Nýr Land Cruiser kemur á götuna undir lok næsta árs. Gera má ráð fyrir því að hann verði vinsæll hér á landi, hér eftir sem hingað til.
Nýr Land Cruiser kemur á götuna undir lok næsta árs. Gera má ráð fyrir því að hann verði vinsæll hér á landi, hér eftir sem hingað til. — Mynd/Toyota
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er ljóst að Toyota ætlar ekki að láta sitt eftir liggja með sterkri innkomu á rafmagnsbílamarkaðinn á næstu árum. Framleiðandinn kynnti í síðustu viku nýjar lausnir í framleiðslu rafmagnsbíla sem eru væntanlegir á götuna á næstu tveimur árum – ásamt fjölda annarra nýrra bíla

Það er ljóst að Toyota ætlar ekki að láta sitt eftir liggja með sterkri innkomu á rafmagnsbílamarkaðinn á næstu árum. Framleiðandinn kynnti í síðustu viku nýjar lausnir í framleiðslu rafmagnsbíla sem eru væntanlegir á götuna á næstu tveimur árum – ásamt fjölda annarra nýrra bíla.

Toyota hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa dregist aftur úr hvað þróun og framleiðslu rafmagnsbíla varðar en spurðir um það eru fulltrúar framleiðandans með svörin á hreinu. Þau eru nokkurn veginn á þá leið að menn vildu vera vissir um að hægt væri að bjóða upp á nægileg gæði í framleiðslu bílanna hvað varðar drægni og endingu. Þá hefur Toyota verið leiðandi í því sem kallað er hybrid-lausn – sem krefst minna magns af jarðefnum í batterí, hefur í för með sér umtalsvert minni útblástur og er aðgengileg þeim sem hafa ekki endilega haft fjárráð til að kaupa sér rafmagnsbíl (sem hafa fram til þessa verið töluvert dýrari en aðrir bílar). Benda má á umfjallanir um þetta í bílablöðum Morgunblaðsins og í viðtali við Gill Pratt, forstjóra Toyota Research Institute Inc (TRI) og yfirvísindamanns Toyota Motor Corporation, sem birt var hér í ViðskiptaMogganum í júní sl.

Ódýrari og betri batterí

ViðskiptaMogginn sótti fimmtu Kenshiki-ráðstefnu Toyota sem fram fór í Brussel í liðinni viku. Kenshiki merkir á japönsku innsæi, en á viðburðinum kynnir framleiðandinn nýjar lausnir, nýja bíla, framtíðarsýn sína og fleira, veitir fjölmiðlum aðgang að helstu stjórnendum og þróunarteymi framleiðandans með viðtölum og hliðarviðburðum.

Toyota kynnti fyrr á þessu ári rafmagnsbílinn bZ4X, auk þess sem nýr rafmagnsbíll er væntanlegur. Á Kenshiki-ráðstefnunni fór þó fram sérstök kynning þar sem fram kom að árið 2026 yrðu sex rafmagnsbílar í boði frá japanska framleiðandanum.

Þá kynnti Toyota, ásamt Lexus sem einnig er í eigu Toyota, nýjar lausnir og tækni við framleiðslu á batteríum sem áætlað er að taka í notkun eftir árið 2026. Gangi sú þróun eftir verða batteríin minni og munu auka drægni rafmagnsbíla nokkuð. Að sögn Toyota mun tæknin einnig fela í sér lægri kostnað fyrir neytendur og framleiðandinn gefur því undir fótinn að verð á rafmagnsbílum lækki mögulega. Þannig áætlar Toyota að ný tegund battería tvöfaldi drægni bZ4X, sem er í dag um 400 km við góðar aðstæður, og hann verði um 20% ódýrari í framleiðslu. Önnur og þriðja kynslóð battería mun að sama skapi auka drægni og minnka kostnað. Spá Toyota er að eftir árið 2027 verði komnir á götuna bílar með yfir 1.000 km drægni og taki örskamman tíma að hlaða.

Framleiðandinn ætlar þó að ganga enn lengra með lúxusvörumerki sitt, Lexus. Stefnt er að því að allir bílar Lexus verði knúðir með rafmagni árið 2035, jafnvel fyrr í Evrópu ef markaðsaðstæður leyfa.

Hröð þróun

„Við viljum bjóða upp á mikið úrval bíla og okkur er að takast það,“ segir Harold Paton, yfirmaður þróunar og vörumerkja hjá Toyota í Evrópu, í samtali við ViðskiptaMoggann.

„Þarfir fólks eru ólíkar, hvort sem litið er til stærða bíla, drægni eða orkunýtingar. Þessu fylgja vissulega áskoranir, til dæmis þegar horft er til innviða og hleðslu bíla, hvort sem um er að ræða plug-in-bíla eða þá sem eru eingöngu knúnir rafmagni. Þess vegna teljum við líka mikilvægt að bjóða upp á ólíkar lausnir, enda er aðgangur að rafmagni ólíkur eftir svæðum í Evrópu.“

Spurður um það hvort hann sjái fyrir sér að drægni plug-in hybrid-bíla muni aukast enn frekar en nú er segir hann að það sé í sjálfu sér ekki forgangsmál.

„Við getum tekið dæmi af RAV4 Plug-in hybrid. Drægnin á slíkum bíl, þegar ekið er á rafmagni, er um 75 km við ákjósanlegar aðstæður. Það dugar flestum fyrir daginn þegar keyrt er innan borga en þegar farið er í lengri ferðir er notast við bensín þegar rafmagnið klárast,“ segir Paton.

„Aftur á móti eru allar þessar breytingar mjög spennandi samhliða því sem þeim fylgja margar áskoranir. Þróunin hefur verið hröð og hún mun halda áfram næstu árin.“

Gerald Killmann, aðstoðarforstjóri Toyota í Evrópu, segir aðspurður að Toyota sé ekki að koma seint að borðinu með framleiðslu rafmagnsbíla. Í samtali við ViðskiptaMoggann segir Killmann að nú liggi betur fyrir en áður hvernig tæknin virkar og hvernig hægt er að þróa hana til betri vegar.

„Bæði framleiðandinn og neytandinn vilja vera vissir um að tæknin virki vel. Nú vitum við hvað hægt er að gera, hvað við þurfum til að framleiða góð batterí og um leið bíla sem gagnast neytendum vel,“ segir Killmann.

Fjölga vinnubílum

Þá vakti einnig athygli á ráðstefnunni að Toyota stefnir að því að auka frekar við markaðshlutdeild sína í flokki vinnubíla í Evrópu. Toyota hefur um árabil framleitt Proace-sendibílaútgáfuna en kynnir nú til leiks Proace Max sem sjá má á mynd hér að ofan. Þá mun framleiðandinn jafnframt þróa Hilux enn frekar og bjóða hann í fjölbreyttari útgáfum.

Kynntu nýjan Land Cruiser

Toyota hefur hafið forsölu á nýrri útgáfu af Land Cruiser, sem hefur verið einn af vinsælustu bílunum hér á landi. Gera má ráð fyrir því að nýi „krúserinn“ komi á götuna í lok næsta árs, 2024.

Segja má að með nýju útliti og nýrri hönnun sé Toyota að leita aftur í upprunann, en nú eru yfir 70 ár liðin frá því að Land Cruiser kom fyrst á götuna. Nýi bíllinn, eða jeppinn öllu heldur, mun innihalda öll þau gæði og lúxus sem gerð er krafa um í slíkum bílum. Bíllinn mun koma í þremur útgáfum, Prestige, Executive and First Edition, allar í fimm og sjö sæta útfærslum. Árið 2025 stendur jafnframt til að kynna Hybrid 48V batterí sem bætist þá við 2,8 l dísilvél bílsins.

Það má gera ráð fyrir því að nýr Land Cruiser verði vinsæll hér á landi og sumir hafa nú þegar sett sig í samband við Toyota til að tryggja sér eintak.