Sundhöllin Tímamótamannvirki.
Sundhöllin Tímamótamannvirki. — Morgunblaðið/Golli
Á næstunni verður ráðist í umfangsmiklar endurbætur á Sundhöll Reykjavíkur við Barónsstíg. Tillagan var samþykkt á síðasta fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Vegna framkvæmdanna verður innilaugin lokuð almenningi vel á annað ár

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Á næstunni verður ráðist í umfangsmiklar endurbætur á Sundhöll Reykjavíkur við Barónsstíg. Tillagan var samþykkt á síðasta fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Vegna framkvæmdanna verður innilaugin lokuð almenningi vel á annað ár.

Samkvæmt upplýsingum Steinþórs Einarssonar, skrifstofustjóra hjá menningar- og íþróttasviði, er stefnt að útboði í upphafi næsta árs og að framkvæmdir hefjist haustið 2024. Gera má ráð fyrir að framkvæmdir verði fram á árið 2026.

Sundhöll Reykjavíkur var hönnuð af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins og tekin í notkun árið 1937. Byggingin var friðuð af menntamálaráðherra 2004. Friðunin tekur til ytra og innra borðs laugar, búningsklefa og sturtuklefa.

Árið 2017 var viðbygging tekin í notkun. Hún er með útilaug, heita og kalda potta, vaðlaug, nýja afgreiðslu og bað- og búningsklefa. Útiaðstaðan verður opin almenningi á meðan framkvæmdir standa yfir innanhúss.

Núverandi laugarker innilaugar var orðið illa farið. Það verður endurgert og hannað eftir núgildandi reglum um sundlaugar og aðgengi bætt. Sundlaugin helst áfram tvískipt þ.e. annars vegar 25 metra sundlaug og hins vegar sjö metra kennslu- og barnalaug.

Þá verða heitir pottar á austursvölum endurgerðir og færa á þvottahús á neðri hæð upp og koma fyrir gufuböðum.

VA arkitektar hafa séð um hönnun og verkfræðistofan Verkís um tæknihönnun. sisi@mbl.is

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson