Framleiðsla Telja má líklegt að evrópskar höfuðstöðvar JBT í Evrópu verði á Íslandi ef af yfirtöku á Marel verður.
Framleiðsla Telja má líklegt að evrópskar höfuðstöðvar JBT í Evrópu verði á Íslandi ef af yfirtöku á Marel verður. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is Margir af núverandi hluthöfum Marels, bæði stórir og smáir, eru jákvæðir gagnvart uppfærðu yfirtökutilboði bandaríska félagsins John Bean Technologies Corporation (JBT). Viðmælendur blaðsins úr hópi hluthafa vænta þess að stjórn Marels samþykki að hefja viðræður við JBT, þó enn eigi eftir að koma í ljós hvort þeim viðræðum ljúki með yfirtöku félagsins á Marel og þá á hvaða gengi.

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Margir af núverandi hluthöfum Marels, bæði stórir og smáir, eru jákvæðir gagnvart uppfærðu yfirtökutilboði bandaríska félagsins John Bean Technologies Corporation (JBT). Viðmælendur blaðsins úr hópi hluthafa vænta þess að stjórn Marels samþykki að hefja viðræður við JBT, þó enn eigi eftir að koma í ljós hvort þeim viðræðum ljúki með yfirtöku félagsins á Marel og þá á hvaða gengi.

JBT sendi sem kunnugt er inn uppfærða óskuldbindandi viljayfirlýsingu um mögulegt yfirtökutilboð í allt hlutafé Marels seint í fyrrakvöld. Fyrirhugað verð í tilboðinu er 3,4 evrur á hvern hlut, eða um 511 krónur. Það er um 8% hærra en tilboðið sem JBT gerði í allt hlutafé í Marel þann 24. nóvember sl., en stjórn Marels hafnaði því tilboði. Þá er uppfært tilboð um 17% yfir skráðu gengi við lok markaða í fyrradag.

Íhuga skráningu hér á landi

Eins og komið hefur fram gerir JBT ráð fyrir því að greiða allt að 50% af endurgjaldi með reiðufé og allt að 100% í formi hlutabréfa í sameinuðu félagi. Það er leið sem mörgum viðmælendum blaðsins úr hópi hluthafa hugnast, þ.e. að hafa aukið val um það hvernig greitt er fyrir bréfin, og kann að liðka til fyrir samþykki tilboðsins.

Það á sérstaklega við um lífeyrissjóði sem hugnast að eignast hlut í JBT. Ef af kaupunum verður og greitt verður fyrir með hlutafé eingöngu, á þvi gengi sem nú er lagt upp með, munu hluthafar Marels eignast um 45% hlut í JBT en eðli málsins samkvæmt minna ef greitt er fyrir hluta með reiðufé.

Þá tilkynnti JBT jafnframt að félagið væri tilbúið að íhuga skráningu í Kauphöllina hér á landi, en félagið er nú þegar skráð á markað í New York. Einnig kemur fram að JBT sé tilbúið til að halda því sem félagið kallar evrópskar höfuðstöðvar hins sameinaða félags í Garðabæ.

Það er nokkur samhljómur meðal þeirra hluthafa sem Morgunblaðið hefur rætt við um að uppfært tilboð JBT komi til móts við þær athugasemdir sem gerðar voru við fyrra tilboðið. Nú sé komið fram tilboð sem vert sé að taka efnislega afstöðu til.

Hafa áður sýnt Marel áhuga

Morgunblaðið greindi frá því undir lok október að erlendir aðilar hefðu þreifað fyrir sér um fjárfestingu í Marel með það fyrir augum að eignast meirihluta í félaginu eða félagið í heild sinni. Samkvæmt upplýsingum blaðsins höfðu fleiri en JBT kannað landið í þeim efnum, en hafa þarf í huga að heimur fyrirtækja sem framleiða og selja tæki til matvælaframleiðslu er í sjálfu sér ekki stór.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur JBT áður þreifað fyrir sér um kaup á Marel. Þá var horft til þess að mikil samlegðaráhrif gætu orðið með samruna félaganna. Eftir því sem Morgunblaðið kemst næst eiga þau rök enn við.

Það er í sjálfu sér eðlilegt að yfirtökutilboð komi fram með þessum hætti nú. Eins og áður hefur verið fjallað um hefur rekstur Marels gengið brösuglega á síðastliðnum árum sem hefur að sama skapi endurspeglast í hlutabréfaverði félagsins.

Gengið tekur við sér

  • Gengi bréfa í Marel hækkaði um 7,9% í um 1,1 ma.kr. viðskiptum í Kauphöllinni í gær. Gengi Marels hefur hækkað um rúm 35% frá því að fyrra yfirtökutilboðið kom fram undir lok nóvember, en hafði fram að því lækkað um 29% frá áramótum eftir mikla lækkun sem hófst um miðjan maí. Þróunin á gengi félagsins í kauphöllinni í Amsterdam, þar sem félagið er einnig skráð, hefur verið með sambærilegum hætti. Gengi bréfa var þar við lok markaða í gær 3,1 evra á hlut.