Vocal Project Kórinn er blandaður og fylgir Gunnari Ben. kórstjóra í einu og öllu. Næst á tónleikunum annað kvöld.
Vocal Project Kórinn er blandaður og fylgir Gunnari Ben. kórstjóra í einu og öllu. Næst á tónleikunum annað kvöld.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það snjóar“ er yfirskrift tónleika sem Vocal Project – Poppkór Íslands – verður með í Guðríðarkirkju í Reykjavík klukkan 20 á morgun, fimmtudagskvöld. „Yfirskriftin vísar í eitt lagið í dagskránni,“ segir…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Það snjóar“ er yfirskrift tónleika sem Vocal Project – Poppkór Íslands – verður með í Guðríðarkirkju í Reykjavík klukkan 20 á morgun, fimmtudagskvöld. „Yfirskriftin vísar í eitt lagið í dagskránni,“ segir Kristjana María Svarfdal Ásbjörnsdóttir, Kidda Svarfdal, söngvari í kórnum og varaformaður kórstjórnarinnar, og bendir á að þetta séu vetrartónleikar með jólaívafi. Lögin beri keim af árstíðinni og þau syngi til dæmis Haglél eftir Mugsion og Vetrarsól eftir Gunnar Þórðarson auk hefðbundinna jólalaga.

Áhugafólk um kórasöng tók sig saman og stofnaði kórinn haustið 2010. Gunnar Benediktsson, hljómborðsleikari í hljómsveitinni Skálmöld og dósent við tónlistardeild Listaháskóla Íslands, hefur stjórnað honum undanfarin ár. „Hann er skemmtilegur og hæfileikaríkur tónlistarmaður, sérstaklega góður kórstjóri,“ segir Kidda, sem hefur verið í kórnum í mörg ár og í stjórn í um tvö ár. „Hann stillir okkur upp og stýrir okkur eins og hljóðfærum.“

Engin takmörk

Frá upphafi hefur lagavalið verið óhefðbundið og kórinn ýmist sungið með undirleik eða án hans. Kidda segir að í grunninn sé kórinn poppkór en honum séu engin takmörk sett í lagavali. „Við syngjum alls konar lög, jafnt erlend sem innlend, og erum mjög metnaðarfull í því sem við gerum.“

Reglulega eru teknir inn nýir félagar (vocalproject.is) og síðast var raddpróf í lok ágúst. Nú eru 74 söngvarar í kórnum en Kjartan Valdemarsson. Jón Geir Jóhannsson og Matti Kallio verða meðleikarar á tónleikunum. „Við leggjum alltaf áherslu á fjölbreytileikann,“ heldur Kidda áfram um lagavalið. „Dagskráin miðast við það að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.“ Þau geti sungið þjóðlag og næst komi lag með Beyoncé. „Eitthvað fyrir ömmuna og afann og mömmuna og pabbann að ógleymdum börnunum.“

Kórinn hefur fyrst og fremst haldið tónleika á höfuðborgarsvæðinu en hefur nokkrum sinnum farið í söngferðalög til útlanda og tekur þátt í kórakeppni í Kraká í Póllandi í júní á næsta ári. Kidda segir að covid hafi hægt á starfseminni en hún sé komin á fullt á ný og margt sé á döfinni. „Við höfum sungið hjá fyrirtækjum núna fyrir jólin, bæði í hádeginu og á jólahlaðborðum, og erum á fullu við fjáröflun vegna ferðarinnar næsta sumar.“ Hún segir að ferðalögin hafi verið sérlega skemmtileg og mikil tilhlökkun sé vegna keppninnar næsta sumar. Eins sé gaman að syngja með þekktu tónlistarfólki og kórinn hafi til dæmis komið fram með Páli Óskari og Sniglabandinu.