Vandræði Marels vinda upp á sig.
Vandræði Marels vinda upp á sig. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Bréf evrópska vogunarsjóðsins Teleois Capital Partners til stjórnar Marels í síðustu viku vakti, eðli málsins samkvæmt, töluverða athygli. Bréfið barst einnig fjölmiðlum, þ.e. þeim fjölmiðlum sem fjallað hafa af þekkingu um málefni Marels og eins stærsta eiganda félagsins, Eyris Invest

Bréf evrópska vogunarsjóðsins Teleois Capital Partners til stjórnar Marels í síðustu viku vakti, eðli málsins samkvæmt, töluverða athygli. Bréfið barst einnig fjölmiðlum, þ.e. þeim fjölmiðlum sem fjallað hafa af þekkingu um málefni Marels og eins stærsta eiganda félagsins, Eyris Invest. Bréf Teleois, sem er stærsti erlendi hluthafinn í Marel með rúmlega 3% hlut, fól í sér gagnrýni á stjórn Marels sem og á Eyri Invest. Adam Epstein, einn stofnenda Teleois, gagnrýnir stjórn Marels fyrir að hafa ekki gætt að umboðsskyldu sinni gagnvart öðrum hluthöfum félagsins og skýtur föstum skotum að stjórnarháttum og fjárhagslegum ákvörðunum feðganna Árna Odds Þórðarsonar (fv. forstjóra Marels) og Þórðar Magnússonar, sem hafa verið stærstu eigendur Eyris Invest. Áður hefur verið greint frá því að miklar deilur hafa verið meðal hluthafa Eyris Invest og Epstein bendir réttilega á að félagið sé nú í miklum fjárhagsvandræðum, sem hann skrifar á óskynsamar ákvarðanir feðganna. Sem kunnugt er hefur Arion banki nú leyst til sín hluta af eign feðganna í Eyri Invest vegna skulda.

Í bréfinu víkur Epstein að yfirtökutilboði bandaríska matvælaframleiðandans John Bean Technologies (JBT) sem barst síðustu vikuna í nóvember. Stjórn Marels lagðist gegn tilboðinu, sem Epstein segir að hafi verið rétt ákvörðun. Aftur á móti bendir hann á að Árni Oddur hafi, í ljósi stöðu sinnar, augljósa hagsmuni af því að taka nær hvaða tilboði sem er. Þá beinir hann einnig spjótum sínum að stjórnarformanni félagsins, Arnari Þór Mássyni, og gagnrýnir einnig veru Ólafs Steins Guðmundssonar í stjórn Marels, en hann situr einnig í stjórn Eyris Invest. Efnisatriði bréfsins verða ekki rakin frekar hér, en það sem þar vegur þó þyngst er að stjórn Marels hefur ekki, að mati Teleois, gripið til aðgerða til að sporna við mögulegum hagsmunaárekstrum fyrrverandi forstjóra Marels gagnvart félaginu.

Óháð efnisatriðum bréfsins má fagna því að hluthafi í skráðu félagi stígi fram með þessum hætti. Sumt kann að vera málefnalegt og annað ekki, það er hægt að takast á um einstaka þætti bréfsins og hafa á því ólíkar skoðanir – en bréfið er komið fram sem og sú gagnrýni sem þar er lögð fram. Það sem er jákvætt við bréfið er að það er til þess fallið að dýpka umræðu um skráð félög, hlutverk og ábyrgð stjórna, hagsmuni eigenda o.s.frv. Á móti kynni einhver að spyrja sig að því af hverju Teleois sé fyrst að tjá sig um málið núna, þegar fyrir liggur að rekja megi vandræði Marels í það minnsta tvö ár aftur í tímann. Epstein tekur þó fram að sjóðurinn hafi í nokkur ár átt þetta samtal við stjórn Marels. Opinber birting bréfsins bendir til þess að það samtal hafi litlu skilað.

Þó ekki sé spurt að því í bréfinu, þá kallar innihald þess á aðra spurningu. Höfðu lífeyrissjóðirnir, sem eiga bæði hluti í Marel og Eyri Invest, enga skoðun á því hvort og þá hvernig gætt var að hagsmunum á milli feðganna og Marels? Nú er full ástæða til að fagna því þegar stjórnendur (og stjórnarmenn) skráðra félaga eiga hagsmuni af því að þau gangi vel, en í þessu eins og öðru þarf að vanda sig og standa undir því trausti sem við viljum að hið frjálsa markaðshagkerfi búi við. Óháð því hvernig mál Marels, Eyris Invest eða feðganna þróast, þá eru í það minnsta komnar fram spurningar og vangaveltur um hlutabréfamarkaðinn sem rétt er að skoða nánar. Vonandi gera það sem flestir.