Íslensku landsliðskonurnar urðu miklir örlagavaldar í Viborg í gærkvöld því með sigrinum komu þær í veg fyrir að danska liðið kæmist í undanúrslit Þjóðadeildarinnar og myndi þar leika um sæti á Ólympíuleikunum í París næsta sumar

Íslensku landsliðskonurnar urðu miklir örlagavaldar í Viborg í gærkvöld því með sigrinum komu þær í veg fyrir að danska liðið kæmist í undanúrslit Þjóðadeildarinnar og myndi þar leika um sæti á Ólympíuleikunum í París næsta sumar. Þýskaland slapp þar með heldur betur með skrekkinn eftir markalaust jafntefli gegn Wales í Cardiff, náði að vinna riðilinn og komast í undanúrslitin.

Fyrir Ísland þýðir þessi þriðji sigur í 15 leikjum gegn Dönum fyrst og fremst góð stig á töfluna og fyrir næsta heimslista FIFA. Þegar lá fyrir að Ísland myndi enda í þriðja sæti riðilsins og fara í umspil í febrúar um sæti í A-deild undankeppni EM.

Í gærkvöld lauk keppni í öllum riðlum og deildum Þjóðadeildarinnar og nú er ljóst hvaða fjögur lið koma til greina sem mótherji Íslands í umræddu umspili. Það eru Ungverjaland, Króatía, Serbía og Bosnía, sem enduðu í öðru sæti hvert í sínum riðli B-deildarinnar. Umspilið fer fram á bilinu 21. til 28. febrúar og Ísland byrjar á útivelli en á seinni leikinn á heimavelli, hvar svo sem hann verður spilaður.

Ásamt Íslandi eru það Noregur, Svíþjóð og Belgía sem þurfa að fara í umspilið eftir að hafa endað í þriðja sæti í riðlum A-deildar. Skotland, Portúgal, Wales og Sviss féllu en í þeirra stað koma Írland, Finnland, Pólland og Tékkland upp í A-deildina.