Því verr gefast heimskra manna ráð er fleiri koma saman

Íslendingar eru
óðum að missa áhugann á „aðgerðum í loftslags-
málum“, samkvæmt kynslóðamælingu markaðsrannsóknafyrirtækisins Prósents, sem greint var frá í Morgunblaðinu í gær. Fyrir aðeins tveimur árum settu fjórar helstu kynslóðir fullorðinna Íslendinga slíkar aðgerðir í 1. sæti þegar spurt var um mikilvægisröð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Nú eru þær fallnar niður í 6. sæti í heildina.

Það er helber en skemmtileg tilviljun að þessar niðurstöður koma í sama mund og liðlega 80 Íslendingar sækja loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP28) í Dúbaí suður við Persaflóa.

Miðað við höfðatölu eru Íslendingar í fremstu röð í Dúbaí, en hverfa þó í mannhafið. Gestgjafarnir höfðu gert sér vonir um að fá tvöfalt fleiri en á loftslagsráðstefnuna í fyrra, um 70 þúsund manns, en nú þegar eru komin 92 þúsund manns. Má geta nærri um hvílíks árangurs má vænta af slíkri ráðstefnu.

Þar verður fylgt sama handriti og á fyrri loftslagsráðstefnum í Glasgow, Kaupmannahöfn, París, Kýótó og öllum 23 hinum borgunum. Þangað koma skriffinnarnir þungbrýndir, verða svartsýnni (og sólbrúnni) eftir því sem á líður, en viti menn: síðustu ráðstefnunóttina vaka fórnfúsir embættismennirnir, ná enn einu tímamótasamkomulaginu og bjarga heiminum í 28. skipti í röð.

Eða ekki. Staðreynd málsins er sú að afraksturinn af öllu þessu brasi er hverfandi. Um það eru þau Björn Lomborg og Greta Thunberg sammála. Af kynslóðamælingunni blasir við að Íslendingar – aðrir en þeir sem nú sóla sig í Dúbaí – eru komnir á sömu skoðun.

Burtséð frá því hversu mikinn þátt maðurinn á í hnattrænni hlýnun eða að hve miklu leyti hann getur dregið úr henni, þá virðast fáir trúaðir á heimsendaspádóma þar að lútandi. Maðurinn hefur mikla aðlögunarhæfni og tæknikunnáttu til þess að búa við mun erfiðari skilyrði en áður og standa betur af sér náttúruöflin.

Þegar António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, tilkynnir heimsbyggðinni að tími hnattrænnar stiknunar sé runninn upp, er gert gys að honum. Engum dettur í hug að frekari hlýnun verði vandræðalaus, en tal um endalok siðmenningar eða lífs á Jörðu missir marks.

Margt bendir því til að bölspámennirnir hafi „misst salinn“ með ýkjum, óraunhæfum markmiðum og óþolandi fórnarkostnaði fyrir óvissan ávinning. Nema hjá þeirri stétt manna, sem finnst gaman að ferðast á fyrsta farrými á fjarlægar slóðir til að tala um loftslagsmál eða véla um niðurgreidd viðskiptatækifæri í grænum greinum.

Í því samhengi er alveg óhætt að tala um loftslagsiðnaðinn, þar sem unnt er að auðgast vel og ná frama á kostnað skattborgara og án þess að hætta miklu til. Þar að baki býr ekki manngæskan ein, heldur hörð hagsmunagæsla, þar sem bæði pólitík og peningar koma við sögu.

Á heildina litið hafa ríki heims ekki breytt orkustefnu sinni síðastliðna áratugi, orkuöryggi trompar flest annað. Og hvað sem grænorkunni líður, þá er notkun jarðefnaeldsneytis ekki að minnka, öðru nær.

Vissulega má finna stöku lönd, sem ekki hafa gætt að orkuörygginu – Þýskaland er augljóst dæmi – en þau hafa undantekningalaust ratað í mikil vandræði vegna þess. Ísland er ekki jafnaugljóst dæmi, en á samt heimagerða orkukreppu á hættu á næstu misserum.

Hyggist þróuð hagkerfi heimsins breyta orkubúskap svo máli skipti er aukin beislun kjarnorku óhjákvæmileg, sólarorka er víða vænlegur kostur og fágætir málmar til rafhlöðugerðar gulls ígildi. Á öllum þessum sviðum eru Kínverjar í lykilstöðu. Vilja Vesturlönd verða háð nýju orkuhagkerfi á valdi Kína?

Athygli vakti þegar Sultan Al-Jaber, olíufursti og forseti COP28, hafði orð á því að tómt mál væri að tala um sjálfbæra þróun án jarðefnaeldsneytis, nema menn vildu halda aftur í hellana. Fyrir það sætti hann nánast bannfæringu, enda jaðra orðin við „loftslagsafneitun“ eða ámóta trúvillu, af því að vísindin eru víst fastmótuð og frágengin um það allt. Svona rétt eins og veðrið.

En Al-Jaber var ekki að hvika frá markmiðum um minni losun CO2, heldur að efa skynsemina við að leggja af notkun jarðefnaeldsneytis í heimi sem er mjög háður því. Meðan annarrar orku nýtur ekki við myndu slík meinlæti leiða af sér gríðarlega lífskjararýrnun, hungur og dauða um víða veröld.

Slíkum erfiðum álitaefnum munu embættismennirnir á einkaþotunum aldrei svara.