitchens var, svo nokkur dæmi séu nefnd: fylgjandi rétti samkynhneigðra til að ganga í hjónaband, löngu áður en það var almennt í tísku; mjög fylgjandi rétti fólks til að eiga og bera skotvopn; og andvígur fóstureyðingum á grundvelli réttar fóstursins til lífs.

Það er unun að hlýða á Hitchens, enda breskur hugsuður af allra bestu sort: mælskur, afar fróður og vel lesinn, og algjörlega ófeiminn við að synda á móti straumnum. Er líka leitun að manni með sterkari réttlætis- og siðferðiskennd og frægt hvernig Hitchens fletti ofan af Móður Teresu í bókinni The Missionary Position árið 1995 og veitti Bill Clinton sams konar hirtingu í bókinni No One Left to Lie To árið 1999. Dalai Lama var tekinn á teppið í langri grein í New Yorker árið 2008 og Mohandas Gandhi fékk líka að kenna á því í grein sem birtist í The Atlantic sumarið fyrir andlát Hitchens.

Sýnist mér aðeins hægt að finna einn afburðamann 20. aldar sem Hitchens hafði gott álit á, og það var Nelson Mandela. Hitchens dáðist að staðfestu og hugsjónum suðurafríska mannréttindaleiðtogans, en af öllum þeim fyrirmennum og þjóðarleiðtogum sem Hitchens var myndaður með á löngum blaðamannsferli sínum var ljósmyndin af honum og Mandela sú eina sem hann nennti að varðveita.

En Hitchens skipti meira að segja um skoðun á sjálfum Mandela árið 2003 þegar sá síðarnefndi fór að leggja orð í belg varðandi yfirvofandi Íraksstríð. Áður hafði Mandela talað lofsamlega um þá kauna Muammar Gaddafi og Fidel Castro, og loksins var mælirinn hjá Hitchens fullur líkt og kom fram í grein sem hann skrifaði fyrir Slate: „Ekkert fær kastað rýrð á þá óstöðvandi hreyfingu sem [Mandela og arftaki hans Thabo Mbeki] leiddu, ásamt fleirum. En þetta nýjasta bull [í Mandela] er tímabær áminning um að við vörum okkur á þeirri tilhneigingu að upphefja meðbræður okkar og gera þá að ofurmennum.“

Umdeildar ákvarðanir

Hvað var það svo sem Hitchens sakaði Kissinger um? Sakirnar eru margar, en þessar standa upp úr:

Kissinger á að hafa spillt fyrir friðarviðræðum ríkisstjórnar Lyndons B. Johnsons og kommúnistanna í Norður-Víetnam árið 1968 til að bæta sigurlíkur Richards Nixons í forsetakosningunum síðar sama ár. Viðræðurnar sigldu í strand, Nixon flutti í Hvíta húsið og Kissinger var gerður að þjóðaröryggisráðgjafa. Í kjölfarið juku Bandaríkin sprengjuárásir sínar á Víetnam og hófu jafnframt að varpa sprengjum á Kambódíu og Laos þar sem víetnamskir kommúnistar voru taldir hafa hreiðrað um sig. Áttu þessar árásir m.a. þátt í því að Rauðu khmerarnir komust til valda, með öllum þeim hroða sem þeim fylgdi.

Árið 1973 var loksins samið um frið í Víetnam, með n.v. sömu skilmálum og voru í boði fjórum árum áður og hlaut Kissinger friðarverðlaun Nóbels fyrir. Að mati Hitchens átti Kissinger lítinn heiður skilinn fyrir samningana, og bar þvert á móti ábyrgð á því mannfalli sem varð frá 1968 til 1973.

Hitchens sagði Kissinger einnig bera beina ábyrgð á morðinu á síleska hershöfðingjanum Rene Schneider árið 1970, en Schneider stóð í vegi fyrir því að herinn fremdi valdarán til að bola Salvador Allende frá völdum. Arftaki Schneiders, Carlos Prats, sagði af sér 1973 og tók þá Augusto Pinochet við keflinu – og vita lesendur hvað gerðist í kjölfarið.

Kissinger á líka að hafa gefið herforingjastjórninni í Argentínu grænt ljós á að murka lífið úr pólitískum andófsmönnum, og hann vildi ekkert aðhafast árið 1971 þegar pakistanski herinn hóf þjóðernishreinsanir í Austur-Pakistan, nú Bangladess, enda voru Pakistanar mikilvægir bandamenn í kalda stríðinu. Sömu sögu var að segja um ömurlega innrás Indónesíu í Austur-Tímor 1974.

Sumum reiknast til að Kissinger hafi haft um þrjár milljónir mannslífa á samviskunni.

Yfirburðir og breyskleiki

Uppgjörið við Kissinger er þó ekki svona einfalt. Þáttastjórnandinn Ben Shapiro komst vel að orði þegar hann benti á að oftar en ekki snérust störf Kissingers um það að reyna að forðast verstu mögulegu útkomu – jafnvel þegar það þýddi að þurfa að sætta sig við næstversta kostinn.

Að gera upp framlag Kissingers kallar því á að raða á vogarskálarnar bæði því sem var fórnað og því sem var bjargað. Svona getur realpolitik verið agalega subbulegt fyrirbæri.

Hver veit t.d. hvar mannkynið væri statt í dag ef Kissinger hefði ekki beint Nixon á þá braut að minnka spennuna á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna? Heldur nokkur að heimsmyndin væri betri ef Kissinger hefði ekki komið aftur á stjórnmálasambandi milli Bandaríkjanna og Kína, og um leið veiklað samband Kína og Sovétríkjanna? Eða ef hann hefði ekki látið ferja inn gríðarlegt magn hergagna til Ísraels í miðju Yom Kippur-stríðinu 1973?

Hvaða vægi ætti það að fá að Kissinger var yfirburðamaður á mörgum sviðum? Eða fær hann kannski smá afslátt af ýtrustu kröfum fyrir það að vera breyskur eins og við hin? Ég hafði afskaplega gaman af því síðasta sumar, og mæli með því við lesendur, að hlusta á ævisögu Kissingers eftir Walter Isaacson. Þar er ferill Kissingers rakinn í smáatriðum en stór hluti bókarinnar er þroskasaga ungs afburðanemanda sem mætti miklu mótlæti í lífinu og þurfti að fóta sig í nýju landi og nýju samfélagi. Hann losnaði aldrei við þýska hreiminn, en smám saman lærði þessi pattaralegi og lágvaxni gyðingur að hemja hjá sér hrokann og skapköstin. Alla tíð virtist hann þó glíma við minnimáttarkennd sem gerði hann veikan fyrir fólki með völd og áhrif og viðkvæman fyrir gagnrýni.

Isaacson lýsir því líka einkar vel hvernig Kissinger áttaði sig á að það yrði honum til trafala að vera hranalegur ofviti, og smám saman auðnaðist honum að þróa með sér ómótstæðilegt skopskyn, hnyttni og persónutöfra sem hvorki grjótharðir þjóðarleiðtogar né kynbombur í Hollywood gátu staðist.

Kannski lýsti Kissinger arfleifð sinni best sjálfur, þegar hann tók til máls á viðburði sem haldinn var honum til heiðurs þegar hann kvaddi pólitíkina. Kissinger steig upp í pontu og brosti út í annað þegar hann lýsti eigin afrekum:

„Mér hefur verið lýst sem ómissandi kraftaverkamanni. Ég veit það, því ég man hvert einasta orð sem ég hef sagt.“