Hrefna Björnsdóttir fæddist 7. júlí 1929. Hún lést 24. nóvember 2023. Útför hennar fór fram 5. desember 2023.

Mig langar að minnast elsku Hrefnu minnar með þakklæti, sem kom inn í líf mitt þegar ég er að kynnast föður mínum honum, Sigurði Guðmundssyni, einn fallegan sólskinsdag árið 1977.

Hrefna Björnsdóttir var einstök kona, mikil fyrirmynd, alltaf vel tilhöfð og glæsileg. Hún var mjög áhugasöm um samferðafólk sitt, stóra sem smáa í orðsins fyllstu merkingu.

Í Grindavík bjuggu Hrefna og pabbi í tuttugu ár og undu hag sínum vel. Hún rak úraverslun fyrir Gilbert tengdason sinn og þaðan var stutt fyrir pabba að keyra út á Keflavíkurflugvöll. Síðan lágu leiðir þeirra á Brávallagötuna og tengdust þau hjúkrunarheimilinu Grund en þar hafði Hrefna átt farsælan vinnuferil á árum áður. Eftir að þau flytjast aftur í borgina var hún viðloðandi sjálfboðastarf á Grund í mörg ár, þar hafði hún meðal annars umsjón með bókavagninum og spjallaði oft við heimilisfólkið um sögurnar sem voru lesnar.

Samband okkar pabba var mikið í gegnum símtólið þar sem ég bjó í Danmörku lengi og oftar en ekki þegar ég heyrði í honum og við vorum búin að stikla á stóru, þá kallaði hann á Hrefnu sína til að taka við tólinu. Þá fyrst flaug tíminn og undantekningarlaust var hægt að fá skemmtilegar umræður um gang lífsins og auðvitað reyndum við líka að leysa heimsmálin í leiðinni. Ekki má svo gleyma flottu veðurlýsingunum sem voru náttúrlega einstakar og hefði hvaða veðurfræðingur sem er verið stoltur af. Þar var ekkert slegið af, heldur farið í skýjafar og nákvæmar hita- og kuldatölur ekki bara á Íslandi heldur jafnvel víða í Evrópu ef svo bar undir.

Hrefna og pabbi urðu þeirrar ánægju aðnjótandi að þau tóku að sér að leysa Guðmund Sigurðsson og Kolbrúnu eiginkonu hans af eitt sumar á Galtarvita sem liggur út af Súgandafirði. En þau voru síðustu vitaverðir þar á árunum 1992-94. Þessi tími hafði verið ævintýri fyrir þau og var oft vitnað í eitthvað skemmtilegt sem þau höfðu upplifað þar, ásamt litlum heimalningi sem fylgdi þeim við hvert fótmál við störf þeirra þarna í náttúrunni fjarri öllum ys og þys þar sem eingöngu er hægt að koma gangandi eða sjóleiðina.

Landið sitt þekkti hún eins og lófann á sér og var það unun að hlusta á þegar hún var að lýsa staðháttum þar sem þau höfðu ferðast um landið. Átti hún ótal uppáhaldsstaði út um allt land og mundi ógrynni af fjallanöfnum og örnefnum á hólum, dölum og allt niður í minnstu lækjarsprænur. Alltaf mátti samt heyra að Austurlandið væri henni afar kært, enda ættuð frá Fáskrúðsfirði.

Frá upphafi urðum við vinkonur og er ég afar þakklát fyrir það, hún á alltaf eftir að fylgja mér í góðum minningum um góða konu, sem gaf svo fallega af sér.

Börnum Hrefnu og afkomendum votta ég mína dýpstu samúð.

Þín

Hjördís Sigurðardóttir.