Hafnarfjörður Áætlaðar fjárfestingar næsta árs 8,5 ma. kr.
Hafnarfjörður Áætlaðar fjárfestingar næsta árs 8,5 ma. kr. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Gert er ráð fyrir rúmlega 1,7 milljarða kr. afgangi af rekstri A- og B-hluta Hafnarfjarðarbæjar, skv. fjárhagsáætlun sem samþykkt var í vikunni. Rekstur A-hluta verður jákvæður um 861 milljón kr. á árinu 2024 samkvæmt áætlun

Gert er ráð fyrir rúmlega 1,7 milljarða kr. afgangi af rekstri A- og B-hluta Hafnarfjarðarbæjar, skv. fjárhagsáætlun sem samþykkt var í vikunni. Rekstur A-hluta verður jákvæður um 861 milljón kr. á árinu 2024 samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 5,4% af heildartekjum eða 2.619 millj. kr.

Áætlað er að skuldaviðmið sveitarfélagsins lækki áfram og verði komið niður í um 86% í lok næsta árs. Slíkt er vel undir almennu viðmiði sem sveitarfélög starfa eftir. Útsvar verður óbreytt, 14,7%, og álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúða- og atvinnuhúsnæði verður lækkuð úr 0,223% í 0,217%. Slíkt er gert til að mæta hækkun fasteignamats.

Áætluð útgjöld Hafnarfjarðarbæjar á næsta ári eru áætluð 43 milljarðar króna. Af því eru launagreiðslur um 57%. Gert er, skv. tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ, ráð fyrir almennri hækkun gjaldskrár um 9,9% til þess að mæta verðlags- og launahækkunum umfram áætlanir og sennilegri verðbólgu næsta árs.

Áætlaðar fjárfestingar Hafnarfjarðarbæjar á næsta ári verða tæplega 8,5 milljarðar króna og þar er margt fram undan. Þar má nefna frágang á nýbyggingarsvæðum og endurgerð gönguleiða og reiðhjólastíga. Hefja á undirbúning að nýjum leik- og grunnskóla í Hamranesi, endurbæta Suðurbæjarlaug og hanna útisvæði við Ásvallalaug. Þá verður haldið áfram með byggingu knatthúss á félagssvæði Hauka. Jafnhliða verður unnið að undirbúningi ýmissa stórra verkefna, má þar nefna þróun miðbæjar og Flensborgarhafnar, flutning Tækniskólans á hafnarsvæðið og þróun Krýsuvíkur. sbs@mbl.is