Samhengið Hér sést vel hvernig meðferðarkjarninn gnæfir yfir eldri byggingar Landspítalans.
Samhengið Hér sést vel hvernig meðferðarkjarninn gnæfir yfir eldri byggingar Landspítalans.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Það er fallegur vetrarmorgunn í Reykjavík þegar þau Ólafur M. Birgisson og Bergþóra Smáradóttir taka á móti blaðamanni og ljósmyndara við meðferðarkjarnann sem er í byggingu við Landspítalann. Það er stillt og kalt og aðstæður til myndatöku með besta móti.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Það er fallegur vetrarmorgunn í Reykjavík þegar þau Ólafur M. Birgisson og Bergþóra Smáradóttir taka á móti blaðamanni og ljósmyndara við meðferðarkjarnann sem er í byggingu við Landspítalann. Það er stillt og kalt og aðstæður til myndatöku með besta móti.

Tilefni heimsóknarinnar er að uppsteypu meðferðarkjarnans er að ljúka en hún hófst í febrúar 2021. Hann er um 70 þúsund fermetrar og því ein stærsta bygging landsins. Byggingar nýja Landspítalans verða alls um 111 þúsund fermetrar.

Borgarbúar hafa fylgst með þessu mikla mannvirki rísa úr djúpri holu fyrir framan gamla Landspítalann. Það gnæfir yfir umhverfið þegar ekið er eftir Hringbraut en við götuna rísa nú fleiri byggingar sem verða hluti hins nýja Landspítala.

Meðal stjórnenda

Ólafur M. Birgisson er teymisstjóri áhættu og samræmingar og Bergþóra Smáradóttir verkefnastjóri útveggjaklæðningar í þessari miklu framkvæmd en þau starfa hjá Nýja Landspítalanum ohf.

Það er upplifun að ganga inn í meðferðarkjarnann og fær maður það á tilfinninguna að byggingin sé mun stærri í sniðum en gamli Landspítalinn sem er að hluta samtengdar byggingar frá mismunandi tímabilum.

Ólafur útskýrir að undir meðferðarkjarnanum sé tveggja hæða kjallari með tengigöngum í nálægar byggingar. Ofan á kjallaranum séu fimm „stangir“, þ.e. byggingarhlutar sem hver og einn gætu verið sjálfstæðar byggingar. Þar af séu fjórar stangirnar sex hæðir, auk tveggja hæða kjallara, en fimmta stöngin á milli þeirra sé lægri bygging. Milli stanganna séu tengigangar og milli þeirra svonefndir ljósgarðar. „Ljósgarðarnir eru hugsaðir til að veita dagsbirtunni inn. Þar með talið niður í neðri rými á spítalanum,“ segir Ólafur.

Ólafur gegnir hlutverki verkfræðings við uppsteypu meðferðarkjarnans. Verkfræðistofan Efla fer með eftirlit með framkvæmdinni sem er í höndum Eyktar. Hluti af starfi hans felst í að eiga við ágreiningsmál og annað sem upp kemur á verktíma og stýra eftirliti.

Ólafur segir áformað að ljúka uppsteypunni í febrúar en aðeins ýmsum smáverkefnum sé ólokið.

Á við Kárahnjúkakápu

„Þegar ég tek á móti hópum á framkvæmdasvæðinu ber ég verkefnið gjarnan saman við eldra verkefni fyrir austan. Það er að segja þegar ég vann við byggingu Kárahnjúkavirkjunar en steypumagnið í meðferðarkjarnanum, alls um 53 þúsund rúmmetrar, er álíka mikið og í kápunni á Kárahnjúkastíflu. Kárahnjúkar voru miklu stærri framkvæmd í heildarmagni steypu. Þá fer álíka mikið bendistál í meðferðarkjarnann og er algengt í virkjanaframkvæmdum. Það er gert til að uppfylla jarðskjálftakröfur. Það fara um 10.500 tonn af bendistáli í meðferðarkjarnann og þar með talið er 32 mm bendistál sem selst ekki mikið hjá birgjum dagsdaglega,“ segir Ólafur.

Miðað við að hver steypubíll taki 8-9 rúmmetra af steypu, og að húsið er 53 þúsund rúmmetrar, hefur þurft að aka rúmlega sex þúsund ferðir í uppsteypuna.

Fyrsta útveggjaeiningin við nýjan meðferðarkjarna Landspítalans var sett upp föstudaginn 1. desember. Nánar tiltekið á fyrstu hæð suðurenda vestustu stangarinnar, gegnt BSÍ. Þegar svæðið var heimsótt var búið að klæða alla fyrstu hæðina á gaflinum á aðeins tæpri viku.

Fullklædd í febrúar

Ólafur segir áætlað að búið verði að klæða vestustu stöngina í febrúar. Framvindan muni þó fara eftir veðri og aðstæðum í vetur. Það verði veruleg útlitsbreyting þegar einingarnar eru komnar upp.

Útveggjaeiningarnar eru festar og skrúfaðar upp á stálfestingar sem eru steyptar í veggina. Hver eining er í senn útveggur, gluggi og klæðning. Saman mynda einingarnar ytra byrði hússins ef frá er talinn frágangur á þaki. Ólafur segir einingarnar sem hvíla á hverri festingu misþungar og misháar.

