Jólamarkaður FKA New Icelanders var haldinn í Sjávarklasanum í fyrra en í ár verður hann í Granda mathöll.
Jólamarkaður FKA New Icelanders var haldinn í Sjávarklasanum í fyrra en í ár verður hann í Granda mathöll.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vegna erfiðleika margra kvenna af erlendum uppruna við að finna starf við hæfi hér á landi gerast þær gjarnan frumkvöðlar og fara út í eigin rekstur. Þetta segir Veronika Guls, samskiptafulltrúi FKA (Félag kvenna í atvinnulífinu) New Icelanders, í samtali við ViðskiptaMoggann

Vegna erfiðleika margra kvenna af erlendum uppruna við að finna starf við hæfi hér á landi gerast þær gjarnan frumkvöðlar og fara út í eigin rekstur.

Þetta segir Veronika Guls, samskiptafulltrúi FKA (Félag kvenna í atvinnulífinu) New Icelanders, í samtali við ViðskiptaMoggann.

FKA New Icelanders eru samtök sem sett voru á laggirnar til að styðja við og efla konur af erlendum uppruna á Íslandi.

Guls segir að helstu áskoranir sem þessar konur búi við séu aðgangur að fjármagni, bókhald og skattamál. Einnig sé tengslanetið takmarkað. Þá fyrirfinnist ómeðvituð kerfisbundin skekkja gagnvart útlendingum eins og hún orðar það.

Haldinn í annað skipti

Árlegur jólamarkaður FKA New Icelanders verður opnaður í dag í Granda mathöll. Þar munu félagskonur bjóða til sölu margvíslegan varning. Guls segir að markaðurinn sé nú haldinn í annað skipti en fyrst var hann haldinn í Sjávarklasanum á Granda á sama tíma á síðasta ári. „Það gekk ótrúlega vel,“ segir Guls.

Spurð um fjölda kvenna af erlendum uppruna í FKA segist Guls ekki vera með nákvæma tölu en áhuginn á þessum hópi sé mikill.

„Það sýnir sig best í því að fésbókarsíða okkar er með 661 fylgjanda, sem gefur til kynna mikla og vaxandi virkni kvenna af ólíkum uppruna. Markmið okkar er að halda stöðugt áfram að teygja okkur út og bjóða upp á jákvæðan og hvetjandi vettvang fyrir konur af ólíkum uppruna til að tengjast, deila reynslu og vaxa í sameiningu,“ segir Guls.

Hún segir aðspurð að konurnar sem sótt hafi viðburði félagsins komi frá fjölda landa og nefnir lönd eins og Angóla, Búlgaríu, Kanada, Síle, Kína, Króatíu, Danmörku, Eistland, Færeyjar, Gana, Þýskaland, Ungverjaland, Írland, Ítalíu, Jamaíku, Keníu, Lettland, Litháen, Mexíkó, Filippseyjar, Pólland, Portúgal, Rúmeníu, Rússland, Bretland og Bandaríkin.

Undirbúa fleiri viðburði

Guls segir að auk jólamarkaðarins sé FKA New Icelanders með fjölda annarra viðburða í undirbúningi sem allir eigi að hvetja og styðja konur af erlendum uppruna á Íslandi.

„Þar má nefna námskeið, tengslafundi og menningarviðburði allt árið um kring,“ útskýrir Guls.

Spurð hvort erfitt sé fyrir konur af erlendum uppruna að ná athygli á markaðnum fyrir vörur sínar, kunnáttu og hæfileika segir Guls að nýleg rannsókn sýni að Ísland þurfi fimmtán þúsund manns á næstu árum til starfa til að viðhalda jafnvægi í efnahagslífinu og lífsgæðum í landinu.

„Talið er að aðeins þrjú þúsund heimamanna muni skila sér inn á vinnumarkaðinn á sama tíma sem þýðir að atvinnulífið þarf tólf þúsund manns að auki til að manna öll störfin. Erlent vinnuafl hefur verið drifkraftur hagvaxtar og velmegunar á Íslandi síðustu áratugi. Það að samlagast og tryggja réttindi innflytjenda sem hingað koma til að vinna hefur áskoranir í för með sér, og ein þeirra er sú að tryggja aðgengilega íslenskukennslu.“

Fyrrnefnd atriði segir Guls samkvæmt rannsóknum nauðsynleg til að laga nýja Íslendinga að atvinnulífinu og samfélaginu.

„Þetta er grundvallartariði fyrir langtíma velgengni og til að minnka ójöfnuð,“ segir hún.

Á markaðinum í dag verður fjöldi vara til sölu, þar á meðal skrautkerti unnin úr endurunnum kertum eftir Birnu Sigurbjörnsdóttur, barnabókin The Grumpy Whale, fylgihlutir með endurskini eftir Alice Oliviu Clarke og Gracelandic-tískuvörur eftir Grace Achieng.