Frammistaða íslenska liðsins var á heildina litið frábær. Hin 18 ára gamla Fanney Inga Birkisdóttir átti einhverja bestu frumraun í manna minnum í markinu, lék einfaldlega stórkostlega og hver einasta aðgerð hennar óaðfinnanleg

Frammistaða íslenska liðsins var á heildina litið frábær. Hin 18 ára gamla Fanney Inga Birkisdóttir átti einhverja bestu frumraun í manna minnum í markinu, lék einfaldlega stórkostlega og hver einasta aðgerð hennar óaðfinnanleg.

Stórleikur Fanneyjar Ingu varð hins vegar ekki til í tómi enda fékk hún mikla og góða hjálp frá fyrirliðanum Glódísi Perlu Viggós­dóttur og Guðrúnu Arnardóttur, sem stigu ekki feilspor í miðvarðarstöðunum.

Markaskorarinn Karólína Lea Vilhjálmsdóttir lék þá afar vel fremst á miðjunni og var óheppin að skora ekki fyrr í leiknum þegar skot hennar af löngu færi eftir mistök Lene Christensen í marki Danmerkur fór fram hjá auðu markinu.

Sérstaklega var varnarleikur Íslands góður og skóp einfaldlega sigurinn þó að Danir hafi vissulega fengið nokkur opin færi.

Enn vantar herslumuninn í sóknarleiknum þó að tekist hafi að skapa nokkur góð færi í fyrri hálfleik. Íslenska liðið fékk einungis eitt færi í þeim síðari en nýtti það, sem skildi einfaldlega á milli.

Ekki er yfir miklu að kvarta eftir tvo sterka útisigra þar sem Ísland skoraði þrjú mörk. Eftir að hafa átt í erfiðleikum með að skora framan af keppni hefur sóknarleikurinn batnað og er liðið að taka góð skref í rétta átt.