Sorphirða Nýtt flokkunarkerfi kostar sitt miðað við gjaldskrárhækkanir í sumum sveitarfélögum. Í öðrum eru sorphirðugjöld svipað há og í ár.
Sorphirða Nýtt flokkunarkerfi kostar sitt miðað við gjaldskrárhækkanir í sumum sveitarfélögum. Í öðrum eru sorphirðugjöld svipað há og í ár. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Umtalsverðar hækkanir verða á sorphirðugjöldum í þremur af sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu frá og með næstu áramótum. Nemur hækkunin allt að 40%. Þessar hækkanir koma í kjölfar innleiðingar á nýju flokkunarkerfi fyrir allt höfuðborgarsvæðið um mitt árið. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga kveðst binda vonir við að Úrvinnslusjóður muni á endanum taka á sig hluta aukins kostnaðar sem hlýst af nýja flokkunarkerfinu.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Umtalsverðar hækkanir verða á sorphirðugjöldum í þremur af sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu frá og með næstu áramótum. Nemur hækkunin allt að 40%. Þessar hækkanir koma í kjölfar innleiðingar á nýju flokkunarkerfi fyrir allt höfuðborgarsvæðið um mitt árið. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga kveðst binda vonir við að Úrvinnslusjóður muni á endanum taka á sig hluta aukins kostnaðar sem hlýst af nýja flokkunarkerfinu.

Morgunblaðið leitaði upplýsinga hjá sveitarfélögunum sex um gjaldskrár næsta árs. Ekki er um endanlega staðfestar tölur að ræða í öllum tilvikum því sveitarstjórnir eru þessa dagana að ljúka afgreiðslu fjárhagsáætlana. Miðað er við parhús þar sem áður voru tvær tunnur, ein fyrir blandað sorp og ein endurvinnslutunna.

Mest er hækkunin í Reykjavík þar sem íbúar greiddu fyrir breytingar 52.600 fyrir þessar tvær tunnur en munu greiða 73.500 á næsta ári. Nemur hækkunin 40%. Í Kópavogi er fast sorpeyðingargjald á hverja íbúð og nam það 48.400 krónum í ár. Á næsta ári hækkar gjaldið um 29% og verður 62.500.

Á Seltjarnarnesi er núverandi sorphirðugjald 62.100 en stefnt er að því að það verði 75 þúsund krónur frá áramótum. Það er hækkun upp á 21% og verður gjaldið það hæsta á höfuðborgarsvæðinu að óbreyttu.

Hafnfirðingar hafa greitt 64.531 krónu fyrir sorphirðu í ár ef miðað er við tvær tunnur. Gjöldin fyrir sorphirðu við parhús með þrjár tunnur á næsta ári verða 68.798 krónur. Nemur hækkunin tæpum 7%.

Mega ekki niðurgreiða þjónustuna

Íbúar Mosfellsbæjar greiddu 56.900 í sorphirðugjald vegna íbúðarhúsnæðis í ár. Samkvæmt tillögu að gjaldskrá sem liggur fyrir bæjarstjórn munu þeir greiða 58.170 krónur á næsta ári fyrir þrjú ílát í stað tveggja áður.

Í Garðabæ var sorphirðugjald vegna íbúðarhúsnæðis 53 þúsund krónur í ár. Með nýju fyrirkomulagi breytist gjaldskrá lítillega og fyrir bæjarstjórn liggur að afgreiða gjaldskrá næsta árs. Verði hún samþykkt hækkar sorphirðugjald um 163 krónur milli ára.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að með innleiðingu hringrásarhagkerfisins séu sveitarfélögin að framfylgja lögum sem Alþingi hefur sett. Ekki hafi gefist mikill tími til undirbúnings. „Okkur ber að hækka kostnað í takt við raunkostnað. Við megum ekki niðurgreiða þessa þjónustu svo það er þröng staða til að hreyfa við þessum gjöldum.“

Hún segir að það sé vissulega ekki hvetjandi fyrir fólk að taka þátt í innleiðingu hringrásarhagkerfisins þegar það felur í sér aukinn kostnað fyrir það sjálft. „Það var ekki þannig sem við sáum það fyrir okkur. Við stóðum í þeirri meiningu að Úrvinnslusjóður myndi standa straum af kostnaði við að hirða pappa og plast en sú hefur ekki orðið raunin. Það er einhver flækja þar innanhúss sem þarf að leysa úr. Nú er kominn nýr framkvæmdastjóri þar og ég hef trú á að farið verði í þessi mál af krafti.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon