Elín Óskarsdóttir fæddist 20. júní 1933 á Landspítalanum í Reykjavík. Hún lést á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund 27. nóvember 2023.

Elín var var elsta barn hjónanna Ingileifar Steinunnar Guðmundsdóttur frá Mosvöllum í Önundarfirði og Óskars Gíslasonar frá Eystra-Íragerði, Stokkseyri, múrarameistara og ökukennara í Reykjavík. Systkini hennar eru Valgerður húsmóðir, f. 30. júlí 1938, og Guðmundur Gísli skipulagstæknifræðingur, f. 27. apríl 1947, d. 17. janúar 2023.

Elín giftist 26.12. 1954 Kristjáni Ingólfssyni fræðslustjóra, f. á Seyðisfirði 8. október 1932. Börn þeirra eru: 1) Ingileif Steinunn, f. 28.9. 1955, doktor í landbúnaðarvísindum og nú raungreinakennari við FAS. Hún á þrjár dætur, Kristínu Þyri Þorsteinsdóttur, f. 10.9. 1977, Sólveigu Margréti Diðriksdóttur, f. 12.1. 1998, og Guðrúnu Benediktu Diðriksdóttur, f. 17.8. 2000. 2) Ingólfur, f. 8.10. 1959, heimilis- og endurhæfingarlæknir. Hann á tvö börn, Auði, f. 24.7. 1986, og Kristján, f. 24.9. 1989. 3) Óskar Grímur, f. 6.12. 1961, sjálfstæður atvinnurekandi og lærður ökuleiðsögumaður. Hann á fjögur börn, Kristján, f. 29.4. 1987, Birtu Rakel, f. 13.3. 2001, Vöku Rebecku, f. 2.6. 2003, og Dagnýju, f. 24.8. 2009.

Útförin fer fram frá Breiðholtskirkju í dag, 15. desember 2023, klukkan 13.

Elín Óskarsdóttir var elsta barn hjónanna Ingileifar Steinunnar Guðmundsdóttur og Óskars Gíslasonar. Hún sleit að mestu barnsskónum í Reykjavík.

Sumrin eftir fermingu fór Elín í sveit. Hún var bæði hjá frændfólki sínu vestur á Kirkjubóli í Önundarfirði, þar sem hún var m.a. við síðustu fráfærur á Íslandi, en einnig fór hún norður þar sem hún var tvö sumur „hestastrákur“ á Sauðadalsá á Vatnsnesi og síðan á Sandhaugum í Bárðardal. Hún var mikið náttúrubarn og vistin í sveitum landsins átti einkar vel við hana.

Hún gekk í Austurbæjarskólann sem gaf henni gott veganesti út í lífið. Hún hafði gaman af íþróttum, dansi og ballett og var meðal annars valin til þess að dansa ballett við opnun Þjóðleikhússins.

Að loknu gagnfræðaprófi vann hún ýmis tilfallandi störf og fór einn vetur í Húsmæðraskólann á Laugum í Reykjadal. Um haustið hélt hún til Reykjavíkur en þar var enga vinnu að fá. Varð það til þess að hún fór í Kennaraskólann. Þar hitti hún fyrir tilviljun Kristján Ingólfsson frá Seyðisfirði. Hann varð ekkert hrifinn þegar einn af bekkjarbræðrum hans vildi taka með sér frænku sína á viðburð hjá þeim bekkjarfélögum, en frænkan og Kristján gengu í hjónaband annan dag jóla 1954. Níu mánuðum síðar fæddist svo frumburðurinn, Ingileif Steinunn. Vorið 1956 lauk Elín kennaraprófi. Um haustið fluttu ungu hjónin á Bíldudal sem kennarar.

Árið 1957 fékk Kristján skólastjórastöðu á Eskifirði. Þangað fluttu þau Elín með frumburðinn. Þar fæddust svo drengirnir, Ingólfur 8. október 1959 og Óskar 6. desember 1961.

Þau Kristján og Elín hófu bæði störf við kennslu á Eskifirði. Kom fljótlega í ljós að Elín var um margt á undan sinni samtíð sem kennari. Má þar benda á að ólíkt mörgum öðrum kennurum á þessum tíma varði hún góðum tíma í kynfræðslu. Hún kenndi börnunum þannig af nákvæmni um það hvernig hægt væri að verjast ótímabærum þungunum og kynsjúkdómum.

Nú á tímum þætti þetta varla tiltökumál, en á þessum tíma skiptist fólkið á Eskifirði í tvo hópa vegna þessa sem þótti frjálsræði og hugsanlega lausung – annar helmingurinn var yfir sig ánægður með framsýni Elínar, en hinn helmingurinn vildi hana helst burt úr bænum.

