Úthaf Hafið faðmar landsins yngstu strönd, orti Ási í Bæ um Surtsey sem hér sést úr flugvél í þéttum þokusudda.
Úthaf Hafið faðmar landsins yngstu strönd, orti Ási í Bæ um Surtsey sem hér sést úr flugvél í þéttum þokusudda. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Rétt sextíu ár eru í dag, 6. desember, liðin frá landnámi í Surtsey; það er þeim degi þegar menn stigu þar fyrst á land. Forsagan er sú að 14. nóvember hófst neðansjávargos syðst í Vestamannaeyjaklasanum svo upp á himininn steig mökkur sem náði 20 þúsund feta hæð. Þessu fylgdu aska og hraunslettur og innan fárra sólarhringa hafði eyja risið úr sæ. Segjast verður að eldgos eru alltaf stórfrétt, hvað þá þegar nýtt land verður til. Af þeirri ástæðu vakti atburður þessi eftirtekt víða um lönd og af því varð mikil saga.

Bullsauð í kötlum

Alveg frá upphafi Surtseyjarelda voru fréttir af framvindunni daglega í fjölmiðlum. Kraftur gossins var mikill svo bullsauð í kötlum. Siglt var að rísandi landi og myndir teknar, en einnig var fínt útsýni að gosstöðvunum á suðurhluta Heimaeyjar, svo sem frá Stórhöfða. Eyjamenn voru áfram um að ná landi í Vesturey, sem þeir kölluðu svo. Eyjan var vestast í eyjaklasanum og því þótti Vestureyjarnafnið liggja beint við. Örnefnanefnd var þó á annarri skoðun og Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra féllst á tillögu nefndarinnar um að eyjan skyldi heita Surtsey og gígur hennar Surtur.

„Nefndinni þykir vel á fara, að hinum nýju aðsópsmiklu eldstöðvum sé gefið nafn hins tilkomumikla eldjötuns, enda eru bæði nöfnin íslenzk kjarnyrði, sem fara vel í munni. Sakar og ekki að geta þess, að þar sem fornir menn hugsuðu sé yfirleitt jötna í austri, er Surtur einn talinn koma úr suðri, en hin nýja ey er syðsta ey Íslands,“ sagði Örnefnanefnd í yfirlýsingu. Formleg auglýsing um þetta var gefin út 9. desember en fáum dögum áður höfðu sögulegir atburðir orðið í Surtsey.

Hamfarafréttmaður á heimsvísu

Í bókinni Strand í gini gígsins, eftir Ásmund Friðriksson alþingismann, segir frá því að strax á fyrstu dögum eldgossins hafi mynd af því og þeim eldglæringum sem fylgdu birst í blöðum eins og National Geographic, New York Times og Life. Einnig sagði hið myndríka gleðiblað í Frakklandi, Paris Match, frá eldgosinu og þar hugsuðu menn sé strax gott til glóðarinnar, í tvöfaldri merkingu orðanna.

Á ritstjórn blaðsins starfaði Gerard Gary sem gerði sig út fyrir að sinna hamfarafréttum á heimsvísu. Nokkrum árum áður en hér var komið sögu hafði hann orðið fyrstur manna til að stíga á land á eldfjallalandi við Asoreyjar. Og nú var komið að því að endurtaka leikinn í norðurhöfum. Gary kom til Íslands með tveimur félögum sínum, fjallamönnunum Phillip Laffon og Pirre Mazaud, og á Heimaey komu þeir 5. desember. Þeir létu engan vita hver tilgangur ferðar þeirra væri en þeir höfðu í farangri sínum slöngubát, sem þó vakti engar grunsemdir. Að morgni föstudagsins 6. desember settu þeir bátinn á flot í Klauf við Stórhöfða og sigldu sem leið lá um opið haf nokkrar sjómílur að eyjunni. Stigu þar á land og höfðu viðdvöl í stutta stund. Hlupu svo aftur um borð í tuðru sína og sigldu til baka.

Settu upp fána á gígbarminum

Þegar þetta gerðist lónuðu varðskipið Albert og vélbáturinn Haraldur VE við eyjuna. Áhöfnin á Eyjabátnum taldi fyrst – og kannski eðlilega – að þarna hefðu varðskipsmenn tekið land en hið rétta spurðist þó fljótt úr. Framganga Frakkanna þótti frekleg og vera hið versta mál. Sigurgeir Jónasson, ljósmyndari Morgunblaðsins, tók myndir af landtökunni og birtust þær víða. Í Morgunblaðinu var svo daginn eftir rætt við Gary. Þar sagði hann sig og félaga sína alvana í verkefnum sem þessum.

„Við lögðum upp, sigldum út að eyjunni, þar sem var nokkurt brim – og viti menn – það kom ekki vottur af gosi upp úr henni. Þar sem ég þekki svolítið til þessháttar gosa, þá vissi ég að gosið gat komið á hverri stundu … Við höfum verið þar í ca. 20 mín., og settum þar upp franska fánann og fána Paris Match, eins og við erum alltaf vanir að gera, ef við komumst fyrstir á einhvern stað. Og svo tókum við heilmikið af myndum. En við höfðum ekki tíma til að fara upp á gígbarminn. Ég var hissa hvað við fengum frið lengi,“ sagði Gary við Morgunblaðið.

Engin eftirmál urðu af landgöngu Frakkanna, sem strax eftir svaðilför til Surtseyjar héldu til Reykjavíkur og flugu svo af landi brott til að geta sem fyrst birt frásögn sína í Parísarblaðinu.

Í nafni vísinda

Eyjamenn kunnu landnámi Frakka í Surtsey mátulega vel. Þeim hljóp kapp í kinn og náðu landi þar sjálfir ekki löngu síðar. Ferðir í eyjuna voru nokkuð tíðar á tímabili, en svo fór að fyrir þær var tekið í nafni vísindanna. Fræðimönnum þykir ómetanlegt að geta kannað hvernig sjálfstætt lífríki dýra og plantna myndast í nýju landi. Tækifæri til slíks bjóðast í Surtsey, sem var friðlýst árið 1965 og sett á heimsminjaskrá UNESCO – Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna – árið 2008. Slíkt var mikill áfangi, en á téða skrá komast aðeins staðir sem þykja hafa markvert gildi fyrir veröldina alla.