Greiðslustöðvun Árni Oddur þarf nú að mæta kröfuhöfum sínum.
Greiðslustöðvun Árni Oddur þarf nú að mæta kröfuhöfum sínum. — Morgunblaðið/Hallur Már
Beiðni Árna Odds Þórðarsonar, fv. forstjóra Marels, um framlengingu greiðslustöðvunar var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Viðskiptavefurinn Innherji greindi frá þessu í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var það Landsbankinn sem…

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Beiðni Árna Odds Þórðarsonar, fv. forstjóra Marels, um framlengingu greiðslustöðvunar var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Viðskiptavefurinn Innherji greindi frá þessu í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var það Landsbankinn sem mótmælti framlengingu greiðslustöðvunar, en málflutningur fór fram á föstudag.

Tæpur mánuður er síðan Árni Oddur hætti óvænt sem forstjóri Marels eftir að Arion banki leysti til sín yfir 4,87% hlut Árna Odds í Eyri Invest sem á 24,67% hlut í Marel. Degi síðar greindi Árni Oddur frá því að hann hefði fengið greiðslustöðvun samþykkta vegna þeirrar réttaróvissu sem skapast hefur vegna aðgerða Arion banka. Landsbankinn hafði samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gert veðkall í bréf Árna Odds en aðhafðist ekkert í málinu að svo stöddu.

Áður hafði verið greint frá því að Landsbankinn hefði veitt félaginu Árni Oddur Þórðarson ehf., sem er eins og nafnið gefur til kynna í eigu Árna Odds, lán. Félagið fer með rúmlega 1% hlut í Eyri Invest. Innherji greindi frá því að lán Landsbankans til félagsins hefði staðið í tæpum 940 milljónum króna í lok síðasta árs, en lánið ber tæpar 70 milljónir króna í vexti á ári.

Landsbankinn hefur heimild til að gjaldfella lánið. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins má gera ráð fyrir því að Landsbankinn gangi nú á Árna Odd um uppgjör skulda og leysi að óbreyttu til sín hlut í Eyri, þ.e. ef ekki gengur að innheimta skuldir. Hversu mikill hluti það verður er óvíst, en rétt er að hafa í huga að Landsbankinn á nú þegar um 14% hlut í Eyri.

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson