Sigurgeir Jónasson fæddist 4. nóvember 1928 á Hólabrekku í Miðneshreppi. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 2. desember 2023. Faðir hans var Jónas Bjarni Bjarnason, f. 1898, d. 1996, byggingameistari. Móðir hans var Sigrún Sigurjónsdóttir, f. 1896, d. 1974, húsmóðir.

Systur Sigurgeirs voru Sólveig Jóhanna, f. 1926, d. 2022, og Erla, f. 1927, d. 1976.

Sigurgeir kvæntist Margréti Björnsdóttur, f. 25.2. 1930, d. 4.6. 1993. Börn Sigurgeirs og Margrétar eru: 1) Ágústa Rut, f. 1951, d. 2022, en maður hennar var Úlfar Árnason, dóttir hennar er Margrét Hugrún Gústavsdóttir, f. 1970; 2) Sigrún Margrét, f. 1953, gift Guðna Albert Einarssyni, dætur þeirra eru Guðný Erla, f. 1976, Sólveig Kristín, f. 1979, og Auður Birna, f. 1983; 3) Halla, f. 1961, maður hennar var Rúnar Gíslason, d. 2018, sonur Höllu er Emil Örn Sigurðarson, f. 1981, en synir hennar og Rúnars eru Rúnar Steinn, f. 1991, og Hrólfur Sturla, f. 1995. Stjúpdóttir Höllu er Hólmfríður Rós Rúnarsdóttir, f. 1978. Halla er í sambandi með Gísla Kristóferssyni, f. 1955; 4) Sigurgeir Orri, f. 1967, eiginkona hans er Heiðrún Gígja Ragnarsdóttir. Börn þeirra eru Ragnar Orri, f. 2006, og Freydís Heiður, f. 2017; 5) Jónas Björn, f. 1968. Eiginkona hans er Rósa Guðbjartsdóttir. Börn þeirra eru Sigurgeir, f. 1995, Bjartmar, f. 1998, d. 2003, Margrét Lovísa, f. 2002, og Jónas Bjartmar, f. 2004. Alls eru barnabarnabörn Sigurgeirs og Margrétar 13 talsins.

Sigurgeir ólst upp á Garðskaga í Gerðahreppi. Hann bjó í heimahúsum fram yfir gagnfræðapróf. Hann hóf matreiðslunám á Hótel Borg árið 1945 og nam í Kaupmannahöfn árin 1946-48. Sigurgeir lauk meistaraprófi árið 1955. Hann starfaði sem kokkur á Goðafossi og Gullfossi á árunum 1948-54, var með eigin rekstur þegar hann rak skemmtistaðinn Silfurtunglið við Snorrabraut frá 1954-63. Þá starfaði hann einnig um tíma sem kokkur á strandferðaskipum og sem bryti á skipum Eimskipafélagsins auk þess að starfa nokkur ár á skemmtiferðaskipi sem sigldi á milli Englands, Spánar og Frakklands. Enn fremur rak hann mötuneyti Félagsstofnunar stúdenta og vann sem yfirkokkur í Officera-klúbbnum hjá varnarliðinu í Keflavík um skeið.

Jarðarför hans fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 15. desember 2023, klukkan 13.

Þá er hann farinn yfir móðuna miklu, hann faðir minn. Kominn til Möggu sinnar í sumarlandinu þar sem ástin er eilíf og sólin skín.

Þegar ég hugsa til baka fyllist ég þakklæti. Þakklæti fyrir allar þær góðu stundir sem ég átti með honum. Það er vitaskuld ást – en matarást líka. Því hann var snilldarkokkur og mikill næringarfræðingur. Sykur var til dæmis eitur í hans beinum frá því ég man eftir mér. Maturinn sem hann eldaði var ljúffengur. Djúpsteiktur fiskur í orly-deigi með remúlaðisósunni sem hann útbjó sjálfur. Mjög eftirminnilegt. Þær voru ófáar máltíðirnar með gellur eða nætursaltaðar kinnar á borðum. Um nokkurra ára skeið varði hann jólunum með okkur í Kaliforníu. Það var þægilegt að hafa hans traustu hönd og góðu leiðsögn við undirbúning jólasteikurinnar. Hann kenndi mér til dæmis að halda fingrunum örlítið krepptum við laukskurð til að minnka líkur á fingramissi.

Hann kenndi mér að meta kvikmyndir. Hann fór oft með okkur systkinin í bíó. Fyrsta minningin er úr Gamla bíó á Galdrakarlinum í Oz. Þegar ég ásamt vinum mínum stofnaði kvikmyndaklúbb var hann heiðursfélagi.

Lífið með Geira var mikill skóli. Hann kenndi mér að byggja hús. Þetta byrjaði allt þegar ég hrapaði næstum því til bana niður í húsgrunninn sem hann hafði þá nýlega tekið fyrir húsinu að Mánabraut 8. Fyrir einhverja tilviljun hékk ég á hnakkadrambinu í staur í stað þess að endasendast niður (ég var svo lítill að ég man ekki eftir þessu). Svo þegar húsið reis af grunni tók ég þátt í því. Naglhreinsaði og skrapaði spýtur, „handlangaði“ fyrir múrarann og var „smiður“ þegar þakið var klárað. Á unglingsárum lagði ég stéttir og plantaði trjám. Ég hef alltaf búið að þessu.

Pabbi var mikill aðdáandi Steins Steinars. Þeir voru kunningjar. Í Danmörku skömmu eftir stríð deildu þeir Steinn herbergi á pensjónati. Pabbi var þá að læra til kokks. Steinn sem var mjög grannur maður og með visna hönd var spurður að því hvers vegna hann væri svona horaður. Svar Steins var þetta með þunga: „Bergen Belsen.“ Steinn hafði vitaskuld aldrei setið í fangabúðum. Þetta var húmor Steins. Þetta var húmor pabba líka. Hann kunni sumar vísur Steins utan að. Ekki síst þessar háðskustu. Fyrir utan Passíusálm númer 51 fór hann oft með þessa vísu:

Húsameistari ríkisins

tók handfylli sína af leir

og horfði dulráðum augum

51 x 19 + 18 / 102,

þá útkomu læt ég mig

raunar lítils varða.

Ef turninn er lóðréttur

hallast kórinn til hægri.

Mín hugmynd er sú,

að hver trappa sé annarri lægri.

Húsameistari ríkisins

tók handfylli sína af leir,

og Hallgrímur sálugi Pétursson

kom til hans og sagði:

Húsameistari ríkisins!

Ekki meir, ekki meir!

Í vísunni kristallast ef til vill lífsskoðun föður míns. Hann var á móti þunglamalegu ríkisvaldi, kerfiskörlum og reglugerðafargani. Hann var einstaklingshyggjumaður – eins og Steinn.

Ég læt þetta duga af minningum um föður minn. Ég vona að mér hafi tekist að lýsa honum þótt ég óttist að ég sé aðallega að lýsa sjálfum mér. Hvíl í friði, faðir minn kær.

Sigurgeir Orri

Sigurgeirsson.

Nú er kvaddur á braut elskulegur tengdafaðir minn, Sigurgeir sem jafnan var kallaður Geiri. Samfylgd okkar varði í 33 ár og var alla tíð mjög kært á milli okkar; höfðum oftast svipaða sýn á menn og málefni og lífið almennt. Ég man þegar ég kom fyrst í heimsókn á Mánabrautina með honum Jonna mínum til að hitta þau hjón Geira og Möggu. Geiri var ekki lengi að drífa sig inn í eldhús og skella í vöfflur til að bjóða upp á með kaffinu. Hann var hress og kátur, hún ljúf og brosmild og áttum við góð og notaleg fyrstu kynni sem gáfu fyrirheit um trausta fjölskyldu sem og varð raunin. Magga féll frá langt fyrir aldur fram en Geiri bjó á Mánabrautinni í 20 ár eftir andlát hennar, í stóra, glæsilega húsinu sem þau höfðu byggt og skapað fjölskyldunni fallegt heimili í. Eftir þann mikla missi sem fráfall Möggu var bjó Geiri að því að hafa ungur flutt að heiman og þurft að sjá fyrir sér sjálfur. Hann var sjálfstæður og drífandi og vílaði ekki hlutina fyrir sér. Geiri var einstaklega duglegur að bjóða börnum og barnabörnum í dýrindis kvöldverði og fjölmennar veislur sem hann galdraði fram að því er virtist fyrirhafnarlaust. Hann og foreldrar mínir náðu vel saman, fengu þau oft að njóta gestrisni Geira og áttu margar góðar stundir saman, meðal annars á ferðalögum erlendis.

Geiri var alltaf boðinn og búinn til aðstoðar okkur fjölskyldunni í gegnum árin og áttum við í miklum og góðum samskiptum. Hann var mikill húmoristi, með sterkar skoðanir og hló innilega þegar það átti við. Það var gaman að hafa hann nálægt sér. Geiri var aufúsugestur á Kirkjuveginum, en þangað kom hann nánast daglega, í kaffisopa eða mat, á meðan heilsan leyfði, og var betri en enginn þegar létta þurfti undir. Börnin okkar Jonna löðuðust að afa Geira og þau voru honum náin. Hann skutlaði og sótti, spjallaði og spilaði við þau og reyndist þeim afar góður í alla staði. Það eru dýrmætar minningar.

Nú er runnin upp kveðjustund. Langri og góðri ævi er lokið.

Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku Geiri minn. Hvíl í friði.

Rósa Guðbjartsdóttir.

Í dag kveðjum við afa Geira eða „Swell Guy“ eins og hann kaus að kalla sig á góðri stundu. Við afi vorum góðir vinir, og þá sérstaklega eftir að við bjuggum ekki lengur saman. Ég flutti til afa og ömmu 15 ára þar sem 10. bekkur var ekki kenndur á Suðureyri og tveimur árum síðar dó amma.

Sambúð með afa gamla einum tók aðeins á. Það lagðist illa í hann ef heimilismeðlimir sátu aðgerðalausir og enduðu ítrekaðar ábendingar hans um hin ýmsu verkefni oftar en ekki með góðum þrætum og þrasi þar sem ég lét ekki svo auðveldlega skipa mér fyrir verkum. Eins undarlegt og það kann að hljóma þá uppskar ég með þessu virðingu afa og eftir að ég flutti út af heimilinu urðum við hinir mestu mátar. Hann var alltaf duglegur að bjóða okkur Róberti í mat, sótti okkur og skutlaði á Keflavíkurflugvöll þegar við bjuggum í Danmörku og skaut yfir okkur fjölskylduna skjólshúsi þegar við vorum gestir í borg óttans.

Afa var kokkur og oft duglegur að stússa í eldhúsinu. Honum var alla tíð illa við sykur, fussaði yfir sælgætisáti, setti aldrei sykur í kartöflumús eða rófustöppu og ósjaldan reyndi hann að fá mig til þess að borða súrmjólk án sykurs. Það tókst ekki. Afi var líka séður í fjármálum, nýtti alla hluti vel, fór vel með peningana sína og fannst það hið mesta bruðl (eiginlega heimskulegt) að kaupa nýja bíla sem lækka um nokkra hundraðþúsundkalla í verði við það eitt að keyra út úr umboðinu. Honum gekk betur með auratalið en sykurinn og hef ég tileinkað mér mikið af því sem hann predikaði og gerði hvað sparnað og ávöxtun eigna varðar.

Afi var frekar sprækur til rúmlega 90 ára aldurs en síðustu ár hefur hann verið heldur heilsutæpur. Undir það síðasta var hann farinn að rugla og gleyma og átti erfitt með að halda uppi samræðum. Lífsgæðin voru engin í lokin og trúi ég að hann hafi það miklu betra þar sem hann er nú. Spræka afa sakna ég en er á sama tíma þakklát fyrir að hafa átt hann jafn lengi og raun ber vitni.

Hvíl í friði elsku afi.

Guðný Erla.