Nýi Landspítalinn ohf. samdi við litháíska útveggjaverktakann Staticus um hönnun, framleiðslu og uppsetningu á útveggjum meðferðarkjarnans.

30 þúsund fermetrar

Bergþóra segir klæðninguna munu verða samtals um 30 þúsund fermetrar. Sennilega séu engin fordæmi fyrir svo stórri klæðningu á Íslandi en hvað útfærsluna varðar megi helst nefna klæðningu, sem sett var nýlega á hús Orkuveitu Reykjavíkur, en það er miklu minni bygging.

Bergþóra segir undirbúninginn að uppsetningu útveggjaeininganna lengri en almennt gerist þegar verið er að klæða byggingar á Íslandi. Að baki sé langur undirbúningur að uppsetningunni og samvinna með hönnuðum, arkitektum og svo verktakanum sjálfum, Staticus.

Áformað sé að ljúka við að klæða allt húsið á fyrri hluta árs 2025.

Spurð hvernig hinn dæmigerði vinnudagur sé segist Bergþóra vera mikið í tölvunni og í alls konar konar samskiptum, bæði við verktakann og hönnuðina.

„Þessi samningur er eini framkvæmdasamningurinn okkar á ensku. Þannig að mín samskipti eru eingöngu á ensku eins og er.“

– Hvað heldurðu að Íslendingar muni læra af þessari framkvæmd?

„Það er góð spurning. Að við getum þetta, þrátt fyrir verulegt flækjustig,“ segir hún. Leiðin liggur næst í lyftu við vestustu stöngina. Lyftan er opin og á leiðinni upp að þakbrún sjöttu hæðar má njóta mikils útsýnis yfir miðborgina og Vatnsmýrina. Af þakinu fæst óvenjulegt sjónarhorn á miðborgina. Hæðarmunurinn milli Skólavörðuholtsins virðist horfinn eins og ef staðið væri við hlið Hallgrímskirkju.

Gert fyrir jarðskjálfta

Við göngum svo í austur á þakinu og klöngrumst yfir lágan vegg milli vestustu stangarinnar og aðliggjandi stangar. Athygli vekur að fyrir framan hann er þenslurauf sem virðist ná niður á fyrstu hæð.

Ólafur útskýrir að raufin sé 16-17 cm breið og gegni tilteknu hlutverki.

„Það er gert ráð fyrir að byggingarnar geti hreyfst til í stórum jarðskjálfta og hafa stangirnar því sitt rými. Þannig að ef stór jarðskjálfti ríður yfir geti spítalinn verið starfshæfur innan skamms tíma.“

– Hvað telst vera stór skjálfti?

„Miðað er við 6,5-7 á Richter-kvarðanum en upptökin eru þá suðaustan við spítalann, töluvert langt frá eða í Brennisteinsfjöllum.“

– Hvernig er þakið klætt á húsinu?

„Útveggjaeiningarnar standa aðeins upp úr húsinu og þannig myndast þakkantur. Síðan er lagður heilbræddur tjörupappi á þakið og hefðbundin einangrun. Síðan er lagt annað dúklag til að þétta betur og loks verður allt þakið hellulagt.“

– Hvers vegna er ekki hallandi þak?

„Það er hallandi. Við erum búin að steypa hallandi þak.“

– Þannig að þakið hallast inn á við?

„Já,“ segir Ólafur og útskýrir að jafnframt þurfi að taka mið af hæðarskilmálum deiliskipulags vegna nálægðar við Reykjavíkurflugvöll. Við tökum síðan lyftuna niður á jarðhæð. Göngum að syðsta vegg vestustu stangarinnar og hittum fyrir iðnaðarmenn sem eru að setja upp útveggjaeiningar.

Spurð hvort einingarnar muni þola íslenska veðurfarið, þar með talið þegar regn og snjókoma fýkur upp í móti, segir Bergþóra að þær hafi staðist ströng slagveðurs- og jarðskjálftapróf.

„Svo er auðvitað gerð ríkari krafa fyrir þessa byggingu en flestar byggingar hvað varðar hljóðvist, brunavarnir og slíkt.“

Strangar veðurprófanir

– Hvar fara þessar prófanir fram? Þá meðal annars slagveðursprófin?

„Slagveðursprófin og jarðskjálftaprófin fóru fram hjá óháðum faggiltum prófunaraðila í Bretlandi sem er umsvifamikill á sínu sviði. Hér eru gerðar miklar kröfur og hafði starfsfólk prófunarstöðvarinnar ekki áður séð jafn viðamiklar álagstölur og við báðum um,“ segir hún.

Við göngum svo að upphafsstað en á leiðinni mæta okkur flutningabílar við grunn fyrir viðbyggingu við Læknagarð, hús heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, nýjasta verkefni Nýs Landspítala ohf. við Hringbraut. Þá er félagið að byrja á nýju húsi við Grensásdeild spítalans.

Höf.: Baldur Arnarson