Declan Rice tryggði Arsenal ótrúlegan sigur á Luton, 4:3, á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld en markið skoraði hann með skalla eftir sendingu Martins Ödegaards á síðustu sekúndum uppbótartíma

Declan Rice tryggði Arsenal ótrúlegan sigur á Luton, 4:3, á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld en markið skoraði hann með skalla eftir sendingu Martins Ödegaards á síðustu sekúndum uppbótartíma. Gabriel Martinelli, Gabriel Jesus og Kai Havertz skoruðu einnig fyrir Arsenal en Gabriel Osho, Elijah Adebayo og Ross Barkley fyrir Luton sem komst í 3:2 í seinni hálfleik. Arsenal náði þar með fimm stiga forystu í deildinni.

Wolves vann Burnley, 1:0, í fyrri leik kvöldsins þar sem Hwang Hee-Chan skoraði sigurmarkið á 42. mínútu en Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður hjá Burnley í fyrri hálfleik.

Valsmenn drógust í gær gegn Tatran Presov frá Slóvakíu, liðinu sem sló út Aftureldingu, þegar dregið var til 16-liða úrslitanna í Evrópubikar karla í handknattleik. FH dróst gegn gamla serbneska stórveldinu Metaloplastika Sabac sem vann BK-46 frá Finnlandi naumlega í 32-liða úrslitum. Bæði Valur og FH eiga heimaleikina á undan en leikið er 10.-18. febrúar.