Elliði Vignisson
Elliði Vignisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eins og sakir standa er ekkert gilt leyfi fyrir hendi til rannsókna í Ölfusdal, þar sem Orkuveita Reykjavíkur áformar að kanna mögulega nýtingu jarðvarma í samvinnu við orkufélagið Títan sem er í eigu sveitarfélagsins Ölfuss

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Eins og sakir standa er ekkert gilt leyfi fyrir hendi til rannsókna í Ölfusdal, þar sem Orkuveita Reykjavíkur áformar að kanna mögulega nýtingu jarðvarma í samvinnu við orkufélagið Títan sem er í eigu sveitarfélagsins Ölfuss. Þetta staðfestir Kristján Geirsson, sviðsstjóri hjá Orkustofnun, í samtali við Morgunblaðið. Leyfi til rannsókna er forsenda þess að þær geti hafist. Það styttist í að Orkuveitan og samstarfsaðilar sendi inn umsókn um rannsóknarleyfi, að sögn Elliða Vignissonar, bæjarstjóra Ölfuss.

Orkuveita Reykjavíkur, sveitarfélagið Ölfus og Títan áforma að sækja sameiginlega um rannsóknarleyfi á grundvelli fyrirhugaðs samstarfs um nýtingu jarðhita í Ölfusdal sem er á Hengilssvæðinu ofan Hveragerðis en í landi Ölfuss sem fer þ.a.l. með skipulagsvaldið. Þessar fregnir ollu nokkrum titringi, bæði hjá bæjaryfirvöldum í Hveragerði sem kvörtuðu undan samráðsleysi, en einnig komu tíðindin RARIK og dótturfélögum þess, Orkusölunni og Sunnlenskri orku, í opna skjöldu, að því er fram kemur í tilkynningu sem RARIK sendi frá sér.

Elliði segist efnislega sammála Hvergerðingum um að hér sé um að ræða viðkvæma náttúru sem liggi nærri þéttbýlinu og gæta beri að henni. Hann bendir á að Hvergerðingar hafi fengið vitneskju um þau áform Ölfuss og Orkuveitunnar að sækja um rannsóknarleyfi í Ölfusdal fyrir níu mánuðum. Því komi undrun þeirra á óvart.

Í tilkynningu RARIK segir að Sunnlensk orka hafi varið umtalsverðum fjármunum og vinnu í rannsóknir á nýtingu jarðvarma á svæðinu frá árinu 1998. Fundist hafi verulegur jarðhiti í Grændal sem er skammt frá Ölfusdal, en þar sem ekki hafi fengist heimild til lagningar vegaslóða í Grændal hafi ekki verið hægt að hefja tilraunaboranir. Grændalur er nú í verndarflokki rammaáætlunar. Vísast er því tómt mál að tala um að fara í frekari rannsóknir þar.

RARIK segir að Sunnlensk orka hafi sótt um nýtingarleyfi jarðvarma í Ölfusdal þann 6. júní sl. og staðfestir Kristján Geirsson að svo sé, en sú umsókn byggist á gömlum grunni, en sé til skoðunar hjá Orkustofnun. Væntanlega er þar vísað til skiptingar vinnslusvæða við Ölkelduháls, Ölfusdal og Grændal sem ákveðin var af landbúnaðarráðherra á sínum tíma og ætlað að leggja til grundvallar rannsóknar- og nýtingarleyfum á téðum svæðum. Niðurstaðan hafi verið sú að RARIK og Sunnlensk orka fengju Ölfusdal og Grændal en Hitaveita Reykjavíkur Ölkelduháls. Því veki nokkra furðu að Orkuveita Reykjavíkur skuli ætla sér að sækja um rannsóknarleyfi í Ölfusdal.

Um athugasemdir RARIK segir Elliði að fyrirtækið hafi ekki sinnt þessu svæði síðan 2001, uns sótt var um nýtingarleyfi sl. sumar.

„Á þeim fimm árum sem ég hef verið bæjarstjóri í Ölfusi hefur alveg verið þverfótað fyrir áætlunum RARIK um orkunýtingu á svæðinu,“ segir hann.

„Mér sýnist þessi framganga sýna í hvaða farveg við erum búin að koma orkumálum á Íslandi. Fáum Íslendingum dylst að velferð þessarar þjóðar til framtíðar er bundin við orkunýtingu, eins og núverandi velferð líka. Um leið og einhver gerir sig líklegan til að stíga ekki nema hænuskref í áttina að orkunýtingu, þá rísa upp á afturlappirnar alls kyns spekúlantar og ríkisstofnanir til að leggja stein í götu hennar. Síðan er rétt að hafa hugfast að RARIK er ríkisstofnun og ég lít á framgöngu fyrirtækisins sem framgöngu ríkisins. Mér finnst lágmark að ríkisstarfsmenn, hvort sem er hjá RARIK eða annars staðar, sýni kurteisi í framkomu sinni við sveitarfélögin sem eru jafnsett stjórnvald,“ segir Elliði.

Líða kyrrstöðuna ekki lengur

„Nú er staðan sú að flöskuhálsinn í ýmsum velferðarmálum í Ölfusi er aðgengi að orku, á meðan Ölfus er eitt orkuríkasta sveitarfélag í landinu. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd, þegar eitt orkuríkasta sveitarfélag landsins líður fyrir skort á aðgengi að orku. Þessu ætlum við að breyta og ef RARIK vill vera með í því tökum við því fagnandi, ef ekki, þá verður svo að vera. En kyrrstöðuna ætlum við ekki að líða lengur,“ segir Elliði.