Hallveig Friðþjófsdóttir fæddist á „Norðurpólnum“ á Akureyri 19. mars 1955, yngst sex systkina. Hún lést á Universitet hospitalet Syd í Danmörku 11. nóvember 2023.

Foreldrar hennar voru Friðþjófur Ísfeld Gunnlaugsson, f. 1914, d. 2008, og Steinunn Konráðsdóttir, f. 1914, d. 1988.

Systkini Hallveigar voru Vignir, f. 1941, d. 1997, Sigurður Anton, f. 1942, d. 1980, Gísli, f. 1946, d. 1946, Vilhjálmur, f. 1947, d. 2018 og Steinunn Erla, f. 1950, d. 2022.

Hallveig kynntist eftirlifandi sambýlismanni sínum, Tonni Rudi Christensen, f. 3.12. 1958, í Kaupmannahöfn árið 1979. Foreldrar hans voru Kiss Christensen, f. 1930, d. 2004, og Rudi M. Christensen, f. 1934, d. 2019. Börn Hallveigar og Tonnis eru: 1) Stella, f. 1982, í sambúð með Janusi Bjarnasyni, f. 1971. Börn þeirra eru Anja Steinunn, Örn Tonni, Leo Brynjar og Halla Brynja. 2) Daníel, f. 1983. Börn hans eru Hallveig Ósk og Reynir Kató. 3) Anton Björn, f. 1989, í sambúð með Maria Concepción, f. 1981. Börn þeirra eru Sofia og Salvador.

Þegar Hallveig var fimm ára fluttist fjölskyldan upp í Hamarstíg 33, og þar bjó fjölskyldan, ásamt móðurömmu og afa hennar, Þórhöllu og Konráði. Var þar ávallt gestagangur mikill og nándin við eldri kynslóðina mótaði Hallveigu mikið. Fyrsta skólaárið gekk hún í smábarnaskóla Jennu og Hreiðars, svo í Barnaskólann og Gagnfræðaskólann og loks í MA þaðan sem hún útskrifaðist sem stúdent 1975. Hún var Akureyringur í húð og hár og minntist hún æskunnar, fjölskyldunnar, skólaáranna og vinanna ávallt með hlýhug og kærleika.

Eftir stúdentsárin lá leiðin til Reykjavíkur og loks til Kaupmannahafnar þar sem hún kynntist manni sínum, Tonni. Saman fluttu þau til Íslands árið 1981 og ári síðar fæddist frumburðinn hún Stella og skömmu síðar, eða 1983, hann Daníel. 1984 fluttist fjölskyldan aftur utan, til Bröndby Strand þar sem Hallveig nam sjúkraliðann við Sygeplejeskolen i Glostrup og útskrifaðist 1987, samhliða vinnu á sjúkrahúsinu. Haustið 1988 fluttust þau til baka í Hamarstíginn og ári síðar, eða 1989, fæddist örverpið hann Anton Björn. Hallveig vann lengst af á FSA og Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri og samhliða vinnu bætti hún við sig BSc.-gráðu í hjúkrunarfræði við HA sem hún lauk með fyrstu einkunn 1993 og síðar viðbótardiplóma í svæfingahjúkrun við HÍ (2005) samhliða tveimur vinnum og þremur börnum. Umhyggja og náungakærleikur var henni í blóð borið og gat hún hrist fram úr erminni alls konar vísur og spakmæli.

Árið 2010 fluttust hún og Tonni til Álaborgar þar sem hún vann fulla vinnu allt þar til hún greindist með krabbamein í vor.

Útför Hallveigar fer fram í Akureyrarkirkju í dag, 15. desember 2023, klukkan 13.

„Mamma, þetta er minningargrein en ekki kveðjubréf, ekki satt?“ Manstu, þú minntir mig reglulega á muninn á þessu tvennu. Ég ætla að gera mitt besta við að skrifa minningargrein. Hún mamma var ekki bara mamma, hún var MAMMA mín. Sú sem grét úr hlátri með mér yfir „djöfulsins vitleysu“, sú sem þótti lítið mál að fíflast á almannafæri, sem hlustaði alltaf og gaf góð ráð (umbeðin og óumbeðin), sem hringdi annan hvern dag bara til að athuga með okkur, sem kenndi mér að meta fjölskylduna og ættarsöguna, virða aðra, ýtti á mig að gera alltaf mitt besta og síðast en ekki síst innrætti okkur systkinunum að allir væru jafnir, sama hver ættartengsl fólks væru. Fátæk eða rík, menntuð eða ómenntuð með andlega eða líkamlega sjúkdóma o.s.frv. Hún mamma fór nefnilega ekki í manngreinarálit, heldur stóð frekar með þeim sem minna máttu sín ef eitthvað var!

Mamma var mikill viskubrunnur. Það var líkt og ef hún hafði heyrt eitthvað eða lesið, þá festist það í minnið. Að horfa á spurningakeppnir í sjónvarpinu með henni var nánast ógjörlegt, í 97% tilvika var hún löngu komin með rétt svar áður en keppandinn hafði heyrt alla spurninguna. Hún var í einu orði sagt ótrúleg. Þótt mæting hennar í einhverjum fögum á yngri árum hafi ekki alltaf verið 100%, þá náði hún ávallt öllum prófum með afbragðs einkunnum.

