Krimmi „Frumraun Ragnheiðar Jónsdóttur lofar vissulega góðu um framhald höfundar á þessum vettvangi,“ segir um skvísukrimmann Blóðmjólk.
Krimmi „Frumraun Ragnheiðar Jónsdóttur lofar vissulega góðu um framhald höfundar á þessum vettvangi,“ segir um skvísukrimmann Blóðmjólk.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Glæpasaga Blóðmjólk ★★★·· Eftir Ragnheiði Jónsdóttur. Veröld 2023. Innb. 204 bls.

Bækur

Steinþór

Guðbjartsson

Ekki er sjálfgefið að skrifa góða glæpasögu en Blóðmjólk, frumraun Ragnheiðar Jónsdóttur, lofar vissulega góðu um framhald höfundar á þessum vettvangi, þó ýmislegt megi bæta.

Á bókarkápu segir að Blóðmjólk sé skvísukrimmi. Sennilega er vísað til þess að ungar konur eru í aðalhlutverkum og hugsanlega er einnig átt við að bókin höfði sérstaklega til ungra kvenna, en vissulega á hún einnig erindi til annarra og vekur lesendur til umhugsunar um ýmis vandamál sem geta haft áhrif á líf fólks, jafnt kvenna sem karla.

Sagan fjallar fyrst og fremst um fjórar vinkonur, maka þeirra, börn og í sumum tilfellum foreldra og jafnvel ömmu. Samband þeirra frá Verzlunarskólaárunum, vandann við að eignast börn, barnauppeldi, pössun þeirra, samskipti, slúður, ásakanir og misskilning, yfirgang og undirgefni, andlegt ofbeldi, framhjáhald, skilnað, misnotkun og svo framvegis. Lífið og tilveruna, sem blasir alls staðar við þó upplifun allra sé langt því frá söm.

Vinkonurnar segja frá, hver í sínum kafla í 55 köflum auk eftirmála. Sunnefa er sérfræðingur hjá Tryggingafélaginu Sjóvá og kennir tíðum glasameðferðum um versnandi samband við Halldór, sem starfar hjá Slökkviliðinu í Reykjavík. Hún þráír að eignast börn en það gengur illa. Arnhildur Friðriksdóttir, Adda, er metnaðarfullur sviðsstjóri á skrifstofu Alþingis og á eitt barn með Ingvari auk þess sem 13 ára tvíburar hans búa með þeim á heimilinu. Rakel Ásu- og Eiríksdóttir, sem er ánægð með sjálfa sig og vinnur á markaðsdeild, og Marek flugmaður eiga dreng á leikskólaaldri. Samband þeirra er dautt miðað við brúðkaupsdaginn fyrir sex árum og hún hefur engin tengsl við tengdafólkið vegna trúmála, en er farin að laumast til að líta í kringum sig. Kría Marinósdóttir, sem er fyrrverandi flugfreyja, og Doddi eiga dóttur á sama aldri og búa í höll í Garðabæ. Hún er áhrifavaldur og daðrari en kulnun og fæðingarþunglyndi árið áður hafði áhrif á hana og aðra sem standa henni nær auk þess sem hún er í engu sambandi við móður sína og stjúpföður. Óhófleg drykkja og lyfjaneysla bæta ekki úr skák.

Lýsingar á konunum gefa glöggva mynd af yfirborðslegu lífi þeirra og vandamálum. Frásagnir þeirra eftir að ein þeirra finnst látin skýra myndina enn frekar og ljóst er að ýmislegt hefur gengið á þó allt virðist hafa verið fellt og slétt á yfirborðinu.

Þó sagan hverfist um vinkonurnar, kosti þeirra og bresti, er sjónum einnig beint að mökunum og þeir eru ekki allir við eina fjölina felldir. Sama á við um nokkrar aðrar persónur. Sumar þeirra bjóða ekki af sér góðan þokka og virka kuldalegar og fráhrindandi.

Myndin sem dregin er upp af helstu persónum sýnir að líf þeirra er ekki beinn og breiður vegur. Allar virðast hafa eitthvað á samviskunni og ýmislegt þolir ekki dagsljósið. Þegar ekki er gengið í takt er viðbúið að eitthvað láti undan og sé ekki rætt um hlutina getur illa farið. Það á jafnt við um samskipti táninga og foreldra og samband sambýlisfólks og vina eða félaga, eins og vel kemur fram í sögunni.

Sumir lifa fyrir það að vera í sviðsljósinu og ekki batnar það þegar ýtt er undir sjálfsánægju einstaklinga með stöðugri umfjöllun. Venjulegt fólk er allt í einu komið í hóp þess fræga og fína án þess að hafa nokkuð til þess unnið, upphefur jafnvel sjálft sig á kostnað annarra. Stjarnan skín svolítið í gegn, er miðpunktur alls í lífi vinkvennanna, grípur fram í og tekur stjórnina. Látið er að því liggja að hún sé allra hugljúfi en andúð á persónunni leynir sér ekki. Athyglissýki fellur ekki alls staðar í kramið og sjálfsdýrkendur því síður.

Erfitt getur reynst að eiga við áföll og niðurlægingu og þegar mælirinn er fullur getur stundarbrjálæði haft alvarlegar afleiðingar. Því er vel lýst í Blóðmjólk, en þó uppbygging sögunnar sé góð er kaflinn um frelsið í lokin ekki nógu vel útfærður. Eftirmálin eru samt umhugsunarverð, líka lausu endarnir, og spurningin er um sekt eða sakleysi. Þá ber að hafa í huga að menn eru saklausir þar til annað kemur í ljós.