Drög Svona sjá arkitektar fyrir sér að nýja byggingin muni líta út.
Drög Svona sjá arkitektar fyrir sér að nýja byggingin muni líta út. — Teikning/Office Nordic
Félagið Nýr Landspítali ohf. hefur tekið tilboði Óskataks í jarð- og lagnavinnu vegna nýbyggingar við Grensásdeild Landspítala. Kostnaðaráætlun er upp á tæplega 122 milljónir króna. Óskatak ehf. var lægstbjóðandi en tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á 114,3 milljónir króna

Félagið Nýr Landspítali ohf. hefur tekið tilboði Óskataks í jarð- og lagnavinnu vegna nýbyggingar við Grensásdeild Landspítala. Kostnaðaráætlun er upp á tæplega 122 milljónir króna.

Óskatak ehf. var lægstbjóðandi en tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á 114,3 milljónir króna. Það samsvarar 93,7% af kostnaðaráætlun vegna verkefnisins.

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala, segir tilboðinu hafa verið tekið enda sé það metið hagstæðast fyrir kaupanda samkvæmt valforsendum útboðslýsingar. Því sé kominn á bindandi samningur milli aðila.

Fresturinn liðinn

Bjóðendum var tilkynnt með tölvupósti 22. nóvember sl. að ákveðið hefði verið að velja tilboð frá Óskataki og ennfremur að a.m.k. tíu dagar skyldu líða frá því að ákvörðun um val tilboðs er tilkynnt og þar til tilboð er endanlega samþykkt.

Samkvæmt 85. gr. laga um opinber innkaup eiga bjóðendur rétt á að fá rökstuðning fyrir höfnun á tilboðum sínum, sendi þeir um það skriflega beiðni til NLSH innan 14 daga frá því að bjóðanda var tilkynnt ákvörðun. Sá frestur er nú liðinn og bárust engar slíkar óskir.

Gunnar segir áformað að jarðvinna geti hafist í mánuðinum. Síðan verði uppsteypa boðin út í febrúar, þegar jarðvinnan verði langt komin, og svo verði byrjað að steypa upp í upphafi sumars. baldura@mbl.is