Jóhann Rúnar Björgvinsson
Jóhann Rúnar Björgvinsson
Fyrir farsæla hagstjórn og sóknarfæri í ferðaþjónustu til lengri tíma þarf að styrkja verulega þátt ferðaþjónustu í þjóðhagslíkönum!

Jóhann Rúnar Björgvinsson

Fyrir farsæla hagstjórn hér á landi er brýnt að efla til muna hlut ferðaþjónustu í þjóðhagslíkönum þannig að þau spegli mun betur raunveruleikann. Beinast liggur við að uppfæra þau líkön sem hafa verið í reglubundinni notkun um langt árabil, þ.e. líkön Seðlabankans og Hagstofunnar. Segja má að einungis ein jafna sé í þeim líkönum sem beint endurspeglar eftirspurn erlendra ferðamanna eftir innlendri þjónustu.i] Með styrkingu væri eðlilegast að byggja á svokölluðum ferðaþjónustureikningum (TSA-reikningum) sem að hluta til hafa verið framleiddir af Hagstofunni frá árinu 2008. Með nýtingu þeirra má bæta undirgreinum ferðaþjónustunnar inn í líkönin, s.s. ferðaneyslu í samgöngum, gistingu, veitingum, verslun o.s.frv. Nýsjálendingar hafa sem dæmi allt að sex jöfnur tengdar ferðaþjónustu í samgöngum í sínum líkönum og fimm tengdar ferðaþjónustu í gistingu. Fjölmargar þjóðir hafa styrkt þjóðhagslíkön sín með þessum hætti á undanförnum árum enda líklegt að aukin velsæld og breytt aldurssamsetning þjóða muni auka ferðaþjónustuna til muna í framtíðinni.

Hagstjórnaráskoranir

Fyrir covid var framlag (virðisauki) ferðaþjónustu til landsframleiðslunnar ríflega 8% af framleiðslunni og hefur greinin alla burði til að verða langstærsta atvinnugrein landsins. Rætur virðisaukans eru í vinnuafli, fjármagni og auðlindanotkun. Mikið vinnuafl starfar í greininni, en fjármagn er þar einnig mjög mikið í samgöngum, gistingu, veitingum og afþreyingu. Arðurinn (virðisaukinn) af auðlindanýtingu er hins vegar að mestu óbeinn en dæmi eru þó um beina nýtingu eins og t.d. tengt Bláa lóninu og Kerinu. Þá er ljóst að hinn öri vöxtur í ferðaþjónustu undanfarin misseri hefur haft í för með sér verulegar hagstjórnaráskoranir, þ.e. mikið ójafnvægi á ýmsum mörkuðum (s.s. á húsnæðismarkaði), sem bregðast verður við. Til að skilja betur hvaða hagstjórnaráskorunum við stöndum frammi fyrir á komandi árum vegna árlegs vaxtar ferðaþjónustu er mjög áríðandi að þjóðhagslíkön spegli sem best veruleikann og þá hvata sem eru að verki.

Sóknarfæri í ferðaþjónustu

Fyrir framtíðarhagvöxt er mikilvægt að líta á hinn mikla fjölda ferðamanna sem heimsækir landið sem auðlind (stækkun hagkerfisins) sem hægt er að nýta til frekari virðisauka fyrir land og þjóð. Í fræðunum segir að megintilgangur ferðalaga sé 1) frí/afþreying, 2) vinir/vandamenn, 3) verslun, 4) viðskipti, 5) menntun, 6) heilbrigðisþjónusta, 7) trúarbrögð, 8) fríhöfn og 9) annað. Sé horft til ferðaþjónustu vítt og breitt um heiminn þá er samsetning hennar afar mismunandi, eða allt frá megináherslu á sól/afþreyingu (Spánn), verslun/viðskipti (Bretland), menningu (Frakkland), náttúru (Nýja-Sjáland), menntun (Bandaríkin), heilbrigðisþjónustu (Ungverjaland) og trúarbrögð (Sádi-Arabía). Hér á landi hafa skapast tækifæri í ferðaþjónustu tengdri t.d. heilbrigðisþjónustu með áformum um rekstur sérhæfðra sjúkrahúsa í Reykjanesbæ (2010) og Mosfellsbæ (2016).ii] Á sviði ferðaþjónustu eru því fjölmörg sóknarfæri, en það er áskorun okkar að sækja fram og bjóða þær afurðir sem gefa samfélaginu hvað mest til lengri tíma litið. Með styrkingu TSA-reikninga og þjóðhagslíkana er mun betur hægt að meta möguleg sóknarfæri í ferðaþjónustu og ávinninginn fyrir þjóðarbúið.

i] Exs = exc + trade – exc rex; EXS stendur fyrir útflutning á þjónustu, TRADE fyrir eftirspurn viðskiptaþjóða og REX fyrir raungengi (sjá QMM 4.0 Handbók, des. 2019 á vef SÍ).

ii] Hliðstæð sóknarfæri eru í lyfjaiðnaði hér á landi (vara vs þjónusta).

Höfundur er fv. starfsmaður ÞHS, Hagstofu, FJR og AGS.