Þegar hún var lítil bjuggu afi hennar og amma á heimilinu og var afi hennar Konráð Vilhjálmsson afar vel að sér um sögu og tungu íslensku þjóðarinnar, samdi kvæði og ljóð (auk mikils áhuga á ættfræði) og er öruggt mál að það hafði áhrif á hana mömmu. Hún var með íslensku málfræðina upp á tíu, og aldrei hef ég sent frá mér ritgerð eða skrif án þess að fá hana til að fara yfir áður en ég lét þau frá mér. Ja, ekki fyrr en nú. Mikið vantar mig að geta fengið hana mömmu til að lesa þetta yfir og leiðrétta bæði málfar og stafsetningu. Það síðarnefnda hefur a.m.k. aldrei verið mín sterka hlið. Þegar mamma var sjö ára lést afi hennar og fékk hún þá að deila herbergi með ömmu sinni. Ég spurði hana um daginn hvernig það hefði eiginlega verið og mamma ljómaði og sagði að það hefði verið „yndislegt“. Amman var kvenskörungur mikill og hélt ekki aftur af skoðunum sínum og þó að mamma hafi ávallt verið kurteis og kunnað sér hóf, þá var hún svipuð. Hún sagði sína skoðun og stóð fast á sínu. „Rétt skal vera rétt, sanngirni framar öðru!“ Mamma var dugleg, eiginlega of dugleg. Ég man ekki til þess að hún hafi „bara“ verið í einni vinnu. Alltaf var hún að vinna á tveimur stöðum, ef ekki fleirum, og heimilisstörfin sá hún líka mestmegnis um. Hvaðan hún fékk orkuna í allt sem hún gerði veit ég ekki, en í dag, er ég lít til baka, hefði ég óskað þess að hún hefði leyft sér að slaka á og njóta, látið aðra grípa boltann. Nóg hefur hún gert fyrir aðra um ævina og átti svo sannarlega skilið að setjast í helgan stein, áhyggjulaus, umvafin barnabörnunum sem hún saknaði alla daga. Guð einn veit hve heitt og innilega ég elska mömmu mína og hve stolt ég ávallt hef verið yfir að vera dóttir Hallveigar.

Stella Christensen.

Símtalið kom að morgni. Hallveig var látin. Helsár staðreynd sem enn er erfitt að meðtaka.

Við vissum að hún var mjög veik, að meinið var banvænt en héldum að hún fengi lengri tíma. Það voru bara sjö mánuðir frá greiningu.

Svo stutt síðan við sátum í dagstofunni á lyfjadeild SAK og hún fór á kostum með gamansögum úr leik og starfi, enda gædd einstakri frásagnargáfu.

Hún var lögð inn vegna lungnabólgu meðan hún dvaldi í heimabænum til að njóta samvista við syni sína og fólkið þeirra, umvefja ömmubörnin og hitta kæra vini. Eftir útskrift hélt hún aftur til Hveragerðis og dvaldi með dótturfjölskyldunni þar til hún hélt heim til Álaborgar og Tonna. Örfáum dögum síðar var hún látin.

Ég man Hallveigu fyrst sem vinkonu litlu systur minnar. Vinátta þessara stelpuskotta spannaði skólagönguna, unglings- og fullorðinsárin öll og landfræðileg fjarlægð breytti þar engu. Seinna urðu þær vinkonurnar örlagavaldar í lífi mínu þegar ég gegnum þær kynntist Vigni, elsta bróður Hallveigar, sem seinna varð eiginmaður minn. Þegar Vignir lést skyndilega stóðu þær svo fallega við bakið á mér Reyndar lét Hallveig mig ævinlega finna að ég væri velkominn og kær hluti af fjölskyldunni.

Hallveig og Tonni Christensen barnsfaðir hennar og sambýlismaður til æviloka hófu búskap í húsi foreldra hennar og eignuðust þar tvö elstu börnin, Stellu og Daníel. Fjölskyldan bjó nokkur ár í Danmörku en flutti svo aftur heim í Hamarstíginn. Yngsta barnið, Anton Björn, fæddist á Akureyri og þar lagði Hallveig stund á og lauk hjúkrunarnámi. Hennar sérsvið varð svæfingarhjúkrun og við það starfaði hún starfsárin á Akureyri.

Unga fjölskyldan bjó á efri hæð æskuheimilis Hallveigar og ættfaðirinn Friðþjófur flutti niður í kjallaraíbúðina og bjó þar við gott atlæti í skjóli dóttur sinnar og fjölskyldu til æviloka.

Eftir andlát Friðþjófs fluttu Hallveig og Tonni til Álaborgar og þar starfaði hún við sitt fag þar til sjúkdómurinn tók frá henni starfsgetuna.

Þegar við Hallveig urðum mágkonur kynntist ég því enn betur hvílík mannkostamanneskja hún var. Hún var ekki aðeins skarpgreind og skemmtileg, hún var einstaklega trygglynd og ættrækin, mikil fjölskyldumanneskja og góður vinur. Hún var ásamt Erlu systur sinni límið og kletturinn í stórfjölskyldunni. Þegar Erla lést í fyrra hafði Hallveig misst öll systkini sín og ekkert þeirra náð háum aldri.

Útför Hallveigar fer fram í heimabænum, frá kirkjunni sem stendur svo fallega uppi á hæðinni, líkt og hún vaki yfir bænum. Mig tekur sárt að vera ekki í hópi þeirra sem í dag kveðja og fylgja henni síðasta spölinn, en hugurinn verður heima, með ástvinum hennar og öllum þeim sem hana syrgja.

Elsku Tonni, Stella, Daníel og Anton Björn, Guð gefi ykkur og ástvinum ykkar blessun og styrk á leiðinni sem er fram undan. Megi minningin um ástríka móður og einstaka konu styrkja ykkur á þeirri leið.

Blessuð sé minning Hallveigar Friðþjófsdóttur og hafi hún hjartans þökk fyrir allt sem hún gaf okkur.

Jóna Lísa Þorsteinsdóttir.

Við Hallveig kynntumst sumarið áður en við byrjuðum í 4. bekk í Barnaskóla Akureyrar. Við sátum saman og upp frá því fylgdumst við að alla skólagöngu okkar á Akureyri. Það varð allt skemmtilegra þegar við urðum vinkonur. Við vorum svo sannarlega bestu vinkonur og trúðum hvor annarri fyrir öllu. Á þessum árum var varla önnur okkar nefnd nema hin fylgdi með. Við bjuggum í sömu götu, aðeins tvö hús á milli okkar. Við dvöldum langdvölum heima hjá hvor annarri, sennilega mest heima hjá Hallveigu. Þangað var gott að koma. Mamma hennar var heimavinnandi húsmóðir og tók okkur fagnandi. Skólaganga okkar var hefðbundin og okkur gekk ágætlega. Þegar við komum í Menntaskólann á Akureyri varð metnaðurinn minni. Sjallinn var stundaður um helgar og gjarnan setið á kaffihúsum á daginn. Við völdum félagsfræðideild og vorum í fyrsta árganginum sem útskrifaðist. Við skemmtum okkur mjög vel og nutum lífsins. Þegar við urðum gjaldgengar á vinnumarkaði unnum við saman öll sumur fram yfir stúdentspróf. Flest sumur unnum við á Hlíð og fannst það frábært. Eftir stúdentsprófið skildi leiðir. Hallveig var áfram á Akureyri en flutti seinna til Kaupmannahafnar þar sem hún kynntist sambýlismanni sínum Tonni. Þau fluttu til Íslands og börnin fæddust. Þau áttu eftir að flytja út aftur allavega tvisvar. Í síðustu flutningum fóru þau til Álaborgar og bjuggu þar. Í Danmörku tók hún sjúkraliðapróf. Á Akureyri lærði Hallveig hjúkrunarfræði og í framhaldi bætti hún við námi í svæfingahjúkrun. Það vafðist ekkert fyrir henni að læra það sem hún hafði áhuga á og fór létt með það. Hallveig var einstaklega skemmtileg manneskja. Einstök kímni og frásagnarhæfileikar skemmtu fólki ómælt enda orðheppin og skörp. Hún var einnig afar hreinskiptin og sagði manni til syndanna ef henni fannst eitthvað ekki vera eins og það ætti að vera. Ég tók gagnrýni hennar oft til mín og reyndi að gera betur. Hún var hlý og umhyggjusöm við sitt fólk og sá t.d. um pabba sinn þar til hann lést. Lífið var ekki alltaf létt hjá henni frekar en mörgum öðrum en ekki kvartaði hún. Henni fannst margt mjög athugavert hér á Íslandi og misskipting auðs óþolandi og fór ekki dult með það. Börnin hennar Stella, Daníel og Anton Björn voru hennar stolt og gleði, að ógleymdum barnabörnunum átta. Hún var afar dugleg að koma heim að hitta fjölskylduna, hvetja börnin áfram og styðja við þau eins og mögulegt var.

Vinskapur okkar varði alla tíð og var mikils virði. Við hittumst skömmu áður en hún fór frá Akureyri í nóvember síðastliðnum og áttum gott spjall eins og alltaf. Veikindin höfðu tekið sinn toll af henni en seiglan og þrjóskan réðu og hún flaug heim til Danmerkur nokkrum dögum síðar, þar sem hún lést á sjúkrahúsi í Álaborg. Einstök kona hún Hallveig sem verður sárt saknað.

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra elsku fjölskylda frá okkur Guðmundi.

Margrét Þorsteinsdóttir.

hinsta kveðja

Svo viðkvæmt er lífið sem
vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann
allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Elsku vinkona mín, takk fyrir allt.

Heiðrún.