Fyrirtækin Míla og Farice, sem á og rekur sæstrengi, hafa gert með sér samstarfssamning um uppbyggingu nýrrar netmiðju á Íslandi, þ.e. tengistöðvar fyrir netumferð til og frá landinu. Netmiðjan verður á Akureyri og sú fyrsta og eina utan suðvesturhornsins

Margrét Þóra Þórsdóttir

skrifar frá Akureyri

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

Fyrirtækin Míla og Farice, sem á og rekur sæstrengi, hafa gert með sér samstarfssamning um uppbyggingu nýrrar netmiðju á Íslandi, þ.e. tengistöðvar fyrir netumferð til og frá landinu. Netmiðjan verður á Akureyri og sú fyrsta og eina utan suðvesturhornsins.

Fjarskiptaöryggi hér á landi eykst og hefur samningurinn að auki í för með sér jákvæðan ávinning af ýmsu öðru tagi. Erik Figueras Torras forstjóri Mílu og Þórarinn Sveinsson forstjóri Farice skrifuðu undir samninginn á Akureyri í gær og kynntu ásamt Marinó Tryggvasyni stjórnarformanni Mílu þá möguleika sem hann hefur í för með sér. Við sama tækifæri tilkynnti Míla að gagnahraði um netið á Akureyri yrði tífaldaður.

Til þessa hafa tengistaðir netumferðar verið á suðvesturhorni landsins og öll umferð hvaðan sem er af landinu farið þar í gegn á leið sinni á áfangastað. Netmiðjan á Akureyri hefur í för með sér að netumferð íbúa Vestfjarða og Norður- og Austurlands mun fara leiðina Akureyri, Seyðisfjörður, Skotland, London.

Skilvirkari netumferð

Erik Figueras Torras forstjóri Mílu kynnti breytinguna sem í vændum er. Sagði hann flæði netumferðar verða skilvirkara og samskiptaleiðir styttri. Notendur nettenginga á norðurhelmingi landsins yrðu með beina tengingu við sæstrengi til útlanda.

„Með nýrri netmiðju á Akureyri eykst öryggi íslenskra fjarskipta þar sem samskipti til og frá landinu geta farið aðra leið en gegnum suðvesturhornið. Þær jarðhræringar sem eiga sér nú stað á Reykjanesskaganum og í nágrenni hans eru áminning um mikilvægi þess að styrkja stoðir mikilvægra innviða svo sem netmiðja.“

Þórarinn Sveinsson forstjóri Farice sagði fyrirtækið reka þrjá sæstrengi og að sá fjórði væri að bætast við með þessum samningi. Hann nefndi sérstaklega að stjórnendur fyrirtækisins væru meðvitaðir um að á Íslandi gætu áföll af ýmsu tagi dunið yfir og af þeim hefðu þeir lært, m.a. við uppbyggingu innviða. Akureyri væri öruggur staður, m.a. jarðfræðilega, og innviðir góðir.

Þörf fyrir öflugri tengingar

„Við þurfum að horfa fram á veg í uppbyggingu okkar fjarskiptainnviða bæði til fyrirtækja og heimila. Þörfin fyrir öflugri nettengingar heimila eykst hratt með hverju ári,“ sagði Erik Figueras Torras um tíföldun Mílu á internethraða í bænum, svokallað 10x.

Með því er fyrirtækið að bjóða sína bestu þjónustu í bæjarfélaginu sem felur í sér meiri hraða og betri upplifun endanotenda.

„Heimilum á Akureyri mun nú standa til boða gegnum fjarskiptafélög þeirra tenging með internethraða allt að 10 gígabita á sekúndu í báðar áttir. Það er tíföldun þess sem best þekkist í dag og er gríðarstórt stökk fyrir tengingar heimila,“ sagði Erik.