Sala rafbíla hefur verið góð að undanförnu en umboðin óttast minni sölu eftir áramót.
Sala rafbíla hefur verið góð að undanförnu en umboðin óttast minni sölu eftir áramót. — Morgunblaðið/Ár
Rafbílar munu að óbreyttu hækka umtalsvert í verði í byrjun næsta árs þegar virðisaukaskattsívilnun fellur niður. Í staðinn hefur verið boðaður allt að 900 þús

Rafbílar munu að óbreyttu hækka umtalsvert í verði í byrjun næsta árs þegar virðisaukaskattsívilnun fellur niður. Í staðinn hefur verið boðaður allt að 900 þús. kr. styrkur fyrir einstaklinga og fyrirtæki í fjölskyldubílaflokki til kaupa á rafbíl. Þessar tillögur hafa þó enn ekki verið formlega gefnar út.

Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, segir það vonbrigði að ár eftir ár sé óljóst hver stefna ríkisstjórnarinnar sé í þessum efnum.

„Innflytjendur eins og við þurfum að panta vöru með mjög langan afhendingartíma. Það er eðlileg krafa okkar að breytingar hvað varðar ívilnanir og annað er áhrif hefur á verð vörunnar séu boðaðar tímanlega,“ segir Friðbert.

Hann segir aðspurður að sala rafbíla hafi verið mjög góð að undanförnu en framtíðin sé mjög óviss. Menn óttist mikinn samdrátt eftir áramót í ljósi óvissunnar.

Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju, segir að óljós skilaboð séu frá stjórnvöldum um að bílar muni hækka um 5-15%. Mest muni ódýrustu bílarnir hækka, um 10%, en bílar sem kosta 10 m.kr. eða meira um allt að 15%.

„Við erum að fara að hægja á orkuskiptum samgangna. Það liggur fyrir og kemur mér mjög á óvart. Mér kemur líka mjög á óvart að stjórnvöld ætli að skattleggja rafbíla meira en dísel- og bensínbíla sem uppfylla sömu þarfir. Heildarupphæð vörugjalda og virðisaukaskatts af rafbílum verður í mörgum tilvikum hærri á hreinum rafbílum en af bensín- og/eða díselbílum. Varðandi bílaleigur, sem umhverfisráðherra hefur bent á að skipti miklu máli varðandi orkuskiptin, þá sé ég engar forsendur fyrir því að þær muni koma sterkar inn í rafbílakaup næsta árs. Bílarnir eru einfaldlega of dýrir og henta ekki í bílaleigustarfsemi enn sem komið er,“ segir Jón Trausti.

Í skriflegu svari frá Toyota á Íslandi segir að markaðurinn á árinu hafi verið góður og salan sömuleiðis. „Nú er óvissa sem snýr að því að afsláttur á virðisaukaskatti af rafbílum fellur niður um áramót og ekki er vitað hvað tekur við,“ segir í svari Toyota.