Árið 1973 flutti fjölskyldan á Reyðarfjörð þegar Kristján var skipaður námsstjóri og síðar fræðslustjóri á Austurlandi. Fjórum árum síðar var hann allur. Þá var eins og fótunum væri kippt undan Elínu og náði hún sér aldrei að fullu eftir það. Hún hélt til Akureyrar árið eftir til að vera nær sonum sínum sem þá voru í Menntaskólanum á Akureyri, vann við póstburð, en festi ekki yndi á Akureyri. Flutti þá til Reykjavíkur til móður sinnar sem orðin var ekkja og vann við ýmis störf í iðnaði og við póstburð. Á endanum komst hún í þjónustuíbúð í Norðurbrún þar sem hún dvaldi í tíu ár. Síðustu árin dvaldi hún á elli- og hjúkrunarheimilinu Grund þar sem hún andaðist 27. nóvember síðastliðinn.

Við systkinin kveðjum móður okkar og vitum að hún nýtur þess að geta dansað á ný, frjáls úr fjötrum ellinnar, og leitað á vit nýrra ævintýra.

Ingileif Steinunn Kristjánsdóttir, Ingólfur Kristjánsson, Óskar Grímur Kristjánsson.

Nokkur orð í minningu Ellu ömmu. Ég man ekki mikið eftir henni þangað til ég er fimmtán ára, þá byrja ég að muna eftir henni. En samband okkar varð aldrei mjög sterkt, fyrr en ég hóf nám í Háskóla Íslands. Þá loksins urðum við nánar, ekki síst vegna þess að ég bjó á Garði og það gat verið á stundum fremur einmanalegt og ýtti undir heimþrá. Þegar ég saknaði mömmu gat verið mjög þægilegt að hjóla bara til Ellu ömmu. Þá sungum við lög og fórum með ljóð og höfðum það gaman. Hún mundi aldrei hver ég var, stundum var ég mamma, stundum var ég mamma hennar, stundum var ég einhver stelpa á línunni að vinna með henni í fiskinum. En hún tók alltaf á móti mér brosandi. Alveg þangað til Gísli bróðir hennar dó núna í janúar. Ég veit að henni hafði verið sagt að Gísli væri dáinn, en hún náði því ekki fyrr en ég sagði henni frá því. Eftir það varð hún ofboðslega sár og bitur í langan tíma. Í næstsíðasta skipti sem ég kom til hennar var dauðinn henni mjög hugleikinn. Hún grét og var ósátt með að Gísli bróðir hennar hefði dáið en ekki hún, henni fannst það svo sárt. Eftir þessa heimsókn leið heill mánuður áður en ég heimsótti hana aftur. En einn dag er eins og sagt við mig að ég ætti að heimsækja hana. Þegar ég kom þá var hún í miklu betra skapi og hún bað mig að biðja með sér. Hana langaði að biðja Guð að fyrirgefa henni allar hennar syndir og biðja hann að blessa fjölskyldu hennar. Þetta var í síðasta skipti sem ég sá hana.

Hérna í Kína segja menn að talan fjórir sé oft í merkingu hinna látnu og Ella amma dó á fjórða fulla tungli eftir að ég kom hingað. Það er eins og heimurinn sé að segja mér: Öllum er afmarkaður sinn tími undir sólinni.

Sólveig Margrét
Diðriksdóttir, Kína.

Ella móðursystir okkar var öðruvísi í besta skilningi þess orðs. Við systkinin minnumst hennar með margvíslegum hætti og munum vel hjartahlýju hennar og endalausa gjafmildina. Ella var eldri systir mömmu og á milli þeirra var ósýnilegur strengur sem aldrei slitnaði.

Þannig er minningin sterk þegar mamma og Ella hittust fyrir nokkrum árum hjá Ellu á Grund, báðar orðnar aldraðar og ekki hist í mörg ár. Það var ógleymanlegt að upplifa þennan streng væntumþykju þegar þær sátu saman, héldust í hendur og sungu báðar hástöfum þjóðlagið þekkta:

Sestu hérna hjá mér ástin mín

horfðu á sólarlagsins roðaglóð.

Særinn ljómar líkt og gullið vín

léttar bárur þar kveða þýðan óð.

Við öldunið og aftanfrið

er yndislegt að hvíla þér við hlið.

Hve dýrlegt er í örmum þér

að una og gleyma sjálfum sér.

(Jón frá Ljárskógum)

Ella var einstaklega hnyttin og ljóðafrásagnir hennar og sögur voru oft magnaðar.

Við minnumst stunda á Hallormsstað þar sem lesið var upphátt langt fram á kvöld. Seinna meir borgarferða þar sem Ella fór með okkur í strætóferðir í leit að bókagjöfum handa okkur. Hún vildi kynna okkur undraheim bókanna. Heim sem hún þekkti svo vel. Með henni upplifðum við okkur stór og einlæg hlýja hennar og gjafmildi fylgir okkur alltaf. Henni þótti vænt um okkur og vildi vera okkur góð. Sums staðar í fjölskyldunni er talað um Ellu-genin til að lýsa þessum mannkostum væntumþykju og gæsku.

Við sendum Ingu Steinu, Ingólfi, Óskari Grími og fjölskyldum þeirra allra innilegar samúðarkveðjur og hlýjum okkur við góðar minningar um stórbrotna konu.

Guðrún, Ragna Dóra, Inga Ósk og Sigurjón Gísli Rúnars- og Valgerðarbörn.