Sigur Arnór Snær Óskarsson, fyrir miðju, fagnar sigri gegn Benfica í Lissabon ásamt liðsfélögum sínum í A-riðli Evrópudeildarinnar í nóvember.
Sigur Arnór Snær Óskarsson, fyrir miðju, fagnar sigri gegn Benfica í Lissabon ásamt liðsfélögum sínum í A-riðli Evrópudeildarinnar í nóvember. — Ljósmynd/@RNLoewen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnór Snær Óskarsson hefur verið að finna taktinn með Rhein-Neckar Löwen í þýsku 1. deildinni í handknattleik í undanförnum leikjum

Þýskaland

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Arnór Snær Óskarsson hefur verið að finna taktinn með Rhein-Neckar Löwen í þýsku 1. deildinni í handknattleik í undanförnum leikjum.

Arnór Snær, sem er 23 ára gamall, gekk til liðs við Rhein-Neckar Löwen í sumar frá uppeldisfélagi sínu Val.

Hann fékk fá tækifæri með liðinu í upphafi tímabilsins en hefur verið að fá tækifæri í síðustu leikjum liðsins sem hann hefur nýtt vel.

„Það er búið að ganga upp og ofan hjá manni,“ sagði Arnór Snær í samtali við Morgunblaðið.

„Ég vissi það svo sem fyrirfram að ég væri ekki að fara beint í það að spila 60 mínútur í hverjum einasta leik en ég vonaðist klárlega eftir meiri spiltíma til að byrja með en raun ber vitni. Þetta hefur alveg tekið á, andlega, en ég tek einn dag í einu ef svo má segja.

Það er mikið leikjaálag þessa dagana og við erum að spila allt upp í þrjá leiki á viku sem er mjög mikið. Það er mikið álag á öllum leikmönnum og þjálfarinn hefur þurft að dreifa álaginu. Ég hef því reynt að nýta þau tækifæri sem ég hef fengið í undanförnum leikjum,“ sagði Arnór Snær.

Góð stemning í hópnum

Rhein-Neckar Löwen byrjaði tímabilið af miklum krafti og sat á toppi deildarinnar eftir fyrstu umferðirnar en hefur aðeins fatast flugið í síðustu leikjum og situr sem stendur í sjötta sætinu með 17 stig, átta stigum minna en topplið Magdeburg og Füchse Berlín.

„Stemningin hjá okkur er búin að vera nokkuð góð bara þó svo að úrslitin hafi ekki alltaf dottið með okkur í síðustu leikjum. Það er létt yfir leikmannahópnum og það eru þarna nokkrir leikir sem mér finnst við hefðum átt að vinna en við töpuðum þeim nú samt.

Við erum búnir að mæta bæði Kiel og Flensburg í síðustu leikjum og það var alltaf vitað fyrirfram að þetta yrðu erfiðir leikir. Á sama tíma hefur okkur líka gengið mjög vel í Evrópudeildinni þar sem við erum komnir áfram í útsláttarkeppnina en okkur hefði mátt ganga aðeins betur í deildinni, ég viðurkenni það.“

Reynir ekki of mikið

Arnór Snær var á meðal bestu leikmanna úrvalsdeildarinnar hér heima á síðustu leiktíð en faðir hans, Óskar Bjarni Óskarsson, tók við þjálfun Valsliðsins í sumar eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari á síðustu leiktíð.

„Ég er mikið að gera það sama og ég gerði áður en ég kom út. Ég keyri mikið á þessa stærri varnarmenn sem eru margir hverjir hægari en ég á fótunum. Ég hef samt passað mig á því að reyna ekki of mikið og ég legg kannski meiri áherslu á það, þegar ég hef fengið tækifæri, að láta leikinn koma til mín.

Pabbi heyrir í mér eftir hvern einasta leik og hann fylgist vel með. Ég er líka í góðu sambandi við Benna bróður [Benedikt Snæ Óskarsson] og það er gott að tuða í honum líka. Við erum oftast sammála og hann veit frekar mikið um handbolta þótt ég segi sjálfur frá þannig að það er gott að tala við hann. Þeir eru meira í því að styðja við bakið á mér mig þó þeir komi nú alveg með einhverja punkta inn á milli, þegar ég er í stuði til að taka við þeim,“ sagði Arnór Snær